1999-06-15 17:52:01# 124. lþ. 6.2 fundur 2. mál: #A samningur milli Íslands, Noregs og Rússlands um þætti í samstarfi á sviði sjávarútvegs# þál., ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 6. fundur, 124. lþ.

[17:52]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Ég er þakklátur fyrir að hæstv. sjútvrh. er ekki þeirrar skoðunar að frumherjakvótinn sé af hinu illa og að hann vilji frekar efla hann en draga úr honum.

Ástæðan fyrir því að honum er ekki beitt, að sögn sérfræðinga sem hann nefnir í þessari umræðu, er sú að þeir telja að svo stór hluti af þeim heildarafla sem veiddist í Smugunni hafi veiðst á fyrstu þremur árunum, eða svo skildi ég hæstv. sjútvrh., og því hefði verið umhendis að deila frumherjakvótanum vegna þess að hann hefði farið á svo marga.

Ég er þeirrar skoðunar að þessar veiðar hafi hafist fyrir frumkvæði örfárra útgerða. Þær útgerðir fóru af stað um sumarið 1993 og veiddu þá tæplega 10.000 tonn. Þeim útgerðum á að umbuna með þessum frumherjakvóta. Það er mín skoðun og þess vegna gef ég lítið fyrir þessi rök. Mér finnast þau skrýtin og þau lykta af því að þau séu samin eftir á, þegar sérfræðingarnir sem um þetta véluðu höfðu fengið nýjan hæstv. ráðherra og voru komnir í vanda með að skýra þetta en ég geri ekki frekari athugasemdir við það.

En ég spyr eftir blálöngunni. Hvað segir hæstv. sjáutvrh. um heilsufar hennar? Finnst honum forsvaranlegt að hleypa mönnum inn í efnahagslögsöguna til þess að veiða stofn sem er í mestu lægð sem hann hefur komist í á síðustu 30 árum? Jafnframt, með hvaða hætti hyggst hæstv. ráðherra umbuna þeim mönnum sem þurfa að greiða kostnaðinn vegna kvótans sem Íslendingar fá í Barentshafi? Þar á ég við bæði loðnuflotann og línuskipin sem veiða lönguna, blálönguna og keiluna, sem Norðmennirnir fá að veiða?