Vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl.

Miðvikudaginn 16. júní 1999, kl. 12:36:21 (377)

1999-06-16 12:36:21# 124. lþ. 8.31 fundur 9. mál: #A vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl.# frv., GÁS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 8. fundur, 124. lþ.

[12:36]

Guðmundur Árni Stefánsson (andsvar):

Herra forseti. Þessi málflutningur hæstv. fjmrh. var ákaflega sérkennilegur og pirringurinn í málflutningi hans skein í gegn. Hann á greinilega í vök að verjast og samviskan er eitthvað í ólagi.

Það er ákaflega undarlegt að heyra það frá fjmrh. landsins að hann telji það krafs af hálfu þingmanna þegar þeir reyna á vitrænan hátt að beina umræðunni hvað varðar fjármál íslenska ríkisins í þá veru að menn hafi hér haldbærar tölur til staðar, annars vegar um hvaða aukaútgjöld er að ræða og hins vegar hverjar horfurnar eru tekjumegin. Það kallar hann almennt krafs, talar um sýndarmennsku og yfirborð og ætlar að afgreiða hið háa Alþingi, eins og hann gerir gjarnan í blöðum, með því að segja nettóniðurstaðan verði sennilega eitthvað nærri lagi.

Þetta eru ekki boðleg vinnubrögð. Við erum að biðja um að hér geti farið fram umræða sem byggir á veruleikanum eins og hann blasir við. Það er komið mitt ár og hvað er óeðlilegt við það að þingmenn á sumarþingi vilji fá handfestu í því hversu margir milljarðarnir eru sem hafa runnið út nú þegar í loforðum ríkisstjórnarinnar fram hjá heimildum Alþingis, sem þarf að taka inn í fjáraukalög að hausti? Hversu margir eru milljarðarnir af hinum ýmsu tekjupóstum ríkisins þar sem allt bendir til þess að þeir muni jafna, eins og hæstv. ráðherra segir, þennan útgjaldaauka?

Það er ekki boðlegt hjá hæstv. fjmrh. að koma og tala um að nettóniðurstaðan verði sennilega sú sama. Og þegar menn ætla að ræða málið á vitrænum grundvelli þá sé verið að krafsa, þá séu þeir með sýndarmennsku. Ég frábið mér svona málflutning, algjörlega herra forseti. Þetta er ekki sæmandi ráðherrum í ríkisstjórn Íslands.