Starfræksla miðlægs gagnagrunns á heilbrigðissviði

Miðvikudaginn 16. júní 1999, kl. 11:20:37 (364)

1999-06-16 11:20:37# 124. lþ. 7.2 fundur 11. mál: #A starfræksla miðlægs gagnagrunns á heilbrigðissviði# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., heilbrrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 7. fundur, 124. lþ.

[11:20]

Heilbrigðisráðherra (Ingibjörg Pálmadóttir):

Virðulegi forseti. Það er alveg ljóst að á öllum stigum málsins getur einstaklingur sagt sig úr grunninum (Gripið fram í.) og þess vegna er mjög mikilvægt að þær upplýsingar komi til fólks.

Ég tek það fram, eins og ég gerði áðan, að ekkert mál í þjóðfélaginu hefur fengið betri kynningu en þetta mál og við munum halda áfram að vinna á sömu braut og við höfum gert. (Gripið fram í: Guð forði okkur frá því.) Þegar grunnurinn verður að veruleika höldum við áfram að senda upplýsingabæklinga til fólks en samkvæmt lögum á landlæknir að gera það og hefur gert það mjög myndarlega.

Eins og ég sagði áðan eru þetta mjög viðamiklar fyrirspurnir og mér finnst rétt að ég sendi þinginu svör við þeim skriflega vegna þess að ég kom ekki öllu að hér áðan. En ég vil sérstaklega ítreka, vegna þess að hér var talað um að það ætti að stöðva málið meðan EFTA-dómstóllinn væri að fjalla um það, en það hefur enginn fengið leyfi í dag. Sérstök nefnd er að fjalla um það og ég tel enga ástæðu til að tefja störf þeirrar nefndar.