Jöfn staða og jafn réttur kvenna og karla

Þriðjudaginn 01. febrúar 2000, kl. 15:24:21 (3779)

2000-02-01 15:24:21# 125. lþ. 53.1 fundur 272. mál: #A jöfn staða og jafn réttur kvenna og karla# (heildarlög) frv. 96/2000, ArnbS
[prenta uppsett í dálka] 53. fundur, 125. lþ.

[15:24]

Arnbjörg Sveinsdóttir:

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á því að þakka hæstv. félmrh. fyrir það að leggja þetta frv. fram og þá miklu vinnu sem ráðuneytið hefur lagt í það. Það er vel við hæfi að við skulum ræða það hér á afmælisdegi Kvenfélagasambandsins sem að auki er afmælisdagur formanns Kvenfélagasambandsins. Í ljósi þess er þetta skemmtilegur dagur til að taka frv. til umræðu.

Hæstv. forseti. Það var kominn tími til þess að endurskoða lagasetninguna um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla. Það vekur alltaf umræðu. Þótt við séum ekki að gera neina byltingu þá vekur það umræðu í þjóðfélaginu og hjá okkur þingmönnum. Það er nauðsynlegt að taka slíka lagabálka til umræðu og endurskoðunar með jöfnu millibili til að komast að því hvort okkur miðar eitthvað áfram.

Það mátti skilja það á orðum hv. þm. Kolbrúnar Halldórsdóttur hér áðan að frv. væri afskaplega leiðinlegt og við þyrftum að taka upp ný orð til að gera frv. og umræðuna skemmtilegri. Ég er ekki viss um að það sé nauðsynlegt. Við þurfum hins vegar að vinna áfram því þrátt fyrir allt hefur okkur miðað áfram. Það að nota einhver tískuyrði í þessari umræðu tel ég ekki hafa sérstakan tilgang. Við gætum auðvitað ráðið rithöfund eða jafnvel leikritahöfund til þess að semja slíkt frv. en ég held að það sé ekki til þess að hjálpa umræðunni sérstaklega eða málefninu sem slíku. Hugsanlega setti það eitthvað skemmtilegri svip á þingið en það er allt annar hlutur. Það má kannski hugsa sér slíkt með fleiri frv. eins og í efnahagsmálum o.s.frv., að fá annan stíl á frv. en ég er ekki viss um að það skili árangri fyrir málefnin sem slík.

Ég vil leggja á það áherslu að hér er um mannréttindamál að ræða. Þetta málefni er í sjálfu sér ekki félagslegt úrræði. Það hefur margoft komið fram að hugsanlega væri þessi málaflokkur betur kominn undir forsrn. en félmrn. (Gripið fram í: Þetta er byggðamál.) Ég held að þetta sé íhugunarefni. Við verðum auðvitað að muna að þessi málaflokkur snýst um mannréttindamál. Við þurfum sífellt að vinna að viðhorfsbreytingum varðandi þennan málaflokk. Það gerist með því að breyta einnig svona þáttum, t.d. því hvar þessi flokkur á heima í stjórnsýslunni.

Ég tel hins vegar að þetta frv. sé mjög vel unnið og stjórnsýslan í því í sjálfu sér mjög góð. Ég vonast til að með þessu fáum við væntanlega annan vinkil á málaflokkinn þegar hlutverk Skrifstofu jafnréttismála og kærunefndarinnar breytist. En alltaf hljótum við að leggja mesta áherslu á að leita nýrra leiða í þessum málaflokki, ekki síst til að útrýma hinum miklum launamuni kynjanna.

Það er ánægjulegt að við verðum vör við breytt viðhorf hjá ungu fólki varðandi verkaskiptingu kynjanna. Ungir karlar virðast hafa mun meiri áhuga á jafnréttismálum og að þeir hafi jafnan rétt til að sinna fjölskyldu og börnum og konurnar. Þetta frv. gerir einmitt ráð fyrir áherslunni á jafnrétti karla til að geta sinnt þessu hlutverki.

Ég vil einnig nefna að í umsögn karlanefndar Jafnréttisráðs var lögð áherslu á að hér væri um mikið mannréttindamál að ræða, að taka þennan fjölskylduvinkil inn gagnvart körlunum. Ég tel að þetta frv. sé mikil framför í því efni.

[15:30]

Ég vil einnig nefna það sem kemur fram í 20. gr. varðandi þátttöku í nefndum og ráðum á vegum hins opinbera. Í frv. eins og það var lagt fram á 123. þingi var inni ákvæði þess efnis að þar sem yrði tilnefnt í nefndir, stjórnir og ráð á vegum ríkis og sveitarfélaga skyldi tilnefna tvo aðila, konu og karl, og við skipun yrði þess síðan gætt að skipting milli kynja yrði sem jöfnust. Í því ákvæði eins og það var í 21. gr. þess frv. var einnig varnagli gagnvart þessu þar sem erfitt er að framfylgja jafnri skiptingu. Ég verð að segja fyrir mig að ég held að það hefði verið tilraunarinnar virði að taka upp þetta ákvæði. Þar er einmitt sagt: ,,Tilnefningaraðila er heimilt að víkja frá ákvæðum 2. mgr. ef sérstakar ástæður leiða til þess að illmögulegt er að framfylgja þeim,`` sem auðvitað getur komið til. Í þessu frv. er gert ráð fyrir því að tilnefningaraðilar skuli tilnefna einn karl og eina konu til setu í Jafnréttisráði og ég sé það ekki geta gerst að t.d. Kvenréttindafélagið tilnefni karl, hugsanlega er það mögulegt en ég held að það gæti orðið mjög erfitt og ég tala nú ekki um Kvenfélagasambandið. Ég held að það séu afskaplega fáir karlar í Kvenfélagasambandinu þannig að af sjálfu leiðir að þarna þyrfti að grípa til undanþáguákvæða. Þar með þyrftu Vinnuveitendasambandið, ASÍ og aðrir tilnefningaraðilar þá að skipa karla á móti þeim konum sem kæmu fram hjá þessum félögum kvenna. Þetta hefur auðvitað sína kosti og galla en ég held að það hefði verið mjög skemmtilegt að prófa þetta ákvæði gagnvart öðrum nefndum og ráðum.

Ég nefndi að meginmálið væri í okkar frjálsa samfélagi að vinna að viðhorfsbreytingu. Ég held að slík viðhorfsbreyting yrði með því að fá sem jafnast vægi í nefndir og ráð. Ég held að mikil viðhorfsbreyting yrði ef karlar fengju aukinn hlut í fæðingarorlofi og það sé í rauninni afskaplega mikilvægt verkefni að vinna að því þannig að viðhorfsbreyting yrði gagnvart körlum á vinnumarkaði. Konur yrðu þá ekki verðfelldar í samkeppni um störf á vinnumarkaði í sama mæli og nú gerist. Þetta væri allt þáttur í að breyta viðhorfi í samfélagi okkar. Ég held að ef umfjöllun fjölmiðla breyttist verulega þá mundi verða mikil viðhorfsbreyting. Í könnun Félagsvísindastofnunar Háskóla Íslands þar sem viðfangsefni frétta er greint eftir kyni viðmælanda kemur fram að viðmælendur eru 18,2% konur og 81,8% karlar. Það segir sig sjálft að slík umfjöllun í fréttum hefur áhrif á viðhorf fólks til karla og kvenna. Þetta er auðvitað ekki einfalt atriði en víða hefur komið fram í umfjöllun um þetta málefni að afskaplega nauðsynlegt sé að breyta til í stjórnunarstöðum í fjölmiðlum. Þetta gerum við auðvitað ekki með lagasetningu á Alþingi. Þetta þarf að gerast sem þáttur í því að fjölmiðlar landsins, hinir frjálsu fjölmiðlar vilji vera nútímalegir fjölmiðlar sem fjalla jafnt um alla hópa samfélagsins, karla og konur þar með.

Ég vildi einnig nefna að nefnd um aukinn hlut kvenna í stjórnmálum hefur starfað að viðhorfsbreytingum. Fyrir síðustu alþingiskosningar hrinti nefndin af stað auglýsingaherferð þar sem foringjar stjórnmálaflokkanna voru sýndir í nýju ljósi. Það var auðvitað mjög umdeild aðferð, að mínu mati mjög skemmtileg og kannski kom þá þessi skemmtilegi vinkill inn í jafnréttismálin sem var verið að leita eftir áðan, en allt hefur þetta þau áhrif til að breyta viðhorfinu og það er enn og aftur það sem skiptir máli, viðhorfsbreytingin.

Ég vil segja að lokum að það er mjög áhugavert verkefni fyrir hv. félmn. að fjalla um þetta frv. og ég vil óska eftir góðri samvinnu við nefndarmenn þannig að okkur takist að ljúka frv. á vorþinginu því að ég held að það sé málaflokknum mjög til framdráttar að þessi nýi lagarammi komi utan um hann.