1999-06-15 16:47:03# 124. lþ. 6.2 fundur 2. mál: #A samningur milli Íslands, Noregs og Rússlands um þætti í samstarfi á sviði sjávarútvegs# þál., Frsm. meiri hluta JónK
[prenta uppsett í dálka] 6. fundur, 124. lþ.

[16:47]

Frsm. meiri hluta utanrmn. (Jón Kristjánsson):

Herra forseti. Ég mæli fyrir áliti meiri hluta utanrmn. um till. til þál. um staðfestingu samnings milli Íslands, Noregs og Rússlands um tiltekna þætti í samstarfi á sviði sjávarútvegs ásamt tvíhliða bókunum Íslands og Noregs annars vegar og Íslands og Rússlands hins vegar.

Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Sverri Hauk Gunnlaugsson ráðuneytisstjóra, Eið Guðnason skrifstofustjóra og Tómas H. Heiðar þjóðréttarfræðing frá utanríkisráðuneytinu, Jóhann Sigurjónsson, forstjóra Hafrannsóknastofnunarinnar, og Arnór Halldórsson frá sjávarútvegsráðuneytinu.

Þar sem tími til nefndarstarfa á þessu sumarþingi er takmarkaður hélt nefndin sameiginlegan fund með sjávarútvegsnefnd um málið í stað þess að senda henni það til umsagnar eins og venja er um sambærileg mál og hefði verið gert ef nægur tími hefði fengist. Þessi fundur var haldinn og fengu nefndirnar á sinn fund Benedikt Valsson frá Farmanna- og fiskimannasambandi Íslands, Helga Laxdal frá Vélstjórafélagi Íslands, Sævar Gunnarsson og Hólmgeir Jónsson frá Sjómannasambandi Íslands, Kristján Ragnarsson frá Landssambandi íslenskra útvegsmanna og Arnór Halldórsson frá sjávarútvegsráðuneytinu.

Meiri hlutinn telur mikilvægt að náðst hafi samningar við Norðmenn og Rússa um þorskveiðar í Barentshafi. Auk þess að fjalla um efnisatriði rammasamningsins við Norðmenn og Rússa og bókananna við hann fjallaði nefndin sérstaklega um framkvæmd samningsins af Íslands hálfu. Þar sem samningurinn er ekki kominn til framkvæmda telur meiri hlutinn eðlilegt að Alþingi fylgist vel með framkvæmdinni hér á landi en það er í verkahring sjávarútvegsnefndar.

Lára Margrét Ragnarsdóttir var fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Meiri hlutinn leggur til að tillagan verði samþykkt.

Undir meirihlutaálitið skrifa Jón Kristjánsson, Einar Guðfinnsson, Jóhann Ársælsson, Vilhjálmur Egilsson, Valgerður Sverrisdóttir, Þórunn Sveinbjarnardóttir og Kristján Pálsson.