Vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl.

Þriðjudaginn 15. júní 1999, kl. 16:43:09 (319)

1999-06-15 16:43:09# 124. lþ. 6.1 fundur 9. mál: #A vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl.# frv., Flm. JóhS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 6. fundur, 124. lþ.

[16:43]

Flm. (Jóhanna Sigurðardóttir) (andsvar):

Herra forseti. Það kom fram áðan í ræðu hv. 5. þm. Reykv. að hann taldi, og það þyrfti fjárln. að skoða á morgun, að tekjur Vegasjóðs hefðu aukist frá því sem ráð var fyrir gert um 200 millj. kr. Við erum ekki að tala um að fresta framkvæmdum eins og mér fannst hv. þm. vera að ýja að. Við erum einungis að tala um að fara ákveðna leið í að draga úr verðbólgunni og draga úr hækkun vísitölunnar. Það hefðum við ekki gert með því að leggja til frestun á vegaframkvæmdum. Við erum að reyna að draga úr þeirri mælingu sem bensíngjaldshækkunin hafði á þróun vísitölunnar. Það er einfaldlega tilgangur okkar með þeirri breytingu sem við erum hér að leggja til. Það hefði engin áhrif haft á það að draga hefði þurft úr vegaframkvæmdum og enn síður ef það er rétt sem hv. 5. þm. Reykv. upplýsti að það væri meira til í Vegasjóði en menn gerðu ráð fyrir í fjárlögum fyrir þetta ár.