Afgreiðsla umhverfisnefndar á þáltill. um Fljótsdalsvirkjun

Miðvikudaginn 16. júní 1999, kl. 10:49:43 (347)

1999-06-16 10:49:43# 124. lþ. 7.93 fundur 68#B afgreiðsla umhverfisnefndar á þáltill. um Fljótsdalsvirkjun# (aths. um störf þingsins), ÓÖH
[prenta uppsett í dálka] 7. fundur, 124. lþ.

[10:49]

Ólafur Örn Haraldsson:

Virðulegi forseti. Það er afar nauðsynlegt að í málum sem þessum sé vandað mjög til allra verka, bæði faglega og efnislega, og sömuleiðis að virða allar þær skoðanir og áhuga manna á að beita sér í málinu.

Ég minni aðeins á eftirfarandi umfram það sem ég gat um áðan. Það hefur ekki einn einasti heimamaður verið fenginn til nefndarinnar sem að sjálfsöðgu þarf að gera til að átta sig á málinu. Það vantar enn fjölda vísindamanna og framkvæmdamanna til nefndarinnar. Það vantar enn álit frá annarri þingnefnd, þ.e. iðnn. Það er gjörsamlega ómögulegt að taka upp þau vinnubrögð í þinginu að ganga fram hjá öllu þessu.

Ég vil líka upplýsa málshefjanda um að óhyggilegt er að varpa frá sér með þessu móti þeim vinnubrögðum sem e.t.v. eru einmitt vörn stjórnarandstöðunnar í mörgum málum sem hún vill beita sér fyrir. Og það mun hv. þm. væntanlega finna þegar á líður að hyggilegra er að níðast ekki á vilja þingmanna um að kynna sér mál vel. Ég vil að við förum austur, kynnum okkur þetta mál í vettvangskönnun með ítarlegum fundi og að málið komi hér fyrir næsta þing með skipulegum og málefnalegum hætti þannig að allir þingmenn geti tekið afstöðu í málinu eftir rækilega og vandaða skoðun. (SJS: Ætlar ríkisstjórnin að bíða á meðan?)