Vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl.

Miðvikudaginn 16. júní 1999, kl. 12:46:00 (382)

1999-06-16 12:46:00# 124. lþ. 8.31 fundur 9. mál: #A vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl.# frv., fjmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 8. fundur, 124. lþ.

[12:46]

Fjármálaráðherra (Geir H. Haarde) (andsvar):

Já, það er þetta með mannasiðina, herra forseti. Kannski væri rétt að fá sérstakan einkatíma hjá hv. þm. í þeim og hvernig fara á að því að hreyta skít í fólk.

Ég vil hins vegar enda skoðanaskipti mín við hann, sem hófust hér í gær um þessi mál, á því að taka undir það sem hann sagði að því er varðar nauðsyn þess að beita ýtrasta aðhaldi í ríkisfjármálunum. Mér heyrist hann enn þá tala á þeim nótum, þó hann noti nú tækifærið til að kasta skít í mig, eins og hann orðar það. Látum það nú vera. Ég fagna því, eins og hv. formaður fjárln. gerði í gær, að hafa drjúgan liðsmann þegar kemur að því í haust að taka á einstökum málum í fjárlagafrv. Ég held að það muni um hv. þm. þegar þar að kemur ef taka þarf sársaukafullar ákvarðanir í því efni. (Gripið fram í.) Já, það munar um allt í þeim efnum, hv. þm. Jóhann Ársælsson. (Gripið fram í: Er búið að taka ákvarðanir um ...?) Það er ekki búið að taka neinar ákvarðanir en eðli málsins samkvæmt þarf jafnframt, þegar teknar eru ákvarðanir sem tengjast fjárlögunum, að taka fleiri ákvarðanir en þær sem öllum líkar.

Það hefur ekki verið legið á neinum upplýsingum af hálfu fjmrn. Það verður ekki gert. Það verða ástunduð þau vinnubrögð sem tíðkast hafa í samskiptum ráðuneytisins og fjárln. Undan þeim hefur ekki nokkur maður kvartað að því er ég best veit. Mér þykir leitt ef hv. þm. finnst samskiptin undanfarinn sólarhring vera til marks um hroka eða hrokakennd vinnubrögð en ég segi það sem ég sagði áðan: Miklu veldur sá sem upphafinu veldur í þeim efnum.