Vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl.

Þriðjudaginn 15. júní 1999, kl. 15:47:02 (308)

1999-06-15 15:47:02# 124. lþ. 6.1 fundur 9. mál: #A vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl.# frv., RG
[prenta uppsett í dálka] 6. fundur, 124. lþ.

[15:47]

Rannveig Guðmundsdóttir:

Virðulegi forseti. Það urðu orðaskipti fyrir nokkrum mínútum á milli hæstv. fjmrh. og hv. þm. Össurar Skarphéðinssonar og varðaði umræðuna sem var fyrir kosningar um þenslu og fjármálastjórn. Ég verð að segja að það var mjög sérkennilegt að verða vitni að þeirri umræðu af hálfu stjórnarflokkanna. Eftir kosningar voru gerbreytt viðhorf því að þegar Össur Skarphéðinsson var að koma fram með sína skörpu gagnrýni á stjórn ríkisfjármála í kosningabaráttunni var þeirri gagnrýni vísað á bug sem ósanngjörnum kosningaáróðri. Það er staðreynd sem við munum öll þó við höfum ekki verið í kosningabaráttunni í Reykjavík því að svo mjög bar þetta á góma í fjölmiðlum. Það var hins vegar ekki fyrr en um það bil tveimur dögum eftir kosningar sem seðlabankastjóri kom fram og lýsti því hvernig málin stæðu og það var um það bil nákvæmlega það sem hafði verið talað um af hálfu Össurar Skarphéðinssonar, aðallega af okkar hálfu, í kosningabaráttunni. Þannig stóðu þau mál. Engin ástæða er til að hlakka yfir því og heldur engin ástæða til þess að vera að togast mikið á um það núna eftir á hvenær hlutirnir gerðust en það er alveg ljóst að þenslumerkin sem eru til umræðu núna og hafa verið frá því tveimur dögum eftir kjördag voru uppi áður en menn kusu að vera ekki með mjög mikla umræðu um þau viðkvæmu mál vegna þess að stöðugleikinn var það sem haldið var á lofti af hálfu stjórnarflokkanna, stöðugleikanum yrði eingöngu viðhaldið með því að stjórnarflokkarnir yrðu áfram við stjórnvölinn og honum væri þá fyrst verulega ógnað ef aðrir yrðu kallaðir til stjórnar í Stjórnarráðinu.

Hæstv. fjmrh. sagði áðan: ,,... Samfylkingin, eins og hún heitir, ætlar að beita sér fyrir því að sporna við verðbólgu`` --- og að það væri ánægjulegt að fá bandamann. Þetta heitir þingflokkur Samfylkingarinnar og Samfylkingin bauð fram fyrir kosningar. Bara út af orðum ráðherrans, það er ekkert sem svo heitir, það bara er einfaldlega þannig. (Fjmrh.: Svo heitir að beita sér.) Sem svo heitir að beita sér, skulum við hafa það núna.

Við reyndum að fá samvinnu við stjórnarflokkana á Alþingi og ríkisstjórnina og þess vegna tókum við þessi mál upp á fyrsta degi þingsins. Ég var að nefna áðan kosningabaráttuna og mér finnst það frekar skondið núna að áróðurinn sem var svo hávær í kosningabaráttunni, m.a. sá sem var gripinn úr lausu lofti að Samfylkingin ætlaði að hækka bensínið, að í þessari umræðu kemur fjmrh. og segir beinlínis um bensínhækkunina að skattahækkunin slái á þenslu, sú skattahækkun sem birtist í bensínhækkuninni slái á þenslu og það hljóti allir að sjá það. Þetta segir okkur hvernig umræðan snýst og hvernig henni er beitt, eftir því hvar maður er staddur, ekki bara á árinu heldur á leið sinni til valda í Stjórnarráðinu eða eftir að völdum hefur verið náð.

Menn hafa líka sagt að það sé svo lítil hækkun á vísitölu sem verði af t.d. af völdum bensínhækkunarinnar og það sama var nefnt í morgun á fundi iðnn. þegar við töluðum um hækkun á gjaldskrá Landsvirkjunar. Ég ætla aðeins að nefna þá örfáu þætti sem hefur borið á góma í umræðunni um hækkanir.

Vextir hafa hækkað, tryggingaiðgjöld hafa hækkað mikið, bensín hefur hækkað og hluti þess hefur hækkað vegna bensíngjaldsins sem rennur til ríkisins og það hefur komið fram í umræðunni að alls munu renna til ríkisins 225 millj. Þær 225 millj., sem renna til ríkisins, koma úr vösum neytenda. Húsnæði hefur hækkað og nýjasta dæmið sem ég þekki er íbúð sem verðlögð var á 7 millj. kr. í nóvember en var seld á 8 millj. í maí. Þetta hefur verið að gerast og allir sem þekkja eitthvað af fólki sem hefur verið að skoða fasteignamarkaðinn vita að þarna er um verulegar hækkanir að ræða. Þetta er póstur sem verður mjög þungur fyrir þá sem eru að fjárfesta í húsnæði um þessar mundir. En ég get alveg tekið undir það að umræða um húsnæðismál er sérumræða sem við eigum eftir að taka þó að það verði ekki nú. En af því að ráðherra sjálfur valdi að nefna að mikil eftirspurn væri eftir húsnæði þá ætla ég að nefna aðra frétt sem kom fram á síðustu mánuðum að 500 manns hefðu flutt á um það bil þriggja mánaða tímabili utan af landsbyggðinni og hingað suður. Ef 500 manns flytja suður af landsbyggðinni kallar það væntanlega á um það bil 200 íbúðir ef við gefum okkur hefðbundna samsetningu fjölskyldunnar og reiknum með rúmlega tveimur í íbúð. Það kallar á 200 íbúðir sem væru kannski ekki á lausu á þessu þriggja mánaða tímabili en þær fjölskyldur sem þarna er um að ræða þurfa þak yfir höfuðið. Vissulega vakti ráðherrann sjálfur athygli á máli sem hefur ekki verið mikið rætt að öðru leyti en því sem komið hefur fram í umræðunni um kjördæmamálið.

Ég er að telja upp hvað hafi hækkað. Eitt af því sem hefur hækkað og við ræddum um á fyrsta degi þingsins er gjaldskrá Landsvirkjunar. Í morgun var þess líka getið hversu lítil áhrif hún hefði inn í vísitöluna en hækkunin gefur 182 millj. til Landsvirkjunar á ársgrundvelli, sem sagt til ríkisfyrirtækis. Um leið og við sjáum hve há upphæð rennur til ríkisins gegnum bensínhækkun og gegnum gjaldskrá Landsvirkjunar til Landsvirkjunar, þá erum við að tala um yfir 400 millj. kr. sem renna úr einhverjum vösum. Þá erum við ekki að skoða hvaða áhrif vextirnir hafa, tryggingariðgjöldin, húsnæðishækkunin og hvað þá heldur önnur hækkun sem við vitum vissulega um.

Í umræðu um skuldir heimilanna benti ráðherrann á atriði sem ég er sammála honum um, að það er mjög misjafnt hvernig fólk er í stakk búið til að mæta því að takast á við nýjar skuldir. Það er ólíku saman að jafna t.d. fyrir þá sem hér stendur að fara í ný útgjöld og stofna til skulda heldur t.d. margar þær ungu fjölskyldur sem ég þekki í kringum mig. Það er svo ólíku saman að jafna að það er ekki sami hluturinn. Fyrir manneskju á miðjum aldri sem er komin vel fyrir vindinn og er ekki með miklar skuldir, er með góð laun o.s.frv., eða ungar fjölskyldur þar sem bara allt önnur staða er. Það er þessi meðaltalsumræða sem stjórnarflokkarnir bregða stöðugt fyrir sig sem er svo alvarleg þegar verið er að tala um fólk. Fólk er nefnilega ekki meðaltal. Það er fullt af fólki sem er ekkert endilega með lægstu laun en lægri meðaltekjur og það fólk baslar með húsnæðisskuldir, rekur kannski gamlan bíl og er að takast á við ýmsar hækkanir, ekki bara þær sem verða af hálfu ríkisins heldur líka sveitarfélaganna.

Þess er skemmst að minnast að sveitarfélagið sem ég bý í, Kópavogur, hækkaði dagvistargjöld og það var umtalsverð hækkun. Ekki kom það til umræðu hér þó að stjórnarflokkarnir bregði sífellt fyrir sig Reykjavíkurborg og ef það verður einhver breyting á gjaldskrá þar.

Ég gæti nefnt margar breytingar á gjaldskrá í sveitarfélögunum í kjördæmi mínu þar sem Sjálfstfl. stýrir ef ég hefði geð til þess. En mér finnst bara að við hljótum að vera aðeins yfir það hafin. Við erum að tala um það sem ríkið ræður yfir og ræður við.

Ég get ekki stillt mig um það, virðulegur forseti, að nefna fjölskyldustefnu vegna þess að það mál sem bar hæst í kosningabaráttunni var fjölskyldan, fjölskyldan og aftur fjölskyldan og staða fjölskyldunnar. Ekki síst var það Framsfl. sem hafði uppi stór og mikil orð um hvernig væri staðið að málefnum fjölskyldunnar.

Virðulegi forseti. Af því að ég er stödd á þeim punkti í stuttri ræðu, sem mér finnst mikilvægt að ráðherrann heyri, þá ætla ég að hinkra meðan hann bregður sér frá.

Ég var komin að punkti sem mér finnst mjög mikilvægt að ráðherrann hlusti á og þess vegna ákvað ég að hinkra við vegna þess að ræða mín er stutt. Það lýtur að fjölskyldustefnu og þeim viðhorfum sem er svo auðvelt að láta í ljósi í kosningabaráttunni. Við bárum gæfu til þess, alþingismenn, að samþykkja fjölskyldustefnu á síðasta kjörtímabili. En stjórnarflokkarnir báru ekki gæfu til þess að flytja hingað inn í þingið breytingar á lögum eða ný frumvörp sem mundu fylgja eftir þeirri stefnumörkun sem fólst í fjölskyldustefnunni. Þegar við samþykktum þessa fjölskyldustefnu höfðu stjórnarflokkarnir tekið út úr henni einn mikilvægasta þáttinn. Það var sjóður og sá sjóður átti að standa undir því að þegar sérstakt fjölskylduráð gæti skoðað hvernig hækkanir af hálfu hins opinbera hittu ólíkar fjölskyldugerðir fyrir. Þessi sjóður átti að standa undir rannsóknum en hann var felldur út. Þess vegna er það á ábyrgð ríkisstjórnar og Alþingis að vita meira um afleiðingar ýmissa hækkana. Þessi sjóður og fjölskylduráð átti að skoða það þegar hafa orðið miklar hækkanir í sveitarfélögum af hálfu ríkisins á ólíkum sviðum hvort það gæti verið að ólíkar gerðir hins opinbera væru að hitta sérstakar fjölskyldugerðir illa fyrir og enginn veit neitt um það mál. Fjmrh. hefur ekki hugmynd um hvort þessar hækkanir hitta e.t.v. ólíka hópa fyrir og það er enginn sem veit það og það er enginn sem tekur það raunverulega saman og reynir að vinna úr því hvernig hækkanir sveitarfélaga og ríkisins beinast að fjölskyldum sem eru í viðkvæmri stöðu.

Virðulegi forseti. Ég ætla að biðja fjmrh. að beita sér fyrir því að það verði skoðað og ég mun náttúrlega sjálf reyna að gera tillögur um að þessi sjóður fari inn í fjölskyldustefnu og kalli eftir því að henni verði fylgt eftir þar sem stjórnarflokkarnir eru nú að starfa áfram við sama borð. En ég ætla að nefna hvernig við fórum í þetta mál á fyrsta degi þingsins. Við boðuðum samvinnu við stjórnvöld um aðgerðir til að draga til baka eða fresta boðuðum hækkunum á bensíngjaldi og gjaldskrá Landsvirkjunar. Við boðuðum það frv. sem er til umræðu. Við töldum brýnt að Fjármálaeftirlitið hraðaði athugun sinni á forsendum iðgjaldahækkunar tryggingafélaganna og vitum núna eftir að nefndir hafa haldið fundi að það mun verða einhver tími þar til það hefur lokið skoðun sinni. Við höfum skrifað viðskrh. og hvatt hann til að setja reglugerð á grundvelli laga um opinbert eftirlit og hann hefur upplýst að það muni verða gert.

[16:00]

Við boðuðum að fulltrúar okkar í nefndum þingsins mundu fylgja þessum málum eftir. Ég vil þakka fyrir að við höfum fengið þessi mál á dagskrá þeirrar nefndar sem við óskuðum eftir.

Ég vil að lokum, herra forseti, nefna fund í iðnn. í morgun. Það var ljóst frá því að við fengum gesti á fund okkar að ekki yrði orðið við ósk Samfylkingarinnar um endurskoðun á gjaldskrárhækkun Landsvirkjunar. Forstjóri Landsvirkjunar gerði það ljóst að hann teldi ekki rétt að fresta þeim hækkunum sem hér hafa verið til umræðu. Hann taldi að stjórnin mundi standa við þau áform þó þessi mál yrðu tekin upp í stjórn. Hann telur líka sáralitla hækkun af þessum völdum á vísitölunni, hún er u.þ.b. 0,05 á vísitölu neysluverðs.

Það er athyglisvert að þeir sem hafa tekið ákvarðanir um hækkun telja að sinn þáttur í hækkun vísitölu sé mjög lítill. Þetta styður þá gagnrýni mína að áhrifin séu ekki skoðuð samræmt eða hvaða hópa hækkunin mun hitta verst fyrir.

Ég gat þess áðan að hækkunin muni gefa Landsvirkjun u.þ.b. 182 milljónir í tekjuauka á ársgrundvelli. Fram hefur komið að hækkun Landsvirkjunar er lítill þáttur í hækkun vísitölunnar. Hækkunin á bensíngjaldi er lítill þáttur í hækkun á vísitölunni en þá erum við komin að því sem við ættum að ræða ítarlega, herra forseti, og það er hin breytta vísitala og gæðabreytingar sem farnar eru að hafa áhrif á hana.

Ég ætla eingöngu að vísa til leiðara Morgunblaðsins frá 13. júní þar sem fjallað var um þessi mál. Leiðarahöfundi fannst að þetta gæti verið hið besta mál, að Hagstofan beitti gæðaleiðréttingum í ýmsum tilvikum. Hins vegar vakti leiðarahöfundur athygli á því að þessar reikningsaðferðir vektu ýmsar spurningar, t.d. varðandi húsnæðið. Hefur íbúðarhúsnæði ekki stöðugt verið að batna í gæðum? Á að taka tillit til þess? Hvað með bensín? Hafa olíufélögin ekki öll haldið því fram að þau selji betra bensín en áður? Þetta eru spurningar leiðarahöfundar Morgunblaðsins.

Ég gæti bætt við fleiri spurningum en ég tel að það verkefni sem Hagstofan hefur tekið að sér, að meta gæðabreytingar þegar hún breytir vísitölunni, sé mjög alvarlegt mál og vandasamt. Ég mundi vilja spyrja, væntanlega mundi viðskrh. vilja svara því, eða hver er ráðherra Hagstofunnar? Ég beini því orðum mínum til fjmrh.: Er einhver sérstakur matshópur sem mun fara í að meta þær gæðabreytingar sem áhrif hafa á vísitölu? Á sama hátt og spurningar vakna hjá leiðarahöfundi Morgunblaðsins þá er þetta á allra vörum núna í þjóðfélaginu: Hvernig mun þetta virka? Hvernig virkar það þegar eitthvað minnkar í gæðum eins og oft gerist eða fólk fær minna magn? Hvernig mun það hækka vísitöluna, verður það óeðlilega mikið o.s.frv.? Þetta er mjög alvarleg umræða og fólk er ringlað. Í raun er sérkennilegt að hlusta á að Hagstofan hefur frá 1997 tekið upp þessi nýju viðhorf. Þau hafa lítið verið til umræðu. Einhver hlýtur þessi matsaðili að verða. Eins er spurning um hvort á einhvern hátt sé hægt að kalla eftir því ef fólki finnst matið að einhverju leyti óeðlilegt. Þetta er sérstök umræða en áhugavert væri að heyra hvað fjmrh. segir um hana.