Vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl.

Miðvikudaginn 16. júní 1999, kl. 12:18:11 (374)

1999-06-16 12:18:11# 124. lþ. 8.31 fundur 9. mál: #A vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl.# frv., ÖS
[prenta uppsett í dálka] 8. fundur, 124. lþ.

[12:18]

Össur Skarphéðinsson:

Herra forseti. Eins og kom fram í umræðunum í gær varð það að samkomulagi millum okkar þingmanna Samfylkingarinnar og hæstv. forseta að umræðunni yrði frestað í gær þangað til að við hefðum haft tóm til þess að ræða málið við fulltrúa fjmrn., þ.e. við þingmenn Samfylkingarinnar sem eigum sæti í fjárln., og ég vil þakka hæstv. forseta fyrir að hafa orðið við þessari beiðni okkar.

Það hefur líka orðið að samkomulagi að við setjum ekki á langar ræður um þetta mál núna til þess að reyna að greiða fyrir þingstörfum. Ég vil þó segja, herra forseti, að þær upplýsingar sem komu fram í fjárln. í morgun eru þess eðlis að mér sýnist sem þær skjóti stoðum undir þau rök sem við höfum fært hér í umræðunni á fyrri stigum hennar. Ég held að það sé ljóst að það sem við höfum sagt um að ákveðið svigrúm sé hjá ríkissjóði, standist.

Það liggur fyrir, herra forseti, að veltuaukning í þjóðfélaginu hefur skilað sér þannig í ríkissjóð að þrátt fyrir talsverðan útgjaldaauka, eins og fram hefur komið í umræðum áður í þinginu, m.a. vegna heilbrigðismála, er ljóst að um er að ræða nettótekjuauka.

Ég vil líka að það komi fram, herra forseti, að þessi veltuaukning í þjóðfélaginu hefur m.a. birst í því að innflutningur bíla til landsins hefur aukist, m.a. dísilbifreiða sem greiða þungaskatt, umfram það sem menn ætluðu. Sömuleiðis hefur góðærið í þjóðfélaginu leitt til þess að velta í viðskiptum og þar af leiðandi flutningar á vegum hafa líka aukist umfram það sem menn gerðu ráð fyrir.

Herra forseti. Þetta leiðir til þess að tekjur Vegasjóðs sem renna frá þungaskatti eru meiri en menn gerðu ráð fyrir. Þetta þýðir að það er minni þörf heldur en ella á því að sú hækkun sem samþykkt var 1. júní komi til framkvæmda.

Herra forseti. Það sem fyrir okkur vakir er að hæstv. ríkisstjórn veiti fagurt fordæmi og undirstriki það gagnvart þjóðinni allri að það er nauðsynlegt að veita viðnám gegn verðbólgunni, og hún geri það með því að ganga fram fyrir skjöldu og gera allt sem hún getur sjálf til þess að draga úr verðbólgunni.

Það gjald sem við höfum verið að ræða hér um, þ.e. bensíngjaldið, kemur inn í verðbólguna og það eykur hana. Tengingin milli lána fólksins í landinu og vísitölunnar gerir það að verkum að um leið og ríkisstjórnin hækkar bensíngjaldið þá er hún líka að auka skuldir heimilanna í landinu. Enginn veit það betur en t.d. Framsfl., sem hefur hér á árum fyrri haldið glæsilegar ræður um nauðsyn þess að vernda fjölskyldurnar, hvað það þýðir. Og það er þetta sem fyrir okkur vakir.

Við höfum bent á ýmis atriði þar sem ríkisstjórnin getur látið til sín taka. Það er í fyrsta lagi bensíngjaldið sem við höfum flutt þetta frv. um. Í öðru lagi höfum við bent á að hækkun á áfengisgjaldi leiðir líka til hækkunar á verðbólgu. Í þriðja lagi bendum við á að ríkið á aðild að Landsvirkjun og við höfum þess vegna hvatt til þess að ríkið hafi forgöngu um að þær forsendur sem liggja til grundvallar hækkunum á gjaldskrá Landsvirkjunar verði kannaðar til hlítar.

Hæstv. fjmrh. hefur svarað því til að það sé ekki á færi ríkisins eins heldur líka sveitarfélaganna. Það er hárrétt og við gerum okkur grein fyrir því. Ég tek þeim ábendingum með þökkum og sömuleiðis þeim ábendingum sem hæstv. fjmrh. flutti hér í gær um hvers vegna við beindum ekki geir okkar að Reykjavíkurborg líka, sem hefur staðið fyrir ýmiss konar hækkunum, og það gerum við. Ég tel nauðsynlegt að hæstv. fjmrh., ekki bara sökum tengsla sinna við borgarstjórn sem eru óvefengjanleg heldur líka vegna þeirrar stöðu sem hann gegnir, hafi frumkvæði að því að hafnar verði viðræður við Reykjavíkurborg og önnur sveitarfélög sem hafa staðið fyrir hækkunum af þessu tagi, t.d. í Kópavogi, um að það verði samstillt átak ríkisstjórnar og sveitarfélaganna í landinu að draga úr þessum hækkunum og afturkalla þær, fresta þeim, herra forseti. Þannig mundi ríkisstjórnin sýna verðugt fordæmi. Þannig mundi hún veita fólkinu í landinu verðuga leiðsögn og þar með yrði hún forustuafl í stjórnmálunum í þessari viðnámsbaráttu gegn verðbólgunni. Það er sú barátta sem Samfylkingin hefur tekið hér upp.

Mér finnst sorglegt hversu litlar undirtektir þetta hefur fengið hjá hv. þingmönnum stjórnarliðsins. Það hefur enginn tekið undir þetta og menn hafa, frekast þeir sem hér hafa talað, reynt að snúa út úr því og skrumskæla það á einhvern hátt. En ég held að allir séu sammála því að það sem hæstv. fjmrh. hefur að vísu svo elegant kallað, verðbólguskot, kunni að þróast upp í að verða að stórskotahríð. Við vonum öll að svo sé ekki.

En ég vek athygli á því að þetta verðbólguskot hæstv. fjmrh. á sér aðdraganda. Þó að hæstv. ráðherra hafi ekki viljað kannast við það í kosningabaráttunni að váboðar kynnu að vera uppi þá er alveg ljóst að allt síðasta ár, sér í lagi seinni hluta síðasta árs, voru að birtast teikn um að þrýstingur á verðbólguna var að aukast. Við sáum það t.d. á því að húsnæði hækkaði á síðasta ári um nokkur prósent, þjónusta um 2% og svo mætti lengi telja.

Það sem hins vegar kom í veg fyrir að þessi verðbólguþrýstingur brytist upp á yfirborðið var sú staðreynd að það voru hagstæð umskipti erlendis. Allan síðari hluta síðasta árs hjaðnaði verðlag í þeim löndum sem við eigum mest viðskipti við, sömuleiðis styrktist krónan. Þetta gerði það að verkum að innflutningsverðlag lækkaði. Þetta leiddi til þess að innflutningsvarningur lækkaði um 3% og það nægði til þess að fela þessa verðbólgu sem hefði, ef þessi þróun utan lands hefði ekki átt sér stað, komið fram miklu fyrr. Um leið og ég leyfi mér að óska þess að hæstv. ráðherra hafi rétt fyrir sér, að hér sé einungis um skot að ræða, þá vil ég nefna þetta til þess að benda á að hér er um fyrirbæri að ræða sem á sér aðdraganda. Þetta er ekki bara eitthvað sem er að brjótast upp núna. Þetta hefur verið að byggjast upp.

Hættan er auðvitað sú þegar þessu ári vindur fram, herra forseti, að þá taki við sá gamalkunni fjandi okkar Íslendinga, víxlverkanir verðlagshækkana og launa. Við eigum fram undan erfiða kjarasamninga. Herra forseti. Mig uggir að gríðarlega erfitt verði að landa þeim þannig að öllum sé til farsældar. Þar spilar verulega inn í sú staðreynd að hæstv. ríkisstjórn hefur talað af nokkru gáleysi um góðærið. Hún hefur talað þannig, sérstaklega í kosningabaráttunni en reyndar líka áður en hún brast á með fullum þunga, að góðærið væri eitthvað sem hefði fallið ofan af himnum og væri komið til þess að vera, eins og mannað sem forðum féll. Svo er auðvitað ekki. Ég hef fært rök fyrir því á fyrri stigum þessarar umræðu að öll teikn bendi til þess að við séum núna stödd tiltölulega aftarlega á síðasta bili hagsældarskeiðsins sem við höfum verið á og er nauðsynlegt að menn taki höndum saman til þess að reyna að framlengja þetta. Og ég hef gagnrýnt ríkisstjórnina fyrir að hafa orðið á nokkur mistök sem hafa gert það að verkum að þá því eru minni líkur en ella.

Hæstv. ráðherra sagði að menn ættu að varast að tala af gáleysi um verðbólgu vegna þess að það væri hægt að tala hana upp. Með þessu er hæstv. ráðherra að vísa til þeirrar alkunnu staðreyndar að hagfræði leikur að verulegu leyti á sálfræðilegum nótum. Og það er rétt. Við þurfum þá líka að beita þessum sömu aðferðum til þess að reyna að spila hana einhvern veginn niður. Því er nauðsynlegt að þeir sem hafa afl og þunga, þeir sem eru í forustu, þ.e. hæstv. ríkisstjórn, gangi fram fyrir skjöldu og sýni ekki bara þegnum landsins heldur atvinnulífinu að hún er að taka á til þess að reyna að lækka verðbólguna. Og það er hægt m.a. með því að samþykkja þetta frv., herra forseti. Almennt er það nauðsynlegt sem þáttur í þessum viðnámsaðgerðum verðbólgunnar. Almennt er það nauðsynlegt til þess að veita fordæmi og forustu.

Tæknilega, herra forseti, er það líka svo að þær tekjur sem reiknaðar voru inn í forsendur fjárlagagerðarinnar á síðasta ári vegna þessarar hækkunar eru þegar komnar þar inn. Þær eru komnar þar inn í gegnum hækkunina sem hefur orðið vegna veltuaukningar í þjóðfélaginu og birtist í auknum þungaskatti og þar með auknum tekjum Vegasjóðs.

En í öðru lagi er líka ljóst, herra forseti, að það er borð fyrir báru. Það hefur komið fram og því er ekki neitað af þeim sem hafa valdið og dýrðina í ríkisstjórninni þessa stundina, að þó að útgjöld ríkisins hafi aukist þá hafa tekjurnar aukist meira. Þess vegna segi ég að lokum, herra forseti, að tekjurnar sem ... (SJS: Hvar lærði þingmaðurinn hagfræði?)

Herra forseti. Hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon spyr hvar þingmaðurinn hafi lært hagfræði. Hann hefur ekki gengið á langa skóla í þeim efnum en þó hefur hann setið um þriggja kortera skeið í kjöltu hv. þm. Jóns Kristjánssonar á þessum morgni að viðstöddum fjórum fulltrúum fjmrn. Og eftir þá skömmu lexíu er hann sannfærður um að það stenst sem hann segir, að tekjur vegna þungaskatts sem stafa af aukinni veltu í þjóðfélaginu eru snöggt um meiri en gert var ráð fyrir í forsendum fjárlaga og sömuleiðis að tekjur ríkissjóðs eru meiri en útgjaldaaukinn. Þess vegna er borð fyrir báru.