1999-06-15 17:13:36# 124. lþ. 6.2 fundur 2. mál: #A samningur milli Íslands, Noregs og Rússlands um þætti í samstarfi á sviði sjávarútvegs# þál., ÖS
[prenta uppsett í dálka] 6. fundur, 124. lþ.

[17:13]

Össur Skarphéðinsson:

Herra forseti. Hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon gerði skýra grein fyrir sínu máli hérna og hann komst að þeirri niðurstöðu að þessi samningur væri ekki nægilega góður til þess að hann treysti sér til að styðja hann. Það kom mér svolítið á óvart.

Ég er sjálfur þeirrar skoðunar að þó þessi samningur hefði getað verið betri, þá sé hann nægilega góður til þess að hægt sé að styðja hann. Ég tel það. Ég tek hins vegar undir öll varnaðarorð hv. þm. um útfærslu þess sem má kalla innanlandshluta samningsins. En ég held að það hafi verið löngu tímabært að gera reka að því að leiða þessa deilu við Norðmenn til lykta. Ég tel reyndar að föng hafi verið til þess að gera það áður og rifja það upp að á sínum tíma var kynnt í utanrmn. að um það bil væri að bresta á samningur sem var reyndar að því er mig minnir allmiklu betri en þessi.

Ég tel sem sagt að það sem úr þessu kemur sé nægilegt til að við getum tekið í útrétta sáttarhönd þessara tveggja þjóða sem eru aðilar að samningnum með okkur og látið deiluna niður falla.

Ég verð hins vegar að taka undir nánast allar þær athugasemdir sem hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon hafði fram að færa varðandi útfærslu samningsins innan lands. Það er auðvitað með ólíkindum að löngu áður en búið er að staðfesta þennan samning á hinu háa Alþingi, af norska þinginu eða af hálfu Rússa, þá skuli vera búið að gefa út reglugerð þar sem búið er að útdeila góssinu. Það er það sem er gert og maður veltir því fyrir sér hvað vaki fyrir mönnum sem ráðast með slíkum hraða í þessi mál?

[17:15]

Í reglugerðinni kemur fram að hún er staðfest af ráðherra 10. maí 1999 og þar kemur einnig fram að eigi síðar en 31. maí skuli senda útgerðum skipa sem hafa veiðireynslu tilkynningu um þeirra hlutdeild. En síðan er sleginn sá varnagli að til endanlegrar úthlutunar komi ekki fyrr en allir séu búnir að ganga frá þessu máli.

Ég spyr: Hvernig í ósköpunum stendur á því að ráðist er í að gefa út reglugerð þar sem veiðiheimildum er útdeilt áður en búið er að ganga frá málinu og kynna það? Er þá Alþingi bara stimpilstofnun sem skiptir engu máli í augum hæstv. ríkisstjórnar? Skiptir vilji okkar, sem hérna sitjum, engu máli í þessum efnum? Hefði verið sama hvernig samningurinn hljóðaði? Ef ríkisstjórnin telur að það beri að samþykkja hann, skiptir þá ekki máli hvað við sem erum kjörin til þess að staðfesta svona samning á Alþingi höfum um málið að segja?

Mig langar að spyrja hæstv. sjútvrh., í fyrsta lagi: Hvaða stöðu hefur reglugerð af þessu tagi? Hefur hún sömu stöðu og hver önnur reglugerð þegar hún stendur á samþykkt sem ekki er búið að taka, stendur á alþjóðlegum samningi sem ekki er búið að staðfesta? Ég held því fram að þessi reglugerð sé afar slæmt fordæmi, eins og hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon reifaði mjög vel.

Eitt vil ég nefna til viðbótar, herra forseti, að það er líka tvíbent og umdeilanlegt að samkvæmt 1. gr. reglugerðarinnar er brugðið frá þeirri forskrift sem er að finna í lögum um stjórn fiskveiða, að kvóti skuli fylgja skipi. Ég held að það sé rétt með farið hjá mér, að það hafi verið u.þ.b. 90 skip sem héldu til veiða í Smugunni. Ég held að 30 þeirra séu ekki lengur á skipaskrá. Sum þeirra er búið að selja og sumum er búið að flagga út til einhvers konar veiða, sem sumir hafa kennt við sjóræningjaveiðar.

Ég spyr hæstv. sjútvrh.: Er fyllilega réttlætanlegt að gefa út reglugerð þar sem virðist brugðið frá grundvallaratriðum í þeim lögum sem gilda um stjórn fiskveiða með því að veita heimild til að kvóti skuli ekki alfarið fylgja skipi heldur er útgerðarmanni skips sem búinn er að flagga gamla skipinu út eða selja það, gefinn kostur á að óska eftir því við Fiskistofu að aflahlutdeildinni verði úthlutað til annarra sambærilegra skipa í eigu sama einstaklings eða lögaðila? Í raun þýðir þetta, finnst mér, að við erum að flytja kvóta yfir á útgerðarmanninn sjálfan. Ég upplifi þetta þannig og finnst að það gefi a.m.k. tilefni til að velta þessu svolítið fyrir sér.

Ég spyr jafnframt hæstv. sjútvrh.: Kemur til greina að nema þessa reglugerð úr gildi? Ég vek athygli á því að í 2. gr. úthafsveiðilaganna segir mjög skýrt að kvóti sem veittur er skipum utan efnahagslögsögunnar myndar ekki eignarrétt og hann er ekki óafturkallanlegur. Með reglugerðinni er búið að útdeila miklum verðmætum sem mætti kannski samanlagt verðleggja einhvers staðar á milli 3,5 og 5 milljarða kr. Ég geri mér grein fyrir því að það er umhendis að ætla að ráðast í það. Ég tel eigi að síður að það sé nauðsynlegt og ástæða þess eru þau rök sem hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon rakti hérna áðan.

Hvernig á að greiða þeim sem stunda útgerð innan lands og eiga að borga kostnaðinn við samninginn? Í fyrsta lagi borgar loðnuflotinn fyrir þetta 17 þúsund tonn. Í annan stað er það ljóst að línuskip sem gera út á tiltölulega illa staddar tegundir, löngu, keilu og blálöngu, eiga að greiða kostnaðinn líka. Það hefði verið eðlilegt að beita ákvæðum úthafsveiðilaganna um endurgjald þannig að þau skip sem fá kvóta utan efnahagslögsögunnar verði að sæta einhvers konar skerðingu á aflaheimild innan lögsögunnar. Sá sjóður sem þar hefði myndast hefði að sjálfsögðu verið auðnýtanlegur til að greiða þeim útgerðarmönnum eða útgerðum sem þurfa að bera þennan kostnað.

Þess vegna spyr ég hæstv. sjútvrh. líka: Hvaða rök lágu til grundvallar því hjá sjútvrn. að heimild til þess að ákveða endurgjald af hálfu þeirra sem fá kvóta utan efnahagslögsögunnar var ekki nýtt? Í annan stað spyr ég: Telur hæstv. sjútvrh. ekki sanngjarnt að þeim útgerðum, sem bera kostnaðinn af þessum samningi og ég nefndi hér áðan, verði umbunað þannig að tjón þeirra verði að fullu bætt? Ef svo er, með hvaða hætti ætlar hann þá að hlutast til um að þeim verði þetta bætt?

Ég spyr líka hæstv. sjútvrh., af því að ég veit að hann hefur gott vit á öllu því sem er fiskakyns og hefur sporð: Er það ekki rétt munað hjá mér að í síðustu skýrslu sem Hafró gaf út um ástand fiskstofna við Ísland, hafi komið fram að ástand blálöngunnar, einnar þeirra tegunda sem norsk línuskip mega veiða í íslenskri lögsögu til endurgjalds fyrir hinn íslenska hluta í Barentshafinu, sé nú það versta sem mælst hefur síðustu 30 ár? Ef svo er, er þá réttlætanlegt að hleypa mönnum inn í efnahagslögsöguna til að veiða tegund sem er mjög illa stödd? Ég vek athygli á því að það eru ekki mörg ár frá því að Íslendingar fóru á tiltölulega litlu svæði offari í veiðum á hrygnandi blálöngu með þeim afleiðingum að sá stofn er varla til í þeim mæli sem hann var áður. Þó að þetta hafi farið hljótt þá er það staðreynd að Íslendingum tókst næstum því með ofveiði að útrýma blálöngunni sem veiðanlegum stofni. Ég spyr hæstv. ráðherra: Er á það bætandi að leyfa útlendingum með þessum hætti m.a. að taka blálöngu á línu?

Ég verð að taka undir það sem kom fram í máli síðasta ræðumanns, hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar, að það er auðvitað með ólíkindum að menn skuli ráðast í málin með þessum hraða, rétt ofan í kosningar þegar stjórnmálamenn eru ýmist að ná sér eftir kosningar eða fagna unnum sigrum og eru einfaldlega ekki í stöðu til að fara í mál af þessu tagi, gera sér grein fyrir þessu. Enda er það ljóst af umræðunni um daginn að menn skildu ekki nákvæmlega hvað í því fólst að reglugerðin var gefin út og þess vegna vakti hún enga athygli. En í henni var gengið gegn, ekki reglu en þó, því sem kalla mætti hefðarreglu, mjög lofsverðri sem er að finna í úthafsveiðilögunum, þ.e. sem við höfum kallað frumherjakvóta þó ekki sé það orðað svo í lögunum. En það er mjög elegant aðferð, sem ég er mjög hrifinn af, til að örva atorkumikla og þróttmikla útgerðarmenn og fyrirtæki til að leggja í þann kostnað og þá áhættu sem felst í því að leita á ný mið.

Eins og hér hefur verið rakið í dag og áður voru það sjútvrn., bæjaryfirvöld í Hafnarfirði, útgerðarfyrirtæki og olíu\-félög sem réðust í það fyrir u.þ.b. 12, 13 árum, minnir mig, að styðja hafnfirsk skip sem fóru til veiða á Reykjaneshrygg til að kanna möguleika á að veiða karfa. Síðan hafa þær veiðar fært mjög mikil verðmæti í bú okkar.

Ég var viðstaddur þegar menn ákváðu hinar fyrstu Smuguveiðar og ég man vel frumkvæði, þrótt og ákveðni ákveðinna útgerða í því máli. Ég ímynda mér að ef ekki hefði verið fyrir þrákelkni þeirra og þrýsting sem þeir beittu ýmsa ráðherra sem þá sátu í ríkisstjórninni, þá hefði þáv. sjútvrh. haft sitt fram og staðfest reglugerð sem hann sýndi við ríkisstjórnarborðið meðan á því máli stóð, þar sem ekkert vantaði nema undirskrift hans til þess að staðfesta bann á veiðunum.

Ég er með öðrum orðum að segja, herra forseti, að þó vissulega hafi stjórnmálamenn gert þennan samning og tryggt þennan kvóta, þá er einnig ljóst að til samningsins hefði aldrei komið án frumkvæðis og frekju ákveðinna aðila í útgerð sem sáu þennan möguleika. Aðrir höfðu ekki séð þennan möguleika.

Og ég spyr: Á ekki að beita þeirri heimild sem er í úthafsveiðilögunum til að verðlauna þessa menn? Ég hélt að útgerð á Íslandi hefði einmitt, frá því sögur hófust, byggst upp á svona mönnum, einstaklingum sem horfðu lengra en aðrir, voru duglegri og þorðu að taka áhættu. Sagan sýnir að sumir þeirra þurftu að greiða það dýru verði, aðrir höfðu upp úr því drjúgan ávinning sem ekki aðeins kom þeim til góða heldur byggðarlögum þeirra og þjóðinni allri. Það er alveg ljóst að það sem átti einn ríkasta þáttinn í að fleyta okkur yfir erfiðasta hjallann í efnahagslægðinni fyrr á þessum áratug voru þessar veiðar. Ég held að samanlagt hafi þær numið u.þ.b. 105 þús. tonnum af þorski. Það skiptir nú heldur betur máli.

Þess vegna finnst mér fráleitt að þeim mönnum sem hófu þessar veiðar sé ekki umbunað fyrst það er möguleiki til þess. Mig langar þess vegna að lokum, herra forseti, að spyrja hæstv. sjútvrh. hvort það sé skoðun ráðuneytisins að ákvæði úthafslaganna um þennan svokallaða frumherjakvóta sé ekki fallið til þess að örva íslenskar útgerðir til þess að freista veiða á nýjum miðum og vannýttum tegundum. Mig langar einnig að inna hann eftir því hvaða rök lágu til grundvallar ákvörðuninni um að beita ekki heimild úthafsveiðilaganna til þess að úthluta þessum frumherjakvóta.

Ég veit auðvitað að hæstv. ráðherra getur sagt: Það var ekki ég, það var annar ráðherra. Hins vegar hljóta að vera fyrir því rök af hálfu þessa ráðuneytis vegna þess að þó að ráðherrar komi eða fari þá er stofnunin eftir. Ef ekki er um að ræða stefnubreytingu af hálfu þessa hæstv. ráðherra þá hlýtur hann að vera sammála ákvörðuninni sem hann tók við. Hann getur ekki verið sammála henni nema hann hafi einhver rök fyrir því. Hver eru þessi rök, herra forseti?