Afgreiðsla umhverfisnefndar á þáltill. um Fljótsdalsvirkjun

Miðvikudaginn 16. júní 1999, kl. 10:45:06 (344)

1999-06-16 10:45:06# 124. lþ. 7.93 fundur 68#B afgreiðsla umhverfisnefndar á þáltill. um Fljótsdalsvirkjun# (aths. um störf þingsins), SJS
[prenta uppsett í dálka] 7. fundur, 124. lþ.

[10:45]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Það er ekki í fyrsta sinn sem hæstv. forsrh. kemur hér og leggur gott til málanna og ég skildi alveg tóninn í máli hæstv. ráðherra.

Hér er rétt að líta á hvernig málin standa. Alþingi hefur möguleika á því að láta vilja sinn í ljós í þessu máli og hann gæti skipt máli ef hann kemur fram núna. En það þýðir lítið að taka þetta mál fyrir ef búið verður að heimila að framkvæmdir hefjist. Þá getur hv. umhvn. svo sem farið í skemmtiferðir til Austurlands, en það hefur ekkert pólitískt gildi ef framkvæmdarvaldið eða ríkisstjórnin ákveður að láta þessa framkvæmdir hefjast án þess að lögformlegt umhverfismat fari fram. Þetta er tiltölulega einfalt mál, herra forseti, sem hæstv. forsrh. og allir aðrir ættu að geta áttað sig á. Vill Alþingi að þarna fari fram lögformlegt umhverfismat, já eða nei? Flóknara er málið ekki.

Og þegar það bætist við að samhljóða tillaga var til umfjöllunar á Alþingi í fyrra, sem fór út til umsagna og þær liggja fyrir, þá liggja allar forsendur fyrir sem nauðsynlegar eru til að taka afstöðu í málinu. Það er ljóst að mikill veikleiki er á íslenska þingræðinu að Alþingi hefur ekki í þingsköpum eða starfsvenjum úrræði til að taka mál fyrir með flýtimeðferð og kalla fram afstöðu. Það er alþekkt í þjóðþingunum í kringum okkur að ef menn vilja kalla fram afstöðu þjóðþingsins, t.d. til þess hvernig eigi að fara með atkvæði viðkomandi ríkis, segjum sem dæmi á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna, þá er til farvegur fyrir slíka könnun á vilja þingsins, og það tekur mjög skamman tíma.

Hér höfum við þó það að flytja mál á þinglegan hátt, það fari til nefndar og sé afgreitt þaðan. Og það er alsiða að jafnvel stór mál séu afgreidd með mjög skjótum hætti þegar svo ber undir.

Eða ætli hæstv. forsrh. kannist ekki við það t.d. að jafnvel afstaða þingsins til milliríkjasamninga og fleiri slíkra hluta er oft og iðulega afgeidd með slíku móti? Þegar efnislegar forsendur eru til þess þá er ekkert að vanbúnaði að þingið láti vilja sinn í ljós. Eða er hæstv. forsrh. á móti því að hann birtist í þessu máli?