1999-06-15 17:34:49# 124. lþ. 6.2 fundur 2. mál: #A samningur milli Íslands, Noregs og Rússlands um þætti í samstarfi á sviði sjávarútvegs# þál., SvanJ
[prenta uppsett í dálka] 6. fundur, 124. lþ.

[17:34]

Svanfríður Jónasdóttir:

Herra forseti. Ég tek undir með þeim talsmönnum Samfylkingarinnar sem hafa talað að samningurinn er kannski ekki að öllu leyti eins og við hefðum viljað sjá hann og einhvern tíma í þessu ferli hafa sést tölur og ákvæði sem hafa gefið fyrirheit um betri samning. Eigi að síður er það niðurstaða mín eins og þeirra að við séum betur komin með samninginn en án hans og mun þess vegna styðja samninginn en samningurinn er um tiltekna þætti í samstarfi á sviði sjávarútvegs. Þar af leiðir að framkvæmd samningsins verður meira og minna í höndum sjútvrn. og verður með útgáfu reglugerða að einhverju leyti á vegum ráðuneytisins.

Hér hefur nokkuð verið rætt um þá reglugerð sem gefin var út 10. maí og ráðherra verið þýfgaður um efni hennar og tilurð. Ég sé að hæstv. ráðherra hefur gefið út reglugerð um breytingu á þeirri reglugerð. Sú reglugerð er með dagsetninguna 14. júní og þar er ráðherra að breyta dagsetningum þannig að ljóst er að vilji hans stendur til þess að breyta reglugerðinni að einhverju leyti. Verður fróðlegt að heyra svör hans við þeim spurningum sem hafa verið bornar fram um aðrar breytingar á reglugerðinni, þ.e. breytingar sem lúta þá að svokölluðum frumherjabónus eða endurgjaldi vegna veiðiheimilda, þá endurgjaldi í íslenskri lögsögu eða með hlutfallslegu afsali þeirra heimilda sem fást í Barentshafi.

Herra forseti. Hér er um lausn á Smugudeilunni að ræða að okkar mati og samningurinn betri en að hafa þau mál áfram í lausu lofti. Við verðum líka að horfa til þess að samningurinn gefur ýmis fyrirheit, hann gefur fyrirheit um viðskipti sem geta reynst okkur afar hagfelld og ég vil bæta inn í þær spurningar sem hafa áður verið bornar fram.

Ég spurðist nokkuð fyrir um það í fyrri umræðu um þáltill. hvert markaðsverðið væri á þeim ríflega þriðjungi veiðiheimildanna í rússnesku lögsögunni sem verður boðinn á markaðsverði. Það kom fram á sameiginlegum fundi sjútvn. og utanrmn. í gær --- það kom fram hjá framkvæmdastjóra LÍÚ --- að þeir hefðu heyrt töluna 14 kr. en hafa einnig heyrt töluna 64--68 kr. upp á síðkastið og var það mat hans að ef verðið væri svo hátt þá mundi enginn kaupa og enginn fara til veiðanna. Fróðlegt væri að heyra hvort hæstv. sjútvrh. hefur gleggri upplýsingar um þetta virði jafnframt því hvernig þeim heimildum, sem verða boðnar á markaðsvirði, verður úthlutað eða hvernig mönnum verður boðinn aðgangur að þeim.

Það hefur komið fram að kaup á aflahlutdeild er ekki samkvæmt reglum úthafsveiðilaganna þannig að ekki er lagaheimildir við að styðjast. Hins vegar vitum við að íslenskir útvegsmenn kunna nú ýmislegt fyrir sér í þessum efnum og hafa verið býsna ötulir upphafsmenn og frumkvöðlar í því að verðleggja aflaheimildir og finna þeim markaðsverð þannig að ég hef ekki miklar áhyggjur af því þó að úthafsveiðilögin mæli ekki fyrir um framkvæmdina.

En það er þetta: Veit hæstv. sjútvrh. eitthvað um það verð sem verið er að bjóða aflaheimildir á? Mun ráðuneytið að einhverju leyti hafa milligöngu um viðskipti við Rússana eða reyna með einhverjum hætti að liðka til vegna þeirra viðskipta sem hljóta óhjákvæmilega að verða ef menn ætla að nýta þessar heimildir?

Svo í framhaldinu, vegna þess að eins og ég gat um áðan er verið að tala um samninga, um samskipti í sjávarútvegi, bæði á sviði fiskveiða, á sviði vinnslu fiskafurða, markaðsmála og löndunar. Óhjákvæmilega hlýtur ráðuneytið að koma að málinu með ýmsum hætti og væri fróðlegt að heyra hvert viðhorf hæstv. sjútvrh. er til þeirra mála og hvaða hugmyndir hann hefur um atbeina ráðuneytisins að þeim málum.