Starfsleyfi fyrir gagnagrunni á heilbrigðissviði

Þriðjudaginn 01. febrúar 2000, kl. 16:15:41 (3785)

2000-02-01 16:15:41# 125. lþ. 53.95 fundur 264#B starfsleyfi fyrir gagnagrunni á heilbrigðissviði# (umræður utan dagskrár), ÞBack
[prenta uppsett í dálka] 53. fundur, 125. lþ.

[16:15]

Þuríður Backman:

Herra forseti. Það er ekki að ástæðulausu að beðið var um þessa utandagskrárumræðu því að nú þegar reglugerð hefur verið sett um rekstur miðlægs gagnagrunns kemur í ljós eins og bent hafði verið á að ekki eru allir sáttir við hvernig eigi að afgreiða upplýsingar í grunninn og þegar hafa nokkrir læknar neitað að afhenda sjúkraskýrslur sínar.

Í reglugerðinni er getið um að það eigi að fara eftir lögum og reglum sem í gildi eru en við búum við lög sem eru um réttindi sjúklinga. Í 10. gr. er fjallað um samþykki fyrir vísindarannsóknir og þar kemur alveg skýrt fram að sjúklingur skal samþykkja formlega fyrir fram þátttöku í vísindarannsókn. Það er á þessu ákvæði sem strandar ásamt ákvæðum í alþjóðasiðareglum lækna sem eru alveg skýrar og skyldum þeirra gagnvart sjúklingum og trúnaði við sjúklinga. Þær upplýsingar og þau samskipti eru trúnaðarmál og læknir ber ábyrgð á varðveislu þessara samskipta. Yfir þetta hefur margoft verið farið og því verður að vera ljóst og ég vona að það skýrist núna í umræðunni hvernig það má þá vera að stjórnir heilbrigðisstofnana geti farið með og ákveðið afgreiðslu á sjúkraskýrslum til þriðja aðila.