Vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl.

Þriðjudaginn 15. júní 1999, kl. 15:30:10 (303)

1999-06-15 15:30:10# 124. lþ. 6.1 fundur 9. mál: #A vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl.# frv., Flm. JóhS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 6. fundur, 124. lþ.

[15:30]

Flm. (Jóhanna Sigurðardóttir) (andsvar):

Herra forseti. Mér finnst athyglisvert þar sem Sjálfstfl. gefur sig ávallt út fyrir það að vera boðberi skattalækkana að hæstv. fjmrh. viðurkennir sem er auðvitað satt og rétt að bifreiðagjaldið, sem við viljum að verði hætt við, er ekkert annað en skattahækkun. En mér fannst enn athyglisverðara það sem hæstv. ráðherra sagði áðan. Hann hafði ekki nokkrar áhyggjur af skuldum heimilanna --- mér finnst það bara frétt út af fyrir sig --- hann hafi ekki nokkrar áhyggjur af þeim skuldum sem hafa hækkað í tíð síðustu ríkisstjórnar um 130 milljarða og um 3 milljarða nú bara vegna þessara hækkana sem hafa verið að dynja yfir.

Vissulega er samhengi á milli stjórnvaldsaðgerða og skulda heimilanna og væri hægt að tína margt þar til, ýmsar aðgerðir sem farið var í af hálfu ríkisstjórnarinnar á síðasta kjörtímabili. Niðurskurður á barnabótum og fleira er auðvitað til þess að rýra ráðstöfunartekjur heimilanna og verður til þess ásamt og með lágum launum margra heimila hér á landi að fólk þarf að taka neyslulán sem eykur auðvitað skuldir heimilanna. Ég vil biðja hæstv. ráðherra að lesa það sem er í Morgunblaðinu í morgun þar sem verið er að rifja upp það sem gerðist hjá hinum Norðurlandaþjóðunum fyrir nokkrum árum þegar mikil útgjaldaþensla var, eins og er núna í þjóðfélaginu, og heimilin eyddu langt um efni fram. Það leiddi til gjaldþrota heimila og fyrirtækja og mikils taps í bönkunum. Það er einmitt verið að setja fram þá spurningu hvort þetta gæti verið einhver byrjun á slíku ferli hér á landi. En hæstv. ráðherra hefur bara ekki nokkrar áhyggjur af þessum skuldum heimilanna. Mér finnst það athyglisvert að fjmrh. íslensku þjóðarinnar hefur engar áhyggjur af þessu.

Það kemur fram hjá Hagstofunni að verð á bensíni og olíu hækkaði um 6,6% sem hafði í för með sér 0,26% hækkun vísitölunnar, að vísu bara hluta til út af bensíngjaldinu. Ég vil því spyrja hæstv. ráðherra, þar sem hann segir að hann sé ósammála því að fella niður þetta bensíngjald, að ef í ljós kemur við endurskoðaða tekjuáætlun, sem verður væntanlega rædd í fjárln. í fyrramálið, að tekjur ríkissjóðs hafi aukist, er ráðherra þá ekki tilbúinn að skoða það að styðja þetta frv. þar sem um er að ræða tekjutap ríkissjóðs upp á 180 millj. ef í ljós kemur mikil aukning á tekjum ríkissjóðs frá því sem áður var gert ráð fyrir í nafni þess að lækka verðbólguna og þar á meðal skuldir heimilanna?