Vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl.

Þriðjudaginn 15. júní 1999, kl. 15:23:42 (300)

1999-06-15 15:23:42# 124. lþ. 6.1 fundur 9. mál: #A vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl.# frv., fjmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 6. fundur, 124. lþ.

[15:23]

Fjármálaráðherra (Geir H. Haarde) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil taka undir það með ræðumanni að það er auðvitað verkefni okkar allra að reyna að framlengja hagvaxtarskeiðið sem við höfum upplifað í nokkur ár. Vonandi tekst okkur það þrátt fyrir að ýmsir í salnum séu andvígir uppbyggingu sem geti flýtt fyrir þeirri þróun eins og fram kom í salnum í gær.

Ég vil taka fram að það hefur ekki staðið upp á þennan fjmrh. að taka þátt í umræðu um þjóðhagslegan sparnað. Ég setti á laggirnar sérstaka nefnd til að gera tillögur í þeim efnum og við hrintum í framkvæmd nokkru af ábendingum og tillögum sem þar komu fram. Ég tek undir það með þingmanninum að auðvitað er mjög æskilegt að reyna að efla þjóðhagslegan sparnað. Um það er fjallað í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar. Það er auðvitað virkasta leiðin til að vinna bug á viðskiptahallanum.

Hv. frsm. Jóhanna Sigurðardóttir lét þess getið að viðskiptahallinn væri mikill og ég gat um það áðan, en erlendar skuldir þjóðarbúsins færu vaxandi. Það er sami hluturinn. Þegar viðskiptahallinn eykst þá aukast skuldir þjóðarbúsins. Það er bara uppgjörsmál.

Hér hefur það hins vegar gerst að erlendar skuldir og aðrar skuldir ríkissjóðs hafa minnkað meðan aðrir í þjóðfélaginu hafa fengið meira svigrúm og aukið skuldir sínar, atvinnulífið, bankarnir, fjármálastofnanir og einkaaðilar af ýmsu tagi.

Verkefnið er að halda öllu þessu innan eðlilegs ramma, að ekki verði slík þensla hér að þetta fari úr böndum. Það eru ekki líkur á því að svo verði, sem betur fer. Ég vona að við hv. þm. Össur Skarphéðinsson séum sammála um að gera allt sem við getum til að koma í veg fyrir það með tiltækum ráðum í ríkisfjármálum og peningamálum.