Jöfn staða og jafn réttur kvenna og karla

Þriðjudaginn 01. febrúar 2000, kl. 13:53:35 (3765)

2000-02-01 13:53:35# 125. lþ. 53.1 fundur 272. mál: #A jöfn staða og jafn réttur kvenna og karla# (heildarlög) frv. 96/2000, PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 53. fundur, 125. lþ.

[13:53]

Pétur H. Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Enn ræðum við tillögur og reglur sem eiga að laga stöðu kynjanna. Í meira en 20 ár höfum við haft algeran jöfnuð milli kynjanna samkvæmt lögum og ekkert hefur breyst. Launamisréttið fer frekar vaxandi en hitt og það sem meira er um vert, konur fá ekki vel borgaðar stöður. Ekki þarf annað en líta á myndir af aðalfundi Seðlabankans til að sjá það.

Ég beini spurningu til hæstv. ráðherra: Trúir hæstv. ráðherra enn að reglur ofan frá lagi stöðuna eftir 20 ára reynslu?

Í öðru lagi vil ég spyrja hæstv. ráðherra: Hvers vegna ræður stjórnandi stofnunar óhæfari karlmann á hærri launum en hæfari konu? Getur hæstv. ráðherra útskýrt það fyrir mér? Er það vegna þess að hann vill ekki græða? Er það vegna þess að arðsemiskröfu vanti í fyrirtækið?