1999-06-15 18:00:03# 124. lþ. 6.2 fundur 2. mál: #A samningur milli Íslands, Noregs og Rússlands um þætti í samstarfi á sviði sjávarútvegs# þál., Frsm. minni hluta SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 6. fundur, 124. lþ.

[18:00]

Frsm. minni hluta utanrmn. (Steingrímur J. Sigfússon) (andsvar):

Herra forseti. Út af fyrir sig skil ég að Róm var ekki byggð á einum degi og það getur tekið einhvern tíma að ganga frá þessu og stjórnarskipti hafa haft áhrif á það hvar mál eru á vegi stödd. Ég held að það sé hins vegar ekki aðalatriði hvort þetta er vikunni fyrr eða seinna á ferðinni t.d. gagnvart útgerðunum þó vissulega sé æskilegt að menn komist sem fyrst til að nýta þessar veiðiheimildir.

Hitt skiptir meira máli til lengri tíma litið að framkvæmdin sé vönduð vegna þess að verið er að ganga frá þessu máli í eitt skipti fyrir öll, það er alveg ljóst. Það er einskiptisákvörðun hvort endurgjaldsheimildinni eða frumherjareglunni er beitt þegar um er að ræða úthlutun á varanlegri hlutdeild. Hér er á ferðinni varanleg hlutdeild í því magni sem til okkar kemur á grundvelli kvótaákvarðana í Barentshafinu hverju sinni. Það liggur ekkert annað í þessu máli en að um varanlega úthlutun sé að ræða og úthafsveiðilögin gera ráð fyrir því. Þau vísa í lögin um stjórn fiskveiða varðandi öll önnur atriði en þau sem þar eru sérstaklega tekin fram og það samhengi segir mér --- fyrir utan bein ákvæði í úthafsveiðilögunum --- að þarna verður um varanlega úthlutun á hlutdeild að ræða. Það hlýtur að vera svo. Þar af leiðandi er það einskiptisákvörðun í upphafi málsins hvort endurgjaldsreglunni eða frumherjareglunni er beitt.

Ég hvet hæstv. ráðherra til þess að hafa fullt sjálfstraust gagnvart því að skoða þetta mál á algjörlega sjálfstæðum forsendum upp á nýtt. Ráðherrann hefur stöðu til þess, það er engin spurning, reglugerðin er ekki bindandi, og mér finnst fullkomlega eðlilegt að nýr ráðherra taki það til skoðunar þegar til þess kemur að hann fer í þá framkvæmd að úthluta endanlega og varanlega eða láta Fiskistofu gera það á hvaða grunni hann hyggst gera það. Skoða t.d. hvort einhver væg endurgjaldsregla og væg frumherjaregla er skynsamleg til að halda þó í það grundvallaratriði að þetta sé til staðar og þessu sé beitt en kannski með mismunandi vægi eftir aðstæðum og sleppa þannig við að senda þau neikvæðu skilaboð að það sé hringlað með þetta sitt á hvað og þetta sé stundum og stundum ekki.