Vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl.

Þriðjudaginn 15. júní 1999, kl. 16:06:25 (310)

1999-06-15 16:06:25# 124. lþ. 6.1 fundur 9. mál: #A vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl.# frv., RG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 6. fundur, 124. lþ.

[16:06]

Rannveig Guðmundsdóttir (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hafna því ekki að þetta sé eðlileg þróun. Ég geri mér góða grein fyrir því að það verða gæðabreytingar á þjónustu og vöru frá einum tíma til annars. Spurningarnar sem vakna og það sem fólk er að velta fyrir sér er: Hvernig er metið og hvænær er metið? Verður það í hvert einasta skipti sem einhver hreyfing verður? Er þá tekið fyrir þjónustustigið í heild sinni og reynt að leggja mat á það? Er varan tekin og metin í heild sinni?

Þetta er mjög vandasamt og ég er ekki viss um að hægt sé að ætlast til þess af embættismanni eða starfsfólki á stofnun eins og Hagstofunni að þau séu með þetta mál eða verkefni sem venjulegt skrifstofu- eða hagstofuverkefni. Ef þetta fer að verða tekið inn í ríkum mæli, mat á því hvort það hafi orðið gæðabreyting í vöru eða þjónustu um leið og hækkun verður, þá hlýtur einhver sérstakur aðili, sérstök nefnd eða eitthvert samráð að vera haft um það, að það sé ekki bara verkefni Hagstofu eða einhverra starfsmanna að sjá um það.