Athugasemdir Samkeppnisstofnunar um samkeppni á fjarskiptamarkaði

Miðvikudaginn 16. júní 1999, kl. 11:37:02 (367)

1999-06-16 11:37:02# 124. lþ. 8.92 fundur 70#B Athugasemdir Samkeppnisstofnunar um samkeppni á fjarskiptamarkaði# (umræður utan dagskrár), SJS
[prenta uppsett í dálka] 8. fundur, 124. lþ.

[11:37]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég held að álit Samkeppnisráðs sé fyrst og fremst mjög alvarleg aðvörun til stjórnvalda um að vel þurfi að vanda til breytinga á ríkisfyrirtækjum ef þeim er breytt í hlutafélög eða þau einkavædd. Það á ekki síst við ef í hlut eiga fyrirtæki sem hafa farið með mikilvæga almannaþjónustu og/eða starfað í einokunar- eða fákeppnisumhvefi. Málið er með öðrum orðum ekki eins einfalt og menn hafa látið í veðri vaka. Ætli það fari ekki þannig að ýmis varnaðarorð frá því er verið var að breyta Pósti og síma í hlutafélag, hafi reynst réttmæt, m.a. í ljósi þess sem nú er að gerast.

Það lá alltaf ljóst fyrir að þegar t.d. Landssíminn ætti í hlut þá hlyti það að valda miklum vandkvæðum í samkeppnislegu tilliti, þegar starfsemi af því tagi sem Landssíminn hefur haft með höndum yrði einkavædd, færð í hlutafélag og saman væru stödd í einu hlutafélagi starfsemi, þar sem um hreina einokunaraðstöðu væri að ræða og starfsemi þar sem um er að ræða þjónustuviðskipti í beinni samkeppni við einkaaðila á markaði.

Á sínum tíma reyndum við sem andæfðum gegn þessum áformum að fá fram t.d. umræður um hvort ekki væri skynsamlegra að aðskilja einokunarþættina, t.d. ljósleiðarann, örbylgjusamböndin, jarðstöðvar og önnur mannvirki sem tengjast grunnfjarskiptanetinu og skilja það eftir hjá ríkinu. Þar með hefðu aðeins þjónustu- og viðskiptaþættirnir verið hlutafélagavæddir. Mér sýnist t.d. það sem hér er að gerast mæla mjög sterklega með því að fyrst farið var út í að hrófla við þessu fyrirtæki á annað borð, sem best hefði auðvitað verið að láta í friði, þá hefði í öllu falli verið skynsamlegra að standa þannig að málum.

Enn er óleystur sá vandi, herra forseti, sem snýr að spurningunni: Hvernig ætla menn að fara með t.d. ljósleiðarakerfið í framtíðinni? Hvað á að gera með það? Á að selja það? Á að einkavæða það?