Jöfn staða og jafn réttur kvenna og karla

Þriðjudaginn 01. febrúar 2000, kl. 17:06:56 (3796)

2000-02-01 17:06:56# 125. lþ. 53.1 fundur 272. mál: #A jöfn staða og jafn réttur kvenna og karla# (heildarlög) frv. 96/2000, ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 53. fundur, 125. lþ.

[17:06]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Það er hárrétt hjá hv. þm. að ég átti ekki að kalla ræðu hans snakk og ég bið hann afsökunar. En jafnhlýtt og mér er til hv. þm., þá verð ég samt að segja í fullri vinsemd að honum kemur nákvæmlega ekkert við hvernig ég haga ræðu minni. Ef hann lítur svo á að mín 20 mínútna ræða sé andsvar við ræðu hans og hann telji sér eitthvað að vanbúnaði að svara henni í stuttum andsvörum, þá getur hann bara tekið til máls á eftir og talað í aðrar 20 mínútur og ég skal með mikilli gleði hlusta á hann.

Hv. þm. Pétur H. Blöndal verður stundum að fara sér örlítið hægar í ræðustól og leyfa sér stundum þann munað að hugsa áður en hann talar. (Gripið fram í: Það á nú við um fleiri.) Hann segir, herra forseti, að hann hafi ekki sagt að frv. væri ónýtt. Eigi að síður gengst hann við því að hann hafi sagt að hann vonist til þess að það nái markmiðum sínum en hann tryði því ekki.

Herra forseti. Hinn skarpi hæstv. félmrh. sem hlýddi á þetta hlýtur að vera mér sammála um að með þessu er hv. þm. að segja að frv. hæstv. ráðherra sé ónýtt.

Varðandi það sem hv. þm. sagði að það væri umhendis að setja í lög að greiða ætti jafnmikið fyrir jafnverðmæta vinnu, þá verð ég að segja að skilningur minn er eiginlega sá að þetta sé nánast bundið í stjórnarskrána eins og hún er núna. Það er einfaldlega svo að mér finnst jafnréttisákvæði stjórnarskrárinnar vera þess eðlis að þau meini mönnum að gera eitthvað annað en hér segir. Þess vegna mætti kannski halda því fram með einhverjum rökum að óþarft væri að setja þetta í lögin. Ég tel þó að svo sé ekki því að hér er verið að útfæra hugsun sem er bundin í stjórnarskrána. Við erum síðan einfaldlega ósammála um gildi þessara jafnréttisáætlana. Ég tel að það sé eitt það merkasta sem er að finna í frv. og ég vona að þau markmið sem sett eru fram með þessum áætlunum náist og ég trúi því líka.