Vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl.

Þriðjudaginn 15. júní 1999, kl. 16:40:23 (317)

1999-06-15 16:40:23# 124. lþ. 6.1 fundur 9. mál: #A vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl.# frv., Flm. JóhS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 6. fundur, 124. lþ.

[16:40]

Flm. (Jóhanna Sigurðardóttir) (andsvar):

Herra forseti. Ég held að hv. þm. Árni Gunnarsson hafi ekki fylgst með málflutningi þingmanna Samfylkingarinnar á þessu þingi og hver er tilgangur þess að við erum að flytja þetta frv. og leggja til ýmsar aðrar aðgerðir. Megintilgangurinn hjá okkur er að reyna að draga úr þeim vísitöluhækkunum og reyna að hafa einhvern hemil á verðbólguhjólinu sem var alveg ljóst að mundi fara af stað miðað við þessar verðhækkanir.

Ef hv. þm. hefur kynnt sér niðurstöðu Hagstofunnar um vísitöluhækkanir á milli mánaða má rekja verulega hækkun á vísitölunni einmitt til hækkunar á verði á bensíni og olíu, eða 0,26% hækkun vísitölunnar eða einn þriðji af vísitölunni. Það sem við erum að gera er að reyna að draga úr skuldum heimilanna. Ég hélt satt best að segja að Framsfl. hefði, það var að vísu fyrir nokkuð löngu síðan, haft einhverjar áhyggjur af skuldum heimilanna sem ég heyri aftur á móti að hæstv. fjmrh. hefur ekki. Hv. framsóknarmenn hafa verið í ríkisstjórn sem á síðasta kjörtímabili jók skuldir heimilanna. Skuldir heimilanna jukust um 130 millj. kr. á kjörtímabilinu. Bara við þessar hækkanir sem við höfum verið að upplifa nú á síðustu dögum og vikum þá hafa skuldir heimilanna verið að aukast um 3 milljarða kr. eingöngu vegna þessara hækkana sem eru um 30 þús. kr. að meðaltali á hvert heimili í landinu.

Megintilgangur okkar með flutningi þessa frv. er að aðstoða ríkisstjórnina við að reyna að hægja á verðbólguhjólinu, ekki síst til að draga úr skuldum heimilanna.