Afgreiðsla umhverfisnefndar á þáltill. um Fljótsdalsvirkjun

Miðvikudaginn 16. júní 1999, kl. 10:33:30 (337)

1999-06-16 10:33:30# 124. lþ. 7.93 fundur 68#B afgreiðsla umhverfisnefndar á þáltill. um Fljótsdalsvirkjun# (aths. um störf þingsins), KolH
[prenta uppsett í dálka] 7. fundur, 124. lþ.

[10:33]

Kolbrún Halldórsdóttir:

Virðulegi forseti. Mig langar til að það komi fram í upphafi fundar að á fundi umhvn. Alþingis, sem lauk fyrir stundu, var tekin fyrir þáltill. varðandi Fljótsdalsvirkjun. Ég óskaði þar eftir því að kannað yrði hvort meiri hluti nefndarmanna væri þeirrar skoðunar að virkjunin skyldi lúta lögformlegu umhverfismati enda hefur það komið fram í umræðum á þinginu og opinberum yfirlýsingum ákveðinna nefndarmanna að meiri hluti sé í nefndinni fyrir því að hún fari í lögformlegt mat en formaður nefndarinnar, hv. þm. Ólafur Örn Haraldsson, hafnaði þeirri ósk minni og boðar að málið fari í venjubundið umsagnarferli.

Ég lýsi því hér með yfir að ég hefði talið að nú væri lag til að nýta tímann vel og nýta þær umsagnir sem liggja þegar fyrir varðandi málið og hefði viljað að það kæmi til afgreiðslu Alþingis á þeim fundi sem er nú að hefjast.