Vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl.

Miðvikudaginn 16. júní 1999, kl. 13:08:53 (387)

1999-06-16 13:08:53# 124. lþ. 8.31 fundur 9. mál: #A vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl.# frv., MF
[prenta uppsett í dálka] 8. fundur, 124. lþ.

[13:08]

Margrét Frímannsdóttir:

Virðulegi forseti. Ástæða þess að ég kveð mér hljóðs er sú að það kom áðan fram hjá hæstv. fjmrh. að frv. sem lagt er fram af nokkrum hv. þingmönnum Samfylkingarinnar væri sýndarmennska. Maður gat skilið að þess vegna væri ekki endilega þörf á málefnalegri umræðu um það og efni þess. Ég er þessu algerlega ósammála og reyndar mjög hissa á því að hæstv. fjmrh. skuli nota orð sem þessi eftir að búið er í löngu máli að fara yfir ástæður þess að frv. er lagt fram, ekki bara á hv. Alþingi heldur hafi komið fram af hálfu t.d. ASÍ og fleiri samtaka viðvaranir varðandi þenslu í þjóðfélaginu og efasemdir þess efnis að það væri réttur tímapunktur að setja bensíngjaldið á þegar olíuverð hækkar mjög erlendis og er núna í hámarki og reikna má með að það fari svo lækkandi. Þess vegna hefði verið skynsamlegra fyrr hæstv. ríkisstjórn að bíða með þessa hækkun og sjá hver þróunin yrði.

Ekki liggja fyrir niðurstöður núna að fjárlögum eða hvernig þróunin hefur verið á fyrstu 5--6 mánuðum ársins, hver er tekjuauki ríkissjóðs --- það liggur fyrir að hann er einhver --- og hver er útgjaldaaukningin. Úr því að þessar tölur liggja ekki fyrir endanlega hefði verið skynsamlegt að bíða með frekari ákvarðanatöku af hálfu ríkisstjórnarinnar. Forsendur fjárlaga hefðu verið metnar upp á nýtt. Það að taka ákvörðun um bensíngjaldið og þungaskattinn í byrjun júní þegar ljóst er að aðeins eru örfáir dagar eða vikur þar til þetta endurmat á forsendum fjárlaga og útkomunni liggi fyrir er fljótræði og þess vegna hefði verið eðlilegt að búast við því að hér ætti sér stað málefnaleg umræða, ekki einungis hvað varðar þetta frv. heldur einnig efnahagsmálin almennt og eins og áðan kom fram hafði þingflokkur Samfylkingarinnar beðið um utandagskrárumræðu um efnahagsmálin og þróunina en féll frá henni á þeirri forsendu að af því að við höfum lagt fram þetta frv. mætti taka inn fleiri þætti sem hefur verið gert í umræðunni. Það er fyrst og fremst ástæðan fyrir því að fleiri þættir efnahagsmála hafi verið dregnir inn í umræðuna en eingöngu efni frv. sjálfs.

Ég hefði gjarnan viljað sjá á þessum tímapunkti hvað t.d. tekjur ríkissjóðs af umferðinni hafa aukist. Nú fer fram keyrsla á því í hverjum einasta mánuði jafnt og virðisaukaskattinum og það hefði verið eðlilegt að hægt hefði verið að fá upplýsingar, a.m.k. grófa áætlun, um hver tekjuaukinn sem stafar af umferðinni hefði verið á þessu ári og tekjurnar af virðisaukaskattinum.

Nú kemur fram eftir fund í fjárln. að áætlunin liggi ekki fyrir og menn nefna tölur að tekjuaukinn geti verið á bilinu 2--4 milljarðar. Ekki er verið að tala um að hann geti verið á bilinu 2--2,5 milljarður heldur 2--4. Þarna er gífurlega mikill munur á. Menn hljóta að geta sagt nákvæmar um það í dag hver þróunin hefur verið og hvernig málin standa hjá ríkissjóði.

Í grein í Morgunblaðinu, sem birtist í gær þar sem talað er um ný tækifæri og nýjar hættur, er varað mjög við þenslumerkjum sem eru í þjóðfélaginu og ekki hægt að líta á það sem þar kemur fram hjá mjög mörgum sérfræðingum öðruvísi en hvatningu til ríkisvaldsins um að fara varlega. Þingflokkur Samfylkingarinnar hefur rætt um efnahagsmálin og þá þróun sem hefur verið frá því um kosningar og þær hækkanir sem hafa dunið á okkur eftir kosningar og þetta var niðurstaða okkar eftir ítarlegar umræður innan þingflokksins og samtöl við mjög marga sérfræðinga, m.a. hjá stofnunum ríkisins, að fara þá leið að leggja þetta frv. fram vegna þess að við teldum að það væri skysamlegt og spor í rétta átt að afturkalla þessa hækkun á bensínverði. Það er ekki sýndarmennska fólgin í því heldur fyrst og fremst einn liður í því að taka á þessum málum. Jafnframt fórum við fram á það að aðrir þættir eins og iðgjaldahækkun væri skoðuð í nefndum og farið væri fram á skýringar á þeim forsendum sem þar liggja að baki og fullyrt er af hálfu tryggingafélaganna að séu vegna samþykkta sem gerðar hafa verið á hv. Alþingi.

Við fórum fram á að efh.- og viðskn. færi fram á skriflega greinargerð um málið en menn töldu að ekki væri rétt að þingnefnd gerði slíkt. En þegar liggja fyrir ásakanir úti í þjóðfélaginu þess efnis að Alþingi hafi tekið ákvarðanir sem leiða til gífurlegra hækkana á iðgjöldum er eðlilegt að þingnefnd fari fram á gerð sé á því úttekt og skilað um það skýrslu til þingsins. En þar sem ekki var orðið við því mun þingflokkurinn viðhalda þeirri beiðni. Talað hefur verið um 35--40% hækkun iðgjalda.

[13:15]

Hér fyrir framan mig er ég með rukkanir, önnur er ársgömul en hin er frá því núna, þar sem um er að ræða ábyrgðartryggingu á bifreið. Í fyrra var innheimt í ábyrgðartryggingu 50.154 kr. fyrir árið en núna er ábyrgðartryggingin, sama ábyrgðartrygging, 85.240 kr. á sömu bifreið. Þarna er aldeilis um meiri hækkun að ræða en 40%. Ekki skiptir máli hver bónusafslátturinn er í þessu tilviki heldur var ábyrgðartryggingin sjálf fyrir ári síðan 50.154 kr. en er núna 85.240 kr. Þarna er um miklu meiri hækkun að ræða en fram hefur komið, 35--40% hækkun. Þessar hækkanir bitna allar mjög illa á heimilum og af því að það var aðeins komið inn á það í umræðunni í andsvörum við hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur að hún talaði mjög frjálslega um skuldasöfnun heimilanna, þá hafa allar þessar ákvarðanir áhrif á það hver skuldastaða heimilanna er og möguleika hverrar fjölskyldu til þess að standa við þá skuldabyrði sína. Þetta kemur ekki einungis fram í hækkun á afborgunum lána heldur og ekkert síður í hækkun á vöru eins og bensíni eða í þungaskatti bifreiða og svo olíunni. Þetta eru allt saman hlutir sem verður að taka inn í umræðuna sem og einnig sú gífurlega hækkun sem orðið hefur á fasteignaverði sem um er talað í þessari grein.

Í greininni er jafnframt nefnt að Norðurlandaþjóðirnir hefðu lifað sín fyrstu fjármagnsfrelsisár á síðasta áratug og varað alveg sérstaklega við því, eins og þar kemur fram, með leyfi forseta, að:

,,Í kjölfarið fylgdi lánagleði og oflánun og þegar kreppti að var greiðslugetan ekki í samræmi við útlánin. Við tók gjaldþrot heimila og fyrirtækja og bankarnir urðu fyrir miklu tapi.``

Þetta er reynsla fleiri þjóða. Þegar maður les þessar greinar og ýmsar aðrar sem birst hafa á síðustu mánuðum, t.d. ræðu seðlabankastjóra sem flutt var og skýrslu Seðlabankans sem kom út löngu fyrir kosningar --- því að þessi hættumerki voru komin fram löngu fyrir kosningar eins og við reyndar vöktum athygli á --- þá hljótum við sem ábyrgir stjórnmálamenn að setjast niður og velta því fyrir okkur hvernig við getum brugðist við á sem skynsamlegastan máta. Samfylkingin hefur möguleika á því að benda á þær leiðir sem okkur þykir skynsamlegt, að okkar mati og eftir samráð við sérfræðinga í efnahagsmálum, að fara núna og hægt er að grípa til strax. Þegar fyrir liggja niðurstöður í reikningum síðasta árs og síðan útlitið er fyrir þetta ár í ljósi loforða sem gefin voru í aðdraganda kosninga --- nú þegar liggur fyrir fyrirspurn í þinginu þar sem farið er fram á sérstaka úttekt á fyrirheitum sem gefin voru í aðdraganda kosninga --- þá er skylda okkar að ræða hvernig bregðast eigi við og benda á leiðir. Á þessu teljum við að hægt sé að taka. Það er kannski ekki stór tekjupóstur, ekki mikill tekjuauki í ríkissjóð sem bensíngjaldið á að gefa og jafnvel minna en tekjur af umferðinni hafa aukist á síðasta ári.

Það er bara mjög nauðsynlegt fyrir okkur öll að hafa þessar upplýsingar og ég skora á hæstv. ráðherra að flýta því að ljúka þeirri vinnu innan ráðuneytis og á virðulegan forseta að fara fram á það við Ríkisendurskoðun, sem hefur einnig oft sent frá sér greinargerð um framkvæmd fjárlaga, að þessar upplýsingar verði sendar til þingmanna hið fyrsta þannig að menn geti haldið áfram þessari umræðu og þá tekið mið af þeim við undirbúning fjárlagaumræðunnar. Stjórnarandstaðan hefur nú ekki mikla möguleika á að koma að fjárlagagerðinni sjálfri sem eðlilegt er. En við hljótum að þurfa þessar upplýsingar í aðdraganda umræðunnar um fjárlögin og tillöguflutnings okkar á þingi þegar það kemur næst saman.

En ég frábið mér, virðulegi forseti, fullyrðingar þess efnis að frv. Samfylkingarinnar sem hér er til umræðu sé sýndarmennska. Það er sú leið sem við töldum og teljum að þurfi til að taka á á öllum sviðum. Alþingi getur gert það hér með þessu og þannig sýnt lit með að vilja sporna við þeirri þenslu sem við öll horfum fram á. En til fjölda margra annarra aðgerða þyrfti að grípa og fara yfir, t.d. endurmat á nýrri húsnæðislöggjöf, mat á greiðslugetu, hvernig það er framkvæmt og fleira og fleira. Það er vinna sem þingflokkur Samfylkingarinnar mun fara í og er í en þetta er gert með það að leiðarljósi að við viljum leggja okkar af mörkum inn í þessa umræðu. Það er slæmt að fjárln. skuli ekki hafa fengið þær upplýsingar sem til þurfti til þess að ljúka mætti þessari umræðu málefnalega þannig að við gætum metið hvort sá tekjuauki sem átti að mæta aukinni útgjaldaþörf Vegagerðar ríkisins, þ.e. hvort þarna er um að ræða raunverulega þörf eða ekki miðað við þær forsendur sem við höfðum við afgreiðslu fjárlaga.

Mikla nauðsyn ber til þess að þingheimur allur bregðist við þeim aðstæðum sem við búum við, að hér verði málefnaleg umræða um afkomu ríkissjóðs og það hvernig við bregðumst við þeirri þróun sem virðist vera í uppsiglingu. Það er engin sýndarmennska fólgin í því, virðulegi forseti.