Vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl.

Þriðjudaginn 15. júní 1999, kl. 14:51:43 (290)

1999-06-15 14:51:43# 124. lþ. 6.1 fundur 9. mál: #A vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl.# frv., PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 6. fundur, 124. lþ.

[14:51]

Pétur H. Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. fór víða í framsögu sinni og talaði m.a. um að verð á fasteignum hefði hækkað um 10--20% og það hefði svo aftur valdið hækkun á vísitölunni og það hefði aftur hækkað skuldir fjölskyldunnar. Hún talaði mikið um stórauknar skuldir fjölskyldunnar og heimilanna.

Nú er það þannig að eignir heimilanna eru mismunurinn: fasteignaverð mínus skuldir. Ef fasteignaverð hefur hækkað mikið, sem var reyndar orðið tímabært því að það hafði staðið í stað lengi, þá aukast nettóeignir heimilanna og það er af hinu góða.

Varðandi það að rýmkun greiðslumats leiði fólk í gildru, eins og hv. þm. sagði, þá er það náttúrlega forsjárhyggja af verstu tegund. Ég treysti fólki vel til þess að sjá sjálft um fjármál sín.

Í kosningabaráttunni, jafnvel hjá Samfylkingunni, kom fram að það væri mjög mikilvægt að minnka skuldir ríkissjóðs og minnka halla. Í þessari tillögu er einmitt gert ráð fyrir að auka skuldirnar.