Þingfrestun

Miðvikudaginn 16. júní 1999, kl. 14:15:58 (404)

1999-06-16 14:15:58# 124. lþ. 9.93 fundur 73#B þingfrestun#, RG
[prenta uppsett í dálka] 9. fundur, 124. lþ.

[14:15]

Rannveig Guðmundsdóttir:

Virðulegi forseti. Fyrsta þing að afloknum alþingiskosningum er alltaf sérstakt. Nýir alþingismenn hafa bæst í hópinn og ný ríkisstjórn, að þessu sinni á gömlum grunni, hefur tekið við landstjórninni. Það er gleðiefni að þessar alþingiskosningar hafa fært okkur í átt að auknu jafnrétti hvað varðar hlutdeild kvenna á þingi og í ríkisstjórn. Ég er sannfærð um að sú þróun mun í auknu mæli breyta og móta umræðu og vinnulag á hinu háa Alþingi.

Herra forseti. Þetta þing er stutt, aðeins sex virkir dagar og við í stjórnarandstöðu höfum lagt mikla áherslu á gott samkomulag og fagleg vinnubrögð. Breytingin á stjórnarskrá um kjördæmaskipan var aðalmál þingsins og þó að mál stjórnarandstöðu hafi ekki náð fram að ganga hefur umræðan hér vakið athygli á mikilvægum málum sem skipta máli úti í þjóðfélaginu.

Ég vil þakka nýjum forseta ágæta samvinnu á þessu vorþingi. Ég óska honum og fjölskyldu hans, þingmönnum öllum og starfsfólki Alþingis góðs sumars og þess að við hittumst öll heil að loknu sumarhléi.