Vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl.

Miðvikudaginn 16. júní 1999, kl. 13:22:30 (388)

1999-06-16 13:22:30# 124. lþ. 8.31 fundur 9. mál: #A vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl.# frv., fjmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 8. fundur, 124. lþ.

[13:22]

Fjármálaráðherra (Geir H. Haarde) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil þakka hv. ræðumanni fyrir málefnalega og yfirvegaða ræðu um þetta mál. Ég dreg út af fyrir sig ekkert í efa vilja hennar eða hennar samflokksmanna til þess að hjálpa til við að draga úr þeim þenslueinkennum sem við höfum séð í þjóðfélaginu. Ég tel hins vegar að þetta frv. skipti litlu sem engu máli í því efni.

Ég vil líka segja það, vegna þess að það kom fram í máli þingmannsins, að auðvitað hef ég fullan hug á því að eiga gott og eðlilegt samstarf við þingið og nefndir þess alveg eins og var á síðasta þingi. Ég bendi á að ég kynnti fyrir fulltrúum stjórnarandstöðunnar í fjárln. efni síðasta fjárlagafrv. áður en það var kynnt opinberlega. Auðvitað er það í allra þágu að þegar þessi mál eru til umfjöllunar á Alþingi liggi fyrir sem bestar og réttastar upplýsingar.

Hv. þm. sagði að það hefði verið fljótræði að beita þessari heimild til þess að hækka bensíngjaldið vegna þess að það hefði ekkert legið fyrir um tekjur og gjöld, þ.e. hver þróunin yrði. Það er nefnilega það. Það er rétt. Það hafa ekki legið fyrir mjög skýrar upplýsingar um það enn sem komið er eins og við höfum verið að fjalla hér um. En einmitt af þeirri ástæðu lá ekki annað fyrir en að nota heimildina. Það liggur ekkert fyrir um það að tekjurnar af þessum tekjustofnum verði svo miklar að hækkunin sé óþörf eins og hér er verið að gefa í skyn, alls ekki. Þess vegna var að mínum dómi ekki um neitt annað að ræða en að beita þessari heimild og gefa út þá reglugerð sem til þurfti. Ég held mig við að það hafi verið rétt ákvörðun þó hún hafi leitt til 0,09% hækkunar vísitölunnar.