1999-06-15 17:27:22# 124. lþ. 6.2 fundur 2. mál: #A samningur milli Íslands, Noregs og Rússlands um þætti í samstarfi á sviði sjávarútvegs# þál., JÁ
[prenta uppsett í dálka] 6. fundur, 124. lþ.

[17:27]

Jóhann Ársælsson:

Hæstv. forseti. Ég skrifaði undir þetta nál. þar sem lagt var til að þessi samningur yrði samþykktur. Þó er það ekki þannig að ég sé ánægður með hann að öllu leyti. Ég tel hins vegar að betra sé að gera hann en að hafna honum og rétt sé að staðfesta hann hér í hv. Alþingi.

Ég ætla einungis að bæta örfáum atriðum við það sem þegar hefur komið hér fram í umræðunni. Þar eru spurningar til hæstv. ráðherra. Í fyrsta lagi langar mig að spyrja: Í 7. gr. samningsins kemur fram mjög takmarkaður aðgangur íslenskra stjórnvalda að stjórn veiða á þessu svæði, telur hæstv. ráðherra ásættanlegt að við sé um skuldbundnir til að beita aðrar þjóðir refsiaðgerðum sem þar er gert ráð fyrir?

Á fundi nefndarinnar, þar sem mættir voru m.a. fulltrúar sjómanna og útgerðarmanna, kom einnig fram að þessi samningur er ekki talinn góður að mati ýmissa þeirra. Hann er talinn afar rýr samkvæmt yfirlýsingum LÍÚ-fulltrúans sem mætti þarna. Hann taldi reyndar að við værum að greiða fyrir 50--55% af veiðiheimildum okkar með þessum samningi og við værum að greiða sem svaraði til helmings af því sem fengjum þarna, með veiðiheimildum í íslenskri landhelgi.

Því er ástæða til að spyrja hæstv. ráðherra hvort hann telji að þær skerðingar á veiðimöguleikum íslenskra skipa, sem óhjákvæmilega fylgja því að fullgilda þennan samning og láta hann gilda áfram, eigi að hafa áhrif á önnur veiðiréttindi þeirra útgerða sem fá að njóta hans, hvort taka eigi endurgjald af þeim hér á heimamiðum, fyrir það sem við greiðum með veiðiheimildum á heimamiðum.

[17:30]

Einnig voru atriði til umræðu á fundi nefndarinnar sem virtust afar óljós og menn virtust jafnvel ekki hafa sama skilning á. Þess vegna er ástæða til að spyrja hæstv. ráðherra hvort þau 1.700 tonn sem talað er um að verði til leigu handa íslenskum útgerðum séu hluti af samningnum og að það eigi að úthluta þessum rétti til útgerðarmannanna til þessara leiguheimilda líka eða gefa þeim forgang að þeim 1.700 tonnum sem eru þarna til ráðstöfunar.

Það hefur líka komið fram að Rússar vilji gjarnan leigja meiri veiðiheimildir en eru í samningnum til íslenskra útgerðarmanna. Þess vegna er kannski ástæða til að spyrja betur um þetta atriði, hvernig beri að líta á þessi 1.700 tonn og hvort þau eigi að vera hluti af réttindum þeirra sem fá þarna réttindi samkvæmt reglugerðinni frá 10. maí.

Síðan langaði mig til þess að spyrja hæstv. ráðherra um reglugerðina frá 10. maí. Í 1. gr. reglugerðarinnar stendur:

,,Hafi skip með veiðireynslu á sex síðustu árum verið tekið af skipaskrá hjá Siglingastofnun Íslands, fyrir gildistöku reglugerðar þessarar, skal þeirri útgerð sem skráð var eigandi skipsins þegar það var tekið af skipaskrá, gefinn frestur til og með 15. júní 1999 til að óska eftir því við Fiskistofu, að aflahlutdeildinni verði úthlutað til annars sambærilegs skips í eigu sama einstaklings eða lögaðila.``

Nú rekur mig minni til þess að málaferli hafi farið fram á Íslandi út af veiðiréttindum, sem hefur verið úthlutað síðar til skipa, þar sem ekki hefur verið gengið frá því í samningum milli aðila sem keyptu og seldu hvernig með þessa hluti ætti að fara. Ég vil þess vegna spyrja hæstv. ráðherra vegna þess að það hefur verið þannig fram að þessu að þær útgerðir sem eiga viðkomandi skip skuli fá þessi réttindi til sín ef ekki hefur verið samið um það sérstaklega fyrir hvort hann telji að reglugerðin geti staðist. Með tilvísun til hvaða laga ætti það þá að vera í ljósi þess að mönnum hafa verið dæmd veiðiréttindi í málum sem ég var að vísa til áðan að hafi verið dæmd af dómstólum á Íslandi?

Ég vil að lokum, hæstv. forseti, segja um þennan samning að ég tel rétt að gera hann og mun styðja hann, þó að ég sé búinn að færa fram hluti sem mér finnast ekki vera nógu góðir. Ég lít þannig á að veiðar Íslendinga í Smugunni hafi verið þannig og samskiptin sem leiddu af þeim hafi gert það að verkum að virkilega hafi verið ástæða til að leggja töluvert á sig til að ljúka málinu. Þess vegna tel ég að Íslendingar geti unað sæmilega við samninginn og ég tel að hv. Alþingi eigi að staðfesta hann.