Athugasemdir Samkeppnisstofnunar um samkeppni á fjarskiptamarkaði

Miðvikudaginn 16. júní 1999, kl. 11:49:58 (373)

1999-06-16 11:49:58# 124. lþ. 8.92 fundur 70#B Athugasemdir Samkeppnisstofnunar um samkeppni á fjarskiptamarkaði# (umræður utan dagskrár), samgrh.
[prenta uppsett í dálka] 8. fundur, 124. lþ.

[11:49]

Samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson):

Herra forseti. Ég hóf ræðu mína áðan á því að vekja athygli á mikilvægu hlutverki Samkeppnisstofnunar og vil ég segja það sérstaklega í framhaldi af ræðu hv. þm. Guðmundar Árna Stefánssonar.

En ég vakti athygli á því fyrr að við höfum breytt lögum. Ein helsta breytingin var sú að einkaréttur ríkisins var felldur niður og samkeppni heimiluð á fjarskiptamarkaði. Við höfum sett margar reglur og regluumhverfi sem miðar að því að tryggja samkeppni á þessum markaði, samkeppni á jafnréttisgrundvelli. Það er gert fyrst og fremst með því að leggja ýmsar kvaðir á markaðsráðandi fyrirtæki, m.a. með skyldu til að veita samkeppnisaðilum aðgang að grunnneti á ákveðnum kjörum sem mælt er fyrir um í lögum og reglum sem byggja á EES-tilskipunum. Ekkert er minnst á þessar kvaðir í áliti Samkeppnisstofnunar.

Önnur regla sem er lögfest í þeim tilgangi að tryggja jafnræði aðila er krafan um fjárhagslegan aðskilnað og raunkostnað við útreikning verðs. Auk þess er krafa um gerð fjárhagslegs aðskilnaðar í leyfisbréfi Landssímans, sem ég vil leggja alveg sérstaka áherslu á. Það er því ekki aðeins samkeppnisráð sem vill að komið verði í veg fyrir millifærslur heldur eru þær lögfestar í fjarskiptalögunum og Landssíminn verður auðvitað að standast þær kröfur sem lög setja.

Samkeppnisstofnun hefur lagt til við ráðherra að stofnað verði nýtt hlutafélag um GSM-þjónustuna. Ég tel að Samkeppnisstofnun sé farin þarna út á mjög hálan ís með því að ætla að fara að skipuleggja atvinnustarfsemina í landinu. (GÁS: Hvað vill ráðherrann?) Ráðherrann telur að mjög mikið óráð sé að gefa yfirlýsingu um það núna að brjóta eigi Landssímann upp. Ég tel að þetta fyrirtæki eigi að vera sterkt þegar það kemur inn í þá miklu samkeppni sem við stöndum frammi fyrir og við eigum ekki að veikja það áður. Með því mundum við minnka verðgildi fyrirtækisins. Ég tel ekki rétt á þessu stigi að Samkeppnisstofnun gefi þau ráð að brjóta eigi fyrirtækið upp og ég er ekki tilbúinn til að fara að þeim ráðum og gefa stjórnendum Landssímans fyrirmæli um það sem handhafi hlutabréfsins margrædda að brjóta eigi GSM-reksturinn frá.

Aðalatriðið er að tryggja með eftirliti að farið sé eftir reglunum sem hafa verið settar um að ekki sé verið að millifæra og nota styrk einnar deildar til þess að klekkja á samkeppnisaðilum annarra á öðrum sviðum. Það er aðalatriði málsins og á það vil ég leggja sérstaka áherslu.

Ég vil að lokum segja, herra forseti, að Samkeppnisstofnun hefur vandasamt verkefni. Ég tel það í þágu neytenda að Landssíminn fái aðhald. (Forseti hringir.) Ég er reiðubúinn til að beita mér fyrir því að Landssíminn taki því aðhaldi og þeim ábendingum sem koma frá Samkeppnisstofnun en þær þurfa að vera sanngjarnar en ég er ekki tilbúinn til að lýsa því yfir hvernig við eigum að standa að sölu á hlutabréfum Landssímans (Forseti hringir.) og með því vil ég svara hv. málshefjanda þegar hann spurði mig um það hvort stjórnarandstaðan ætti að koma að þeirri sölu. Ég er ekki tilbúinn til að lýsa neinu yfir um það núna.

(Forseti (HBl): Ég vil minna á að um fyrirspurnartíma og utandagskrárumræður eru mjög strangar reglur í þingsköpum og nauðsynlegt er að forseti sjái til þess að þingmenn haldi sig innan tímamarka.)