Vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl.

Miðvikudaginn 16. júní 1999, kl. 12:40:14 (379)

1999-06-16 12:40:14# 124. lþ. 8.31 fundur 9. mál: #A vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl.# frv., GÁS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 8. fundur, 124. lþ.

[12:40]

Guðmundur Árni Stefánsson (andsvar):

Herra forseti. Það kvað nú sumpart við annan tón en þó ekki. Það sem ég var einmitt að undirstrika var þetta: Er það óeðlilegt á miðju sumarþingi að ræða stöðu ríkissjóðs og horfur í þeim efnum?

Ég vek athygli á því að þingflokkur Samfylkingarinnar féll frá umræðu, utandagskrárumræðu um stöðu efnahagsmála og stöðu ríkissjóðs, í því ljósi að menn gætu rætt það undir þessum lið, sem mér hefur heyrst einmitt hæstv. fjmrh. hafa nýtt sér býsna vel og farið um víðan völl og einkum og sér í lagi fest hendur á hugsanlegri og væntanlegri hækkun á strætisvagnagjöldum í Reykjavík, sem er þó að sönnu náskylt því efni sem við ræðum í þessu frv., bensíngjaldinu og tryggingunum. Það skyldi þó aldrei vera að þar væri samhengi á milli að einhverju leyti?

En ég ætla hins vegar ekki að detta ofan í þann fúla pytt. Ég vil halda mig við það sem hæstv. fjmrh. sjálfur kom inn á í ræðu sinni. Það dugar ekki gagnvart hinu háa Alþingi að segja það venju samkvæmt og vísa til þess að á öllum tíðum og í síðustu ríkisstjórn og þarsíðustu ríkisstjórn hefði verið einhver útgjaldaauki sem var ófyrirséður vegna launaþróunar eða ófyrirséðra atvika annarra --- það vitum við býsna vel.

En það sem við erum að reyna að fá fram er hvernig sú staða er í raun og sanni miðað við dags dató. Hverjar eru horfurnar? Ég veit ekki betur en að fjármálaráðuneytismenn og meiri hluti fjárln. séu þessa dagana einmitt að leggja drög að fjárlagafrv. haustsins grundvallað á þeim tölum sem nú þegar liggja fyrir.

Það eru þær tölur sem við höfum verið að reyna að slíta hér út, þær horfur sem við höfum verið að reyna að slíta hér út ítrekað á þeim örfáu dögum sem við höfum haft á þessu sumarþingi. Er það óeðlilegt og ber það þess merki að menn séu með sýndarmennsku þegar þeir vilja hafa veruleikann í höndunum? Mér sýnist þvert á móti að það sé hæstv. ráðherra og ríkisstjórnin sem séu á harðaflótta frá þeim veruleika.