Athugasemdir Samkeppnisstofnunar um samkeppni á fjarskiptamarkaði

Miðvikudaginn 16. júní 1999, kl. 11:39:35 (368)

1999-06-16 11:39:35# 124. lþ. 8.92 fundur 70#B Athugasemdir Samkeppnisstofnunar um samkeppni á fjarskiptamarkaði# (umræður utan dagskrár), SvanJ
[prenta uppsett í dálka] 8. fundur, 124. lþ.

[11:39]

Svanfríður Jónasdóttir:

Herra forseti. Já, það hafa sannarlega orðið miklar breytingar á aðstæðum ýmissa stofnana og fyrirtækja. Fyrirtækin eru komin í alþjóðlegt umhverfi og njóta ekki lengur þeirrar verndar sem falist hefur í fjarlægð Íslands frá öðrum löndum. Þau njóta ekki lengur þess að vera jafnvel ein á markaði og geta átt alls kostar við neytendur. Ríkisfyrirtæki sem eru háeffuð eða einkavædd þurfa auðvitað að vanda sig sérstaklega ef þau vilja ekki skaða ímynd sína.

Það verður að segjast að framganga Landssímans hefur verið einstaklega óheppileg vegna þess að á undanförnum árum hafa á annan tug ákvarðana og álita komið vegna þessarar stofnunar frá Samkeppnisstofnun. Hér á hinu háa Alþingi hefur verið talað um að fyrirtækið hafi sýnt einbeittan brotavilja. Þetta hefur auðvitað verið mjög óheppilegt en eignarhald Landssímans á grunnfjarskiptakerfinu verður til þess, herra forseti, að keppinautar fyrirtækisins þurfa óhjákvæmilega að eiga við það viðskipti. Landssíminn hefur þá eðlilega einnig tekjur af þeim viðskiptum. Stjórnvöld á sviði fjarskipta verða því að huga vandlega að samkeppnisstöðu þeirra fyrirtækja sem hafa verið eða eru að hasla sér völl í fjarskiptaþjónustunni.

Vegna orða hæstv. ráðherra hér áðan er full ástæða til að minna á það að samgrh. er ráðherra fjarskipta og þar með allra fyrirtækja á þeim markaði. Hann á að gæta hagsmuna neytenda, okkar allra, en ekki aðeins hagsmuna Landssímans, eins og stundum hefur brunnið við hér á hinu háa Alþingi að manni finnist í framgöngu samgrh. Það er alveg ljóst af fyrstu orðum þessa hæstv. samgrh. að hann ætlar ekki að verða minni vinur Landssímans en sá sem á undan honum var né heldur meiri vinur Samkeppnisstofnunar. Það er áhyggjuefni, herra forseti, vegna þess að þessi mál eru í brennidepli og það ríður á að samkeppnismálin séu í góðum farvegi.