Endurskoðun á stjórnkerfi fiskveiða

Miðvikudaginn 16. júní 1999, kl. 11:04:18 (358)

1999-06-16 11:04:18# 124. lþ. 7.1 fundur 10. mál: #A endurskoðun á stjórnkerfi fiskveiða# fsp. (til munnl.) frá forsrh., EKG
[prenta uppsett í dálka] 7. fundur, 124. lþ.

[11:04]

Einar K. Guðfinnsson:

Virðulegi forseti. Það er auðvitað mjög margt sem getur komið til álita þegar verið er að skipa nefnd af þessu tagi sem á að endurskoða löggjöfina um fiskveiðistjórn. Ég tel hins vegar frekar óskynsamlegt að gera það með því að fela sjútvn. Alþingis það verk, einfaldlega vegna þess að eftir undirbúningsvinnu að sjálfri endurskoðuninni kemur málið auðvitað til kasta Alþingis, fer til 1. umr. og er síðan vísað til sjútvn. Alþingis sem fer um það verk sínum höndum. Ég teldi óeðlilegt að sjútvn. væri sett í þá stöðu að endurskoða sín eigin handaverk. Ég held að þingnefndirnar eigi einmitt að vera í þeirri stöðu að geta farið mjög gagnrýnum huga og gagnrýnum höndum um mál af þessu taginu og það væri á vissan hátt búið að rýra þann möguleika ef sjútvn. stæði sjálf að undirbúningnum.

Ég held hins vegar að hér sé um að ræða gríðarlega mikilvægt mál sem almenn sátt þarf að nást um. Ég geri mér góða grein fyrir því að mjög mörg álitamál eru í þessu. Menn eru afskaplega ósammála í þessum efnum og þess vegna er þetta (Forseti hringir.) verk sem þarf að vanda mikið til og Alþingi sjálft þarf að hafa mikinn atbeina að.