Starfræksla miðlægs gagnagrunns á heilbrigðissviði

Miðvikudaginn 16. júní 1999, kl. 11:10:16 (361)

1999-06-16 11:10:16# 124. lþ. 7.2 fundur 11. mál: #A starfræksla miðlægs gagnagrunns á heilbrigðissviði# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., heilbrrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 7. fundur, 124. lþ.

[11:10]

Heilbrigðisráðherra (Ingibjörg Pálmadóttir):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þingmönnum fyrir þessa fyrirspurn, þeim Þuríði Backman og Ögmundi Jónassyni. Fyrirspurnin er í átta liðum og ég hef aðeins fimm mínútur til að svara henni þannig að ég mun gera mitt besta.

Varðandi fyrstu spurninguna þá var nefnd um gerð og starfræsklu gagnagrunns á heilbrigðissviði skipuð sl. febrúar og hefur starfað síðan. Það má geta þess að nefndin hefur nýlega ráðið lögfræðing til starfs. Nefndin er skipuð Davíð Þór Björgvinssyni prófessor, Jóhanni Ágústi Sigurðssyni, forseta læknadeildar, og Ebbu Þóru Hvannberg dósent.

Varðandi aðra spurninguna þá liggur ekki fyrir hvenær lokið verður við setningu allra reglugerða sem kveðið er á um að settar verði á grundvelli laga um gagnagrunn á heilbrigðissviði en verið er að vinna að smíði þeirra. Ekki er hægt að segja til um það nú hvenær starfsemin hefst enda hefur rekstrarleyfi ekki enn verið gefið.

Varðandi þriðju spurninguna, þá fjallar þessa dagana þriggja manna nefnd, skipuð Davíð Á. Gunnarssyni ráðuneytisstjóra, Jóni Sveinssyni hæstaréttarlögmanni og Sigurði Þórðarsyni ríkisendurskoðanda, um umsókn Íslenskrar erfðagreiningar. Ekki er því á þessu stigi unnt að fullyrða hverjum verði veitt rekstrarleyfi til gerðar og starfrækslu gagnagrunns á heilbrigðissviði né hvort það yrði hugsanlega áður en Eftirlitsstofnun EFTA hefur komist að niðurstöðu vegna kæru Mannverndar um brot á samkeppnisreglum EES.

Varðandi fjórðu spurninguna sem er einna viðamest, þá er því til að svara að ákvæði laga um réttindi sjúklinga og ákvæði gagnagrunnslaganna um mat vísindasiðanefndar eða siðanefndar á rannsóknum, eru hliðstæð. Samkvæmt 4. mgr. 2. gr. laga um réttindi sjúklinga skal mat vísindasiðanefndar eða siðanefndar á rannsóknum hafa leitt í ljós að vísindaleg eða siðfræðileg rök mæli ekki gegn framkvæmd hennar. Hliðstætt ákvæði er í 3. mgr. 12. gr. laga um gagnagrunn á heilbrigðissviði en þar segir að ráðherra skuli setja reglugerð um þverfaglega siðanefnd sem meta skal rannsóknir sem gerðar eru innan fyrirtækis rekstrarleyfishafa og fyrirspurnir sem berast. Mat nefndarinnar verður að hafa leitt í ljós að engin vísindaleg eða siðfræðileg sjónarmið mæli gegn framkvæmd rannsókna eða vinnslu fyrirspurna.

Í 10. gr. laga um réttindi sjúklinga eru hins vegar ákvæði um samþykki sjúklings fyrir þátttöku í vísindarannsóknum. Þar er átt við beina þátttöku sjúklings í rannsókn, svo sem blóðgjöf, rannsóknir, viðtöl eða svör við spurningalistum. Kröfur um upplýst, formlegt samþykki sjúklings og um að mat vísindasiðanefndar eða siðanefndar stofnana hafi leitt í ljós að vísindaleg eða siðfræðileg rök mæli ekki gegn framkvæmd hennar gilda um allar rannsóknir sem gerðar eru með þátttöku sjúklinga. Þær munu því að sjálfsögðu einnig gilda um rannsóknir væntanlegs rekstrarleyfishafa. Við rekstur miðlægs gagnagrunns á heilbrigðissviði verður því farið að lögum um réttindi sjúklinga og lögum um gagnagrunn á heilbrigðissviði og þar með ekki þörf á því að ríkisstjórnin beiti sér fyrir sérstökum ráðstöfunum til að tryggja það.

Fimmta spurningin fjallar um upplýsingar um gagnagrunn, en samkvæmt lögum á landlæknir að sjá um að upplýsa almenning og það hefur landlæknir svo sannarlega gert.

Varðandi sjöttu fyrirspurnina er því til að svara að einstaklingar geta hvenær sem er óskað eftir því að upplýsingar um þá verði ekki fluttar í gagnagrunn á heilbrigðissviði, eins og segir í 1. mgr. 8. gr. laganna. Þegar slík ósk hefur borist skal þegar í stað hætta flutningi upplýsinga um viðkomandi einstakling í gagnagrunn.

Varðandi sjöundu fyrirspurnina er því til að svara að eins og áður sagði, getur einstaklingur hvenær sem er óskað eftir því að upplýsingar um hann séu ekki fluttar í grunninn, þ.e. bæði áður og eftir að rekstur gagnagrunns á heilbrigðissviði hefst.

[11:15]

Í lögum er einungis gert ráð fyrir rétti einstaklings til að óska eftir að upplýsingar um hann verði ekki fluttar í gagnagrunninn. Engin ákvæði eru í lögunum um rétt til að láta eyða upplýsingum sem þegar eru komnar í gagnagrunninn. Hins vegar er ljóst að engar upplýsingar um viðkomandi fara í gagnagrunninn eftir að tilkynning um ósk hans þess efnis hefur borist þeim sem annast flutning upplýsinga í gagnagrunn.

Varðandi áttundu fyrirspurnina: Fá eða jafnvel engin dæmi eru um að almenningur hafi tekið jafnalmennan þátt í umræðu um lagafrumvarp á undirbúningsstigi og einmitt um frv. til laga um gagnagrunn á heilbrigðissviði. Þar hafa fjölmiðlar átt stóran þátt auk ráðuneytis, landlæknisembættis og einstakra stofnana og félagasamtaka, m.a. hefur landlæknir sem kunnugt er látið gera upplýsingabækling um lögin sem hefur verið sendur inn á hvert heimili í landinu. Þannig hefur almenningur fengið gífurlegar upplýsingar um málið á ýmsum stigum og er það vel og er vonandi fyrirmynd að umfjöllun um önnur mál.

Ég sé að tíma mínum er lokið en fæ að koma hér á eftir og ljúka þeim fyrirspurnum sem ósvarað er. Ég hef gert mitt besta á þessum fimm mínútum og er tilbúin að senda hv. þingmönnum þetta sem skriflegt svar ef óskað er.