Jöfn staða og jafn réttur kvenna og karla

Þriðjudaginn 01. febrúar 2000, kl. 15:09:04 (3778)

2000-02-01 15:09:04# 125. lþ. 53.1 fundur 272. mál: #A jöfn staða og jafn réttur kvenna og karla# (heildarlög) frv. 96/2000, BH
[prenta uppsett í dálka] 53. fundur, 125. lþ.

[15:09]

Bryndís Hlöðversdóttir:

Herra forseti. Ég er þeirrar skoðunar að það frv. sem hér er lagt fram sé að flestu leyti til bóta frá núgildandi lögum. Sumt í því frv. sem við sáum hér fyrr lagt fram hefði einnig orðið til bóta ef það hefði verið mælt fyrir því aftur en ég tel að sú lending sem við sjáum hér sé að mestu leyti til bóta.

Ég vil þó byrja á því strax í upphafi máls míns að nefna eina breytingu sem ég tel vera verulega afturför frá núgildandi lögum. Það er sú staðreynd að málskotsréttur kærunefndar jafnréttismála er tekinn burt. Það var þannig, herra forseti, og er þannig í núgildandi lögum, að ef ekki er farið eftir þeim tilmælum um úrbætur sem kærunefnd jafnréttismála hefur beint til hlutaðeigandi aðila er nefndinni heimilt að höfða mál til viðurkenningar á rétti kæranda í samráði við hann. Nú er þetta tekið burt og eftir stendur að einungis aðilum máls er heimilt að leggja ágreining sinn fyrir dómstóla. Þetta tel ég vera mikla afturför vegna eðlis þeirra mála sem koma gjarnan fyrir kærunefnd jafnréttismála. Þau eru mjög oft viðkvæm og oft er erfitt fyrir þá einstaklinga sem fara fram með þau mál að standa undir þeim, að ég tali ekki um þegar í húfi er atvinnan sjálf. Atvinnurekandi getur vissulega sagt upp starfsmanni sem fer í mál jafnvel þó það sé ákvæði í lögunum sem segir að þetta sé ekki heimilt. En atvinnurekanda er heldur ekki skylt að rökstyðja uppsögn sína þannig að hann þarf ekkert að gera frekari grein fyrir því.

Ég held að þetta sé veruleg afturför, herra forseti, og vona að hæstv. félmn. geri breytingu á þessu ákvæði. Ég fullyrði að með þessari breytingu séu nánast dregnar tennurnar úr þeim heimildum sem kærunefnd jafnréttismála hefur í dag og eru nú margir sem telja að þær séu ekki nægilega miklar. Eins og ég sagði áðan eru málin oft viðkvæm, atvinnan í húfi o.s.frv., þannig að ég held að hið háa Alþingi þurfi að breyta þessu í meðförum þingsins.

Hv. þm. Guðrún Ögmundsdóttir fór ítarlega yfir frv. áðan í framsögu sinni og gerði grein fyrir afstöðu okkar í þingflokki Samfylkingarinnar til málsins í heild og til einstakra efnisatriða. Ég vil einungis taka undir þær áherslur sem hún lagði til og tel ekki þörf á að endurtaka það sérstaklega. En ég vil fara ofan í nokkrar greinar frv. eigi að síður.

Til að byrja með vil ég segja vegna þeirrar gagnrýni og þeirra spurninga sem hv. þm. Pétur Blöndal lagði fyrir hæstv. félmrh., og ég hef heyrt Pétur spyrja áður: Er það svo að löggjöf eins og þessi hafi skilað okkur áleiðis? Breytir þessi löggjöf einhverju fyrir okkur? Þessar spurningar eru góðra gjalda verðar. En ég er fullviss um að hefði aldrei verið nein löggjöf, hefði aldrei verið farið út í markvissar aðgerðir til þess að breyta því ástandi og þeim órétti sem konur bjuggu við. Við skulum muna það, herra forseti, að konur fengu ekki kosningarétt hér á landi fyrr en árið 1915. Það hefur áunnist, hefur gerst með markvissum aðgerðum. Með lögum, með því að skylda endalaust aðila vinnumarkaðar og aðra til að muna eftir því að karlar og konur eiga að njóta sama réttar í lífinu. Það hefur ekki verið þannig. Við megum ekki draga þá ályktun þó að löggjöfin hafi ekki skilað okkur kannski alveg þangað sem við vildum vera í dag að hún hafi engin áhrif. Vissulega breytir hún ekki öllu, hún er gríðarlega mikilvægur liður í því að minna á að það er í raun og veru mannréttindaspurning sem við erum að tala um að konur og karla njóti sama réttar.

Þá erum við líka komin mjög nálægt því sem ég ætla líka að gera að umtalsefni frekar á eftir, það er um það hvernig opinberar stofnanir, opinberir aðilar eins og hið háa Alþingi og ráðuneytin hafa staðið sig gagnvart konum í þjónustu sinni. Það er ekkert til fyrirmyndar, herra forseti, því miður.

Ég vil koma inn á 3. gr. frv. en þar er tekið fram að verkefni sem Skrifstofa jafnréttismála annast í umboði félmrh. séu m.a., síðan er það talið upp. Ég tel óæskilegt að hafa hér inni orðin ,,í umboði félagsmálaráðherra`` og ekki bara óæskilegt heldur tel ég það stangast á við verkefnin sem Skrifstofu jafnréttismála eru síðan falin. Ef við lesum þetta í samhengi við þá tölul. sem koma á eftir: ,,Verkefni sem Skrifstofa jafnréttismála annast í umboði félagsmálaráðherra eru meðal annars: ,,... að koma ábendingum og tillögum um aðgerðir um jafnréttismál á framfæri við félagsmálaráðherra.`` Er eðlilegt að það geri hún í umboði hans? Við getum líka bent á að henni er falið í umboði hans ,,að veita stjórnvöldum, stofnunum, fyrirtækjum, einstaklingum og félögum ráðgjöf.`` Ég held að í raun og veru megi alveg sleppa þessum orðum ,,í umboði félagsmálaráðherra`` vegna þess að ég tel að það skerði í raun og veru sjálfstæði Skrifstofu jafnréttismála óeðlilega mikið. Miklu eðlilegra væri að sleppa þessum orðum þannig að hún geti komið ábendingum og tillögum um aðgerðir á framfæri við félmrh. jafnvel þótt það sé ekki gert í umboði hans. Vissulega er það ekki alltaf þannig, geri ég ráð fyrir, að þeir sem annast daglegan rekstur Skrifstofu jafnréttismála séu endilega sammála þeim áherslum sem eru lagðar hverju sinni hjá ríkisstjórn þó skrifstofunni sé vissulega falið að starfa eftir þeirri stefnu sem þar er lögð. Ég held að mikilvægt sé að taka þessi orð út þannig að sjálfstæði skrifstofunnar sé ekki skert um of.

[15:15]

Ég vil koma aðeins inn á 7. gr., um skipan Jafnréttisráðs. Á það hefur verið bent hér að óskað sé eftir því að tilnefndur sé einn aðili sameiginlega af Kvenfélagasambandi Íslands og Kvenréttindafélagi Íslands. Ég tel þetta ekki góða breytingu og í raun alveg út í hött. Þó að þessi tvö félagasamtök hafi átt ágætt samstarf í gegnum tíðina, hafi sameiginlegt húsnæði o.s.frv. og hafi oft og tíðum rekið mjög svipaða stefnu þá hefur það alls ekki alltaf verið þannig. Auk þess eru þau algerlega óháð hvort öðru. Ég tel mjög óeðlilegt að þeim sé falið að tilnefna einn aðila saman rétt eins og bara skella þessu saman, því sem heitir kven-eitthvað, í eitt. Ég tel það mjög óeðlilegt, herra forseti, og held að æskilegra hefði verið að leysa þetta á annan hátt eða hafa þetta hreinlega eins og það hefur verið, að hvor aðili eigi sinn fulltrúa í Jafnréttisráði.

Ég vil benda á 2. mgr. 7. gr. þar sem tilnefningaraðilum í Jafnréttisráð er gert að tilnefna einn karl og eina konu til setu í Jafnréttisráði. Ég tel þetta mjög gott ákvæði. Við skipun í ráðið skal þess gætt að hlutfall kynjanna verði sem jafnast. En ég hefði gjarnan viljað sjá, herra forseti, að svipað ákvæði væri haft um 20. gr. þar sem getið er um þátttöku í nefndum og ráðum á vegum hins opinbera. Það ákvæði er óbreytt frá núgildandi lögum að því er ég best fæ séð. Af hverju stígum við ekki skrefið til fulls og segjum að við tilnefningar í nefndir og ráð á vegum hins opinbera skuli jafnan tilnefndir einn af hvoru kyni og á endanum sé það sá sem tilnefnir eða skipar sem ber ábyrgð á að velja samsetningu þannig að staða kynjanna verði sem jöfnust? Við vitum að þetta ákvæði eins og það er núna segir okkur ekki neitt, að segja að sem næst jafnmargar konur og karla skuli sitja í nefndum og ráðum. Eins og bent var á áðan má kannski segja að það séu sem næst jafnmargar konur og karlar að hafa sex karla og eina konu sem við sjáum allt of oft. Þá er oft vísað þá á tilnefningaraðilana og sagt að þeir tilnefni alltaf karla. Af hverju ekki að stilla þeim upp við vegg? Komið með einn karl og eina konu og síðan ber ráðherrann sem endanlega skipar ábyrgðina á því að þessir hlutir komist í höfn. Hann hefur þá alltaf kost á að velja karl og konu. Ég tel að við ættum að stíga skrefið til fulls og fara þá leið. Það hafa önnur ríki gert víða í nágrannalöndum okkar með góðum árangri.

Ég vil einnig nefna 16. gr. um samræmingu fjölskyldu- og atvinnulífs. Hún er góðra gjalda verð og málstaðurinn að mörgu leyti góður. Ég get þó ekki annað en hugsað til þeirra starfshátta sem við búum við hér á Alþingi og t.d. í ráðuneytunum, þegar ég les í gegnum þennan kafla. Ég get ekki annað en spurt hvort við eigum ekki að leggja dálitla áherslu á að breyta vinnubrögðum í eigin garði áður en við höldum lengra. Við erum alltaf að tala um að fjölga þurfi konum á Alþingi og að fá þurfi ungt fólk til starfa inn á Alþingi. Hvort sem það eru karlar eða konur er fólk gjarnan með lítil börn og fjölskylduábyrgð. Við höfum rætt það nokkrum sinnum í þinginu að breyta t.d. þingsköpum í þá veru að hægt sé að setja plön sem standast þannig að fólk geti skipulagt vinnutíma sinn. Ég tel mikilvægt að gera það og setja svolítinn kraft í að gera breytingar á þingsköpum þannig að fólk geti skipulagt vinnutíma sinn. Það er mjög erfitt fyrir fólk að samræma þetta tvennt þegar við höfum ekki dags fyrirvara til að sjá hvernig dagurinn lítur út.

Þjóðþingin í nágrannalöndunum hafa gert breytingar í þessa veru. Ég vil nefna sænska þingið sem dæmi. Ég hef heyrt að menn hafi fyrir nokkrum árum gert breytingra á þingskapalögum í þá veru að takmarka ræðutíma þannig að hægt sé að sjá fyrir hvenær þingi lýkur hvern dag. Ég held að það sé ekki til of mikils ætlast að við skipuleggjum okkur þannig. Það eru vinnubrögð sem við gerum kröfur um til annarra og til atvinnurekenda, að þeir geri nauðsynlegar ráðstafanir til að samræma fjölskyldu- og atvinnulíf. Ég held að það sé líka mjög mikilvægt að gera það hér og í ráðuneytunum.

Í grg. segir um 16. gr.:

,,Ein leiðanna að þessu markmiði er að auka sveigjanleika við skipulagningu á vinnu og vinnutíma þannig að hagsmunir allra séu hafðir að leiðarljósi. Sem dæmi má taka að erfitt er fyrir foreldra ungra barna að vera á fundum á þeim tíma sem sækja þarf börn á leikskóla. Þá geta stjórnendur fyrirtækis hvatt foreldra til að skipta veikindadögum barns á milli sín ef þau eru bæði útivinnandi. Jafnframt er mikilvægt að auðvelda starfsmönnum að koma aftur til starfa eftir fæðingar- eða foreldraorlof eða leyfi úr vinnu vegna óviðráðanlegra og brýnna fjölskylduaðstæðna. Æskilegt er að setja fram aðgerðir sem stefna að settu marki í jafnréttisáætlanir eða í starfsmannastefnur fyrirtækja eða stofnana ef starfsmenn eru fleiri en 25.``

Þetta er vissulega góðra gjalda vert en ég held að við ættum að huga svolítið að breytingum á okkar starfsháttum sem orðið gætu til þess að auðvelda fólki með fjölskylduábyrgð að sinna störfunum hér.

17. gr. fjallar um kynferðislega áreitni. Ég held að það sé til verulegra bóta sem þar er gert. Hún er skilgreind nákvæmlega og þar er lögð ákveðin skylda á skólastjórnendur eða atvinnurekendur til að gera eitthvað í þeim málum. Ég held að það sé af hinu góða. Eins og reyndar 19. gr., um kennslu, menntun, skólastarf og um að efla skuli rannsóknir á stöðu kynjanna í íslensku samfélagi.

Ég held að það sem lagt er til í 21. gr. sé líka mjög æskilegt:

,,Í opinberri hagskýrslugerð um einstaklinga og í viðtals- og skoðanakönnunum skal greint á milli kynja við söfnun gagna, úrvinnslu þeirra og birtingu upplýsinga nema sérstakar ástæður, svo sem persónuverndarhagsmunir, mæli gegn því.``

Það er mikilvægt að í hagsýslugerð séu upplýsingar greindar niður eftir kyni. Okkur vantar mjög slíkar upplýsingar til að geta metið út af hverju staða kvenna og karla er ekki hin sama á hinum ýmsu sviðum. Einstakar góðar og ítarlegar kannanir hafa verið gerðar en þær eru dýrar og viðamiklar vegna þess að mjög oft vantar tölfræðina sem að baki býr. Við getum rifjað upp skýrsluna um kynbundinn launamun sem var, muni ég rétt, hluti af norrænu jafnlaunaverkefni. Mig minnir að skýrslan hafi komið út árið 1995 eða svo. Sú skýrsla skilaði mjög góðri umræðu í þessum málum hér á landi. Henni fylgdu ferskir vindar vegna þess að þar komu fram ýmsar mjög áhugaverðar upplýsingar um ástæður þess að konum og körlum er mismunað, t.d. úti á vinnumarkaði og hvernig það gerist t.d. að launin eru ekki hin sömu hjá körlum og hjá konum. Mér þótti sú skýrsla mjög fróðleg. Hún var grundvöllur að mörgum fundum og margri orðræðunni um þessi mál og skilaði okkur svolítið áfram. Við getum endalaust fárast yfir því að staðan skuli ekki vera betri en við þurfum að hafa grundvallarupplýsingar til að byggja á svo við vitum hverju þarf að breyta og hvað þarf að bæta.

Herra forseti. Ég ætla ekki að hafa mál mitt mikið lengra um þetta frv. Það er að flestu leyti ágætt en ég vil hvetja til þess að ákvæðið um málskotsrétt kærunefndar verði tekið til alvarlegrar skoðunar í hv. félmn.