Jöfn staða og jafn réttur kvenna og karla

Þriðjudaginn 01. febrúar 2000, kl. 14:14:39 (3774)

2000-02-01 14:14:39# 125. lþ. 53.1 fundur 272. mál: #A jöfn staða og jafn réttur kvenna og karla# (heildarlög) frv. 96/2000, ÁMöl
[prenta uppsett í dálka] 53. fundur, 125. lþ.

[14:14]

Ásta Möller:

Virðulegi forseti. Hér er til umfjöllunar nýtt frv. um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla. Þetta frv. er heildarendurskoðun á jafnréttislögum og það sést á öllum umbúnaði að töluverð vinna hefur verið lögð í frv. Meðal nefndarmanna er fólk sem hefur mikla þekkingu og reynslu varðandi jafnréttismál, enda ber frv. þess merki að vandað hefur verið til verksins.

Eins og kom fram í framsögu hæstv. félmrh. hefur frv. til laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla verið til umfjöllunar í þinginu áður, á vorþinginu 1999, fór þá í gegnum 1. umr. og til nefndar og var sent til umsagnar ýmissa aðila. En í því frv. sem við höfum fyrir framan okkur hefur ýmsum atriðum verið breytt frá því það var til umfjöllunar í þinginu fyrir tæpu ári. Víða er leitað fanga og í heildina séð er frv. nútímalegt og getur leitt til framfara í málaflokknum. Í frv. er ýmislegt til bóta sem getur styrkt stöðu jafnréttismála hér á landi þegar til lengri tíma er litið. Hins vegar eru ákveðin atriði sem ég vil benda á að geti hugsanlega veikt stöðu jafnréttismála og ýmis umhugsunarefni sem ég vænti að hv. félmn. taki til skoðunar.

Þrátt fyrir að mikið hafi verið gert í jafnréttismálum á undanförnum árum og áratugum til að vekja til umhugsunar og aðgerða í jafnréttismálum er enn þá langt í land. Ný kynslóð er að vaxa úr grasi sem ég vænti að hafi allt önnur viðhorf til jafnréttismála en þau sem við sem eldri erum höfum búið við og sem staðið hafa í vegi fyrir frekari þróun í jafnréttisátt. Ég vænti því þess að nýjar hugmyndir í jafnréttismálum falli í betri jarðveg en áður og uppskeran verði meiri og betri í þessum málaflokki í framtíðinni.

Á undanförnum vikum hafa borist ýmsar upplýsingar og vísbendingar sem sýna svart á hvítu að staða jafnréttismála er ekki sem skyldi. Enn er langt í land með að launajafnrétti náist. Kynbundinn launamunur er ítrekað staðfestur í könnunum. Starfsval ungs fólks virðist enn bundið á kynjaklafa. Ný könnun á þætti kvenna í fjölmiðlum bendir til að lítið hafi miðað í jafnréttisátt á síðustu árum. Þetta eru einungis örfá dæmi sem ég tek hér.

Ég ætla að fjalla um einstakar greinar frv. Í 1. gr. koma fram markmið með jafnréttislögum og þau eru gerð miklu skýrari og hugmyndafræðileg nálgun jafnréttismála er gerð nútímalegri. Þau eru ekki skoðuð út frá hagsmunum kvenna eingöngu heldur er litið á jafnréttismál sem samfélagsleg málefni sem varði bæði kynin, jafnan rétt þeirra til að hafa áhrif á stefnumótun og ákvarðanatöku í samfélaginu og jafnan rétt til þátttöku í störfum sem varða grunneiningu samfélagsins sem er fjölskyldan. Í 1. gr. eru settar fram leiðir til að ná markmiðum laganna þar sem m.a. er lögð sérstök áhersla á rannsóknir í kynjafræðum, að efla fræðslu í jafnréttismálum og greina tölfræðilegar upplýsingar eftir kyni, sem oft er forsenda þess að hægt sé að taka á málum sem varða misrétti kynjanna eins og í launamálum. Þessi tölfræðilega kynjagreining hefur þegar birst í tölum frá opinberum stofnunum í samræmi við framkvæmdaáætlun ríkisstjórnarinnar frá 1997--1998 og einnig í kjararannsóknum bæði á almennum markaði og hinum opinbera markaði undanfarin ár.

Annar kafli frv. fjallar um stjórnsýslu jafnréttismála. Þar kemur fram ein stærsta breytingin á lögunum. Hún varðar breytta skipan stjórnsýslu jafnréttismála í landinu. Samkvæmt núgildandi lögum er sjö manna Jafnréttisráð jafnframt stjórn Skrifstofu jafnréttismála og hefur með höndum stefnumörkun í málaflokknum og fylgir henni eftir. Jafnréttisráð hefur samkvæmt núgildandi lögum stefnumarkandi hlutverk, ráðgefandi og fræðandi hlutverk, rannsakar mál og hrindir einstökum verkefnum í framkvæmd til að ná markmiðum laganna um jafnrétti kynjanna á öllum sviðum. Skrifstofa jafnréttismála er síðan tæki Jafnréttisráðs til að sinna þeim verkefnum. En sú nýskipan er lögð til í frv. að skera á formlega og stjórnunarlega tengingu milli Jafnréttisráðs og Skrifstofu jafnréttismála. Samkvæmt frv. á hið nýja Jafnréttisráð að stuðla að jafnri stöðu kynjanna á vinnumarkaðnum og vera stjórnvöldum til ráðgjafar um vinnumarkaðsmál og er þessi breyting á ráðinu veruleg.

Jafnframt er rétt að benda á að hugmyndir um hlutverk ráðsins hafa breyst verulega frá því að frv. um sama efni var til umfjöllunar fyrir um ári. Einnig er lögð til sú breyting á skipan ráðsins frá núgildandi lögum að í stað þess að Kvenfélagasamband Ísland og Kvenréttindafélagið tilnefni hvort um sig einn fulltrúa tilnefna félögin sameiginlega einn fulltrúa. Ekki er gert ráð fyrir að formaður kærunefndar jafnréttismála sitji í ráðinu. Þess í stað verði skipaður einn fulltrúi fjmrn. og einn fulltrúi Háskóla Íslands í Jafnréttisráð. Í því sambandi vil ég varpa fram þeirri spurningu til hæstv. félmrh. hvers vegna fulltrúar annarra samtaka opinberra starfsmanna, þ.e. fulltrúar Bandalags háskólamanna og kennarasamtakanna eru ekki skipaðir í ráðið. BSRB er þrátt fyrir að vera ágæt samtök ekki sami samnefnari fyrir opinbera starfsmenn sem ASÍ er fyrir þá sem eru starfandi á almenna markaðnum. Einnig spyr ég hvað liggi á bak við það að fulltrúum kvennasamtaka er fækkað í ráðinu. Reyndar heyrði ég svör hæstv. ráðherra áðan að það væri í samræmi við breytt hlutverk ráðsins. En mig langar til að fá nánari útskýringu á þessu. Þá mætti jafnvel hugsa sér að fulltrúar sveitarfélaga komi í ráðið, enda er samkvæmt frv. lögð mikil ábyrgð á sveitarfélög í jafnréttismálum þar sem lögbundið verður að skipa jafnréttisnefndir í öllum sveitarfélögum.

Samkvæmt frv. mun Skrifstofa jafnréttismála taka yfir hlutverk núverandi Jafnréttisráðs auk þess sem það fær ný verkefni og fellur stjórnskipulega beint undir félmrh. Það módel sem er sett fram í frv. að stjórnsýsla jafnréttismála hefur fyrirmynd í skipan stjórnsýslu náttúruverndarmála sem hefur verið mjög til umræðu undanfarna daga. Hið fyrra Náttúruverndarráð, eins og menn muna, hafði bæði ráðgjafar- og framkvæmdahlutverk sem var með lögum nr. 93/1996 skipt upp í annars vegar ráðgjafarhlutverk sem nýtt Náttúruverndarráð hefur með höndum og hins vegar Náttúruvernd ríkisins sem hefur framkvæmdahlutverk. Fyrstu viðbrögð mín við þessari breytingu á skipan jafnréttismála voru efasemdir um að þessar hugmyndir yrðu til bóta fyrir framkvæmd jafnréttismála þar sem ég tel að að öllu jöfnu felist árangur í stjórnsýslu í að sami aðili, sama ,,apparat``, eigi að bera ábyrgð á stefnumótun í málaflokki og hrinda hugmyndum í framkvæmd. Þannig lægi heildarábyrgð á tilteknum málaflokki á einum stað sem eykur líkur á að raunhæfum hugmyndum sé hrint í framkvæmd. Þessi grundvallarhugmynd birtist m.a. í skipan mála í manneldisráði og áfengis- og vímuvarnaráði, þar sem ráðin mynda raunverulega stjórn málaflokksins, eru stefnumótandi aðilar og framkvæmdaaðilar, en framkvæmdastjórar og skrifstofur ráðanna fylgja málum eftir, stjórna daglegu starfi og eru í daglegu forsvari. Hins vegar eftir töluverðar vangaveltur og eftir að hafa rætt við ýmsa aðila komst ég að þeirri niðurstöðu að sú skipan mála sem frv. leggur til sé tilraunarinnar virði.

Ég nefndi að þetta módel hefði verið við lýði í stjórnskipan náttúruverndarmála undanfarin ár og þótt reynslutíminn hafi ekki verið langur er ég ekki frá því að fyrirkomulagið hafi verið málaflokknum til framdráttar þótt reyndar sýnist sitt hverjum í þeim efnum eins og umræðan síðustu daga um skipan og störf Náttúruverndarráðs hefur leitt í ljós. Jafnréttisráð, sem sjálfstætt ráð, sem er skipað aðilum sem hafa fingurinn á púlsinum í málaflokknum, reyndar á afmörkuðum þætti jafnréttismála sem varða vinnumarkaðinn, hefur möguleika á að veita gagnrýnið aðhald og fleyta málum áfram ef vel er á haldið. Í sjálfu sér má segja að hlutverk ráðsins með þessari skipan sé að einhverju leyti hið sama og hlutverk frjálsra félagasamtaka sem koma með gagnrýni, ábendingar, ráðgjöf og aðhald að stefnu stjórnvalda í málaflokknum. Hins vegar er ráðið skipað aðilum sem í samræmi við bakgrunn sinn bera tiltekna ábyrgð og hafa ákveðna þekkingu á málaflokknum sem getur nýst til að skapa umræður og aðhald varðandi jafnréttismál.

Í þessu sambandi langar mig þó að benda á að hlutverk Jafnréttisráðs eins og það er hugsað með þessu frv. er mun takmarkaðra en hlutverk Náttúruverndarráðs eins og það er samkvæmt núgildandi lögum. Samlíkingin við skipan náttúruverndarmála nær hins vegar ekki lengra því samkvæmt frv. er ekki gert ráð fyrir jafnréttisþingi eins og núgildandi lög gera ráð fyrir. Því vil ég spyrja hæstv. félmrh. hvaða rök liggi þar að baki, en jafnréttisþing er vettvangur skoðanaskipta um jafnréttismál þar sem ýmsir hagsmunaaðilar geta ráðið ráðum sínum, borið saman bækur sínar um markmið og leiðir í málaflokknum, samanber hlutverk náttúruverndarþings á sviði náttúruverndar. Það er mat mitt að það sé afturför ef jafnréttisþing verður lagt niður.

Í 4. gr. frv. er fjallað um kærunefnd jafnréttismála. Sú breyting er lögð til á starfsemi kærunefndar að ekki er lengur gert ráð fyrir að nefndin fylgi eftir úrskurðum sínum gagnvart aðilum sem ekki hafa hlýtt tilmælum hennar með kæru til dómstólanna. Kærunefnd jafnréttismála getur því ekki lengur fylgt málum sínum eftir til dómstólanna. Samkvæmt frv. verða einstaklingar sem brotið hefur verið á, sjálfir eða félagasamtök sem standa að baki þeim, að fylgja eftir málum sínum til dómstólanna telji þeir ástæðu til. Þetta er að mínu mati skref aftur á bak því einstaklingar sem brotið er á hafa ekki alltaf möguleika, t.d. af fjárhagslegum ástæðum, að fylgja eftir málum sínum og ekki hafa allir launamenn félagslegan bakgrunn til að styðja sig við eða félagasamtök fjárhagslegt bolmagn til að fylgja málum eftir. Því bendi ég hv. félmn. á að skoða þetta atriði sérstaklega.

Í 13. gr. frv. um vinnumarkaðinn er kveðið á um að fyrirtæki sem eru með 25 starfsmenn eða fleiri skuli setja sér jafnréttisáætlun eða kveða sérstaklega á um jafnrétti kvenna og karla í starfsmannastefnu sinni. Ég hef mikla trú á þessu ákvæði frv. því reynslan sýnir að jafnréttisáætlanir í fyrirtækjum hafa skilað árangri. Ég vísa t.d. til Eimskipafélagsins í því sambandi sem hefur markvisst breytt kynjahlutfalli í stjórnunarstöðum í því fyrirtæki. (ÖS: Og Reykjavíkurborg.) Og Reykjavíkurborg, bendir hv. þm. Össur Skarphéðinsson réttilega á. (Gripið fram í: Og ríkisstjórnin.) Og ríkisstjórnin. Fleiri tillögur? Fyrirtækið Eimskip hefur í gegnum tíðina haft mjög sterka karlímynd en hefur með markvissum áætlunum breytt þeirri ímynd sinni og lært að meta störf kvenna og að þau séu ekki minna virði en störf karla. Í því sambandi tek ég undir með hv. þm. Pétri H. Blöndal að þetta er mannréttindamál. Starfsmannastefna er yfirlýsing fyrirtækis um hvernig það muni haga áherslum sínum í starfsmannamálum og hún er gefin frá æðstu stöðum innan fyrirtækisins. Þannig er tryggður stuðningur ofan frá því jafnréttismál eru eins og önnur gæðamál að árangur næst ekki nema með fullum stuðningi, skilningi og ásetningi æðstu yfirstjórnenda fyrirtækis.

Í 14. gr. er fjallað um launajafnrétti. Þessi grein er mun skýrari en sams konar grein núgildandi laga. Hún tekur af allan vafa um skilgreiningu á hvað eru laun og þau viðmið sem lögð eru til grundvallar launaákvörðunum og að þau viðmið sem lögð eru til grundvallar launaákvörðunum skuli vera þau sömu fyrir konur og karla.

Í 16. gr. er fjallað um samræmingu fjölskyldu- og atvinnulífs. Í frumvarpstextanum er nefnt foreldraorlof. En foreldraorlof hefur ekki verið útfært hér á landi sem kunnugt er þrátt fyrir tilskipanir Evrópusambandsins þar um og vænti ég þess að það verði tekið upp í samninga milli aðila sem fyrst ellegar það komi hingað inn til þingsins. En þetta hugtak kemur þarna fram án þess að í rauninni liggi nokkuð þar að baki annað en hugtakið.

Í 17. gr. er fjallað um skilgreiningu á kynferðislegri áreitni og hvernig skuli tekið á slíkum málum. Mig langar til í því sambandi að benda á að í könnun sem gerð var fyrir rúmum þrem árum á vegum nokkurra stéttarfélaga, opinberra starfsmanna, Sóknar, Starfsmannafélags ríkisstofnana og Félags ísl. hjúkrunarfræðinga, kom í ljós --- könnunin var um ofbeldi á þeim stofnunum sem félagar þessara stéttarfélaga störfuðu á --- að á sex mánaða tímabili fyrir gerð könnunarinnar höfðu 6% starfsmanna orðið fyrir líkamlegri kynferðislegri áreitni og um 7% fyrir kynferðislegri áreitni með orðum. Þetta eru hærri tölur en maður hafði gert sér grein fyrir áður og fleiri kannanir hafa leitt í ljós að þetta er vandamál á vinnustöðum, vandamál sem þarf að opna umræðu um og taka á. Því fagna ég að tekið er á þessu máli í jafnréttislögum.

Í 19. gr. er fjallað um menntun og skólastarf með tilliti til jafnréttismála. Í þessu sambandi hef ég sérstakar áhyggjur af þeim hefðum sem hafa skapast hér á landi í starfsvali kynjanna. Í þeirri stétt sem ég tilheyri, hjúkrunarstéttinni, er 98% stéttarinnar hér á landi konur. Þetta er eitt stærsta hlutfall kvenna í stéttinni í Evrópu. Sem dæmi má nefna eru karlar um 10% hjúkrunarstéttarinnar í Noregi og 17% í Hollandi.

[14:30]

Nýleg könnun á störfum íslenskra ungmenna, sem birt var nýverið, veldur áhyggjum þar sem starfsval þeirra bendir ekki til að breytinga sé að vænta í þessum efnum nema skólakerfið nái að snúa þróuninni við með jafnréttisfræðslu. Það er ekki nóg að skólakerfið geri það heldur þurfa aðrir þættir samfélagsins að taka þátt í þeirri umræðu líka.

Einnig er ánægjulegt í frv. að lögð er áhersla á auknar rannsóknir í kynjafræðum sem er grundvöllur ásamt tölfræðilegum niðurstöðum að frekari ákvörðunum um stefnur og leiðir í jafnréttismálum.

Að lokum vil ég nefna nokkur atriði. Í 25. gr. er fjallað um bann við uppsögnum þar sem kveðið er á um að atvinnurekanda sé óheimilt að segja starfsmanni upp störfum sökum þess að hann hafi krafist leiðréttingar á grundvelli jafnréttislaga. Ég skil síðustu málsgrein 25. gr. svo að atvinnurekanda sé heimilt að reka starfsmanninn vegna kröfu um leiðréttingu á grundvelli laganna hafi eitt ár liðið frá því leiðréttingarkrafan er sett fram. Í þessu felst ekki nægilega vernd fyrir launþega og ég hvert hv. félmn. að taka þetta atriði til frekari skoðunar. Atvinnurekandinn getur sem sagt hummað fram af sér að taka á málinu en rekið starfsmanninn ári seinna án frekari eftirmála.

Í 27. gr. segir að óheimilt sé að afsala sér réttindum sem lögin kveða á um og tel ég það vera fagnaðarefni að svo skýrt er kveðið á um þetta atriði.

Að lokum fagna ég því að brot á tilteknum greinum frv., verði það að lögum, varði sektum. Það eru þá líkur á að ákvæði laganna verði tekin alvarlegar hér eftir en hingað til. Ég hefði viljað fjalla um fleiri atriði sem eru til bóta í jafnréttismálum í þessu frv. en ég læt staðar numið.