Vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl.

Miðvikudaginn 16. júní 1999, kl. 12:42:30 (380)

1999-06-16 12:42:30# 124. lþ. 8.31 fundur 9. mál: #A vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl.# frv., fjmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 8. fundur, 124. lþ.

[12:42]

Fjármálaráðherra (Geir H. Haarde) (andsvar):

Herra forseti. Það ber nú nýrra við ef það er orðið gagnrýnisvert að ríkisstjórnir séu um þetta leyti árs að ganga frá fjárlagafrv. fyrir næsta ár (GÁS: Það var enginn að gagnrýna það.) á grundvelli bestu fyrirliggjandi upplýsinga. En fundurinn í morgun gekk út á það að fjárln. voru veittar þær upplýsingar sem fyrir liggja um þessi mál. Þannig er staðan.

Út úr því kom það sem ég leyfði mér að segja áðan að hv. þm. Össur Skarphéðinsson hafði lítið upp úr því krafsi. Hann hafði lítið upp úr því krafsi vegna þess að það kom ekkert fram umfram það sem ég hef hér sagt, að við gerum ráð fyrir að tekjur og gjöld aukist ekki meira en svo á annan hvorn veginn en að nettóútkoman verði svipuð og við höfum gert ráð fyrir í fjárlögunum. Það er a.m.k. von mín að við náum því.

En auðvitað er ekki hægt að fullyrða hvernig endanleg þróun um tekjur og gjöld verður á þessu ári. Þetta vita menn. Hvað er verið að espa hér upp umræður um hluti sem allir er hafa komið nálægt þessum hlutum vita mætavel? Miklu veldur sá sem upphafinu veldur í þeim efnum, en hv. þm. hafði lítið upp úr sínu krafsi, ég stend við það. Ég skal segja það í þriðja sinn að frv. um lækkun bensíngjalds er sýndarmennska.