Ferill 2. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


124. löggjafarþing 1999.
Þskj. 14  —  2. mál.




Nefndarálit



um till. til þál. um staðfestingu samnings milli Íslands, Noregs og Rússlands um tiltekna þætti í samstarfi á sviði sjávarútvegs ásamt tvíhliða bókunum Íslands og Noregs annars vegar og Íslands og Rússlands hins vegar.

Frá minni hluta utanríkismálanefndar.



    Minni hlutinn telur jákvætt að deilur um hlutdeild Íslendinga í þorskveiðum í Barentshafi séu til lykta leiddar og að Íslendingar öðlist nokkurn veiðirétt á grundvelli þessa samnings og bókana honum tengdum. Líklegt er að samkomulag í Smugudeilunni svokölluðu greiði götu samstarfs og samskipta fyrrum deiluaðila, einkum Íslands og Rússlands, og er það vel.
    Á hitt verður að líta að það sem í hlut Íslands kemur er rýrara en bundnar voru vonir við. Í reynd eru hreinar veiðiheimildir sem koma í Íslands hlut án endurgjalds aðeins lítið brot af veiðinni eins og hún var þegar best lét upp á 32–34 þúsund tonn og eins þótt tekið sé meðaltal þeirra ára sem veiðin hefur staðið frá 1993 upp á 17 þúsund tonn.
    Þetta stafar af því að fyrir veiðiheimildir í norsku lögsögunni kemur umtalsvert endurgjald. Norðmenn fá 17 þúsund lestir af loðnu og 500 tonn af keilu, löngu og blálöngu auk meðafla upp á 25% við þær veiðar, þar með talið og ekki síst í þorski.
    Þar fylgir einnig sá böggull skammrifi að norsk línuveiðiskip koma til veiða inn í íslensku landhelgina á nýjan leik.
    Í tilviki bókunar milli Íslands og Rússlands er ekki til að dreifa veiðum Rússa hér við land og er það vel, en hins vegar er gert ráð fyrir að íslenskar útgerðir verði að kaupa talsverðan hluta veiðiheimildanna sem að nafninu til var samið um við Rússland. Allt er þó mjög óljóst um tilhögun þeirra viðskipta.
    Loks er ljóst að ýmislegt er ófrágengið hvað varðar útfærslu og framkvæmd samningsins hér heima fyrir og annað orkar mjög tvímælis sem gert hefur verið. Þar á meðal er útgáfa reglugerðar sjávarútvegsráðuneytisins strax 10. maí sl. eða fimm dögum áður en samningurinn var undirritaður. Innihald þeirrar reglugerðar hefur og vakið margar spurningar, sérstaklega sú ákvörðun þáverandi sjávarútvegsráðherra að beita hvorki heimildarákvæðum úthafsveiðilaga um endurgjald fyrir varanlegar veiðiheimildir í úthafinu, eða í lögsögu annarra ríkja, né svonefndri frumherjareglu.
    Rétt er að benda á að hugleiða þarf þá hlið á þessum samningi og skiptum á veiðiheimildum honum samkvæmt að þjóðirnar eru að hluta til að fá fiskveiðiréttindi hver í annars lögsögu sem kallar á langa siglingu og mikla orkunotkun. Slíkt fyrirkomulag er auðvitað ekki æskilegt út frá umhverfissjónarmiðum og heppilegra að hver sjái um nýtingu sinnar lögsögu að sem mestu leyti.
    Minni hlutinn telur vafasamt að samningur þessi sé nægjanlega hagstæður Íslendingum og telur réttast að stjórnarflokkarnir sem bera pólitíska ábyrgð á gerð hans beri einnig ábyrgð á afgreiðslu hans á þingi. Minni hlutinn mun því sitja hjá við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 15. júní 1999.



Steingrímur J. Sigfússon.