Athugasemdir Samkeppnisstofnunar um samkeppni á fjarskiptamarkaði

Miðvikudaginn 16. júní 1999, kl. 11:41:56 (369)

1999-06-16 11:41:56# 124. lþ. 8.92 fundur 70#B Athugasemdir Samkeppnisstofnunar um samkeppni á fjarskiptamarkaði# (umræður utan dagskrár), ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 8. fundur, 124. lþ.

[11:41]

Ögmundur Jónasson:

Hæstv. forseti. Þetta mál er unnt að nálgast úr ólíkum áttum enda ljóst að sjónarhorn manna er mjög mismunandi í umræðu um málið. Ég vil leggja áherslu á tvennt, ódýra og vandaða þjónustu. Staðreynd málsins er sú að á undanförnum áratugum hefur verið byggt upp símkerfi og þjónusta sem er þetta tvennt í senn, vönduð og ódýr. Áður en Pósti og síma var breytt í hlutafélag var vakin athygli á þessu hér á Alþingi með ítarlegum samanburði við önnur lönd. Eitt af áhyggjuefnum manna við að breyta stofnuninni var að almenningur yrði af þeim hagnaði sem er af starfseminni eða úr henni mundi draga, að ekki sé á það minnst þegar búið er að selja fyrirtækið og milljarðar renna til nýrra eigenda.

Fyrrv. samgrh. hæstv. setti á fót nefnd manna til að véla um framtíð símans. Nefndarmenn vildu að sjálfsögðu ákafir selja enda allir úr þeim pólitíska ranni og nú eru dæmi þess að nefndarmenn séu komnir inn á þetta rekstrarsvið sjálfir og vilji beygja Landssímann undir lögmál markaðarins á öllum sviðum.

Mín spurning er þessi: Er þessi aðferð til þess fallin að gera þjónustuna betri og ódýrari? Nei, samkeppnisaðilar telja að hækka beri símaþjónustu og brytja stofnunina niður til að jafna aðstöðu nýtilkominna fyrirtækja á markaði. Með öðrum orðum: Þeir vilja að símnotendur niðurgreiði nýtilkomna samkeppni á markaði til að jafna stöðu þeirra gagnvart þessu gamalgróna fyrirtæki. Undir slíkt get ég ekki tekið.

Ég vil leggja áherslu á það undir lokin að nú er ástæða til að staldra við og slá á frest öllum áformum um að selja þetta fyrirtæki.