Jöfn staða og jafn réttur kvenna og karla

Þriðjudaginn 01. febrúar 2000, kl. 17:47:39 (3802)

2000-02-01 17:47:39# 125. lþ. 53.1 fundur 272. mál: #A jöfn staða og jafn réttur kvenna og karla# (heildarlög) frv. 96/2000, félmrh.
[prenta uppsett í dálka] 53. fundur, 125. lþ.

[17:47]

Félagsmálaráðherra (Páll Pétursson):

Herra forseti. Ég vil í upphafi þakka fyrir góðar viðtökur sem frv. hefur fengið og málefnalega umfjöllun sem hefur verið öll á einn veg, þ.e. á jákvæðum nótum. Þó voru örfá atriði sem mig langar til að koma inn á til skýringar og til að þau glatist ekki í þessari umræðu og séu með í umræðunni.

Hv. þm. Rannveig Guðmundsdóttir gerði mikið mál úr því að jafnréttislög sem voru til umræðu á þinginu í fyrra hefði ekki verið forgangsmál og taldi að það væri merki þess að ríkisstjórnin vildi ekki sinna málaflokknum. Þetta er ekki rétt. Það voru aðrar orsakir sem lágu að baki því að frv. dagaði uppi. Það var vegna þess að ég var tekinn úr umferð, ég lagðist inn á spítala og missti af síðustu dögum þingsins og varð að kveðja til varamann til þess að gegna fyrir mig. Ég var því ekki til staðar til að miðla málum eða beita mér fyrir lokaafgreiðslu frv. því að það voru fleiri en eitt sjónarmið og reyndar mörg sjónarmið um þetta vandasama mál. Það er orsökin fyrir að frv. náði ekki fram að ganga. Ég er út af fyrir sig ekkert að harma það, þ.e. mér þótti náttúrlega slæmt að verða lasinn en ég er ekkert að harma það þó að frv. hafi ekki náð fram að ganga í fyrra. Það fékk mikla umræðu, mjög ítarlegar umsagnir frá mörgum aðilum og við lögðumst yfir það í sumar að fara yfir þær umræður, ábendingar og gagnrýnisatriði sem fram höfðu komið. Ég nefni eitt gagnrýnisatriði sem dæmi. Frv. í fyrra hét frv. til jafnréttislaga. Lögin eins og þau standa í dag heita lög um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla. Þetta heiti, jafnréttislög, hlaut verulega gagnrýni í fyrra því talið var að það væri misvísandi. Einungis væri verið að tala um eitt þröngt svið í jafnrétti. Það væri ekki verið að tala um jafnrétti milli landshluta, jafnrétti milli borgaranna innbyrðis en þetta væri jafnrétti milli karla og kvenna. Þess vegna breytti ég heitinu og nú heitir frv. ,,frumvarp um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla`` eins og gildandi lög. Það var enginn trassaskapur að þetta mál kom ekki til umræðu fyrr en nú, 1. febrúar, eins og skilja mátti á orðum hv. þm. Rannveigar Guðmundsdóttur. Þetta frv. var lagt fram fyrir jól. Það hefur bara ekki komist á dagskrá fyrr en nú. Eins og menn sjá á málsnúmerinu þar sem þetta er 272. mál þingsins, þá er frv. búið að vera í þinginu og á borðum þingmanna allnokkurn tíma.

Það mátti líka reyndar skilja á hv. þm. að frv. ætti ekki að kosta nema 500 þús. eða í mesta lagi 1 millj. og vitnaði í fjmrn. Það er ekki alls kostar rétt vegna þess að þetta er aukakostnaður fram yfir það sem gildandi lög kosta en á fjárlögum eru 37--38 millj. veittar til Jafnréttisráðs og þetta er einungis viðbót við það sem í ár er varið til málaflokksins.

Nefnd um kynhlutlaust starfsmat lauk störfum þegar menn voru komnir í kosningaham og farnir að ýtast á í seinustu vikum fyrir kosningar. Nefndin kláraði þó að sumir nefndarmenn væru óánægðir með það og vildu ekki taka ábyrgð á niðurstöðum nefndarinnar. Hún var búin að ljúka störfum og skilaði ágætu verki og prýðilegu formi, menn hafa prýðilegt módel til þess að gera kynhlutlaust starfsmat ef þeim svo hentar.

Eins og ég sagði áðan voru allar þær breytingar sem gerðar voru á frv. í sumar gerðar í framhaldi af meðferð málsins á Alþingi og í þjóðfélaginu. Leitað var lögfræðilegrar ráðgjafar. Hvergi er tekinn neinn réttur af konum. Það var alger útgangspunktur að taka hvergi rétt af konum sem þær hafa samkvæmt gildandi lögum. Hér hefur verið minnst á það að í fyrra frv. var gert ráð fyrir að kærunefndin gæti haft frumkvæði að því að taka málið upp fyrir dómstólum. Eðlilegra þótti að lögfræðilegu áliti að brotaþoli leiti réttar síns. Kærunefnd getur að sjálfsögðu aðstoðað hann eða Jafnréttisráð ef því svo býður við að horfa og brotaþoli óskar eftir því en það er hans að hafa frumkvæði, ekki að verið sé að kæra yfir hausinn á honum.

Menn hafa rætt um hverjir eigi að skipa Jafnréttisráð og út af fyrir sig er hægt að hafa margar skoðanir á því. Það er nánast smekksatriði hverjir þar eigi að vera og margir sem til greina gætu komið. En til þess að ráðið sé skilvirkt tel ég að gæta verði hófs um fjölda þeirra sem í ráðinu sitja þannig að það verði ekki of stórt og það eru rökin fyrir því að hafa ekki fleiri.

Menn hafa rætt um launamun karla og kvenna og það var út af fyrir sig fróðleg ræða sem hv. þm. Guðjón A. Kristjánsson flutti áðan og benti á að launamunur tíðkaðist ekki til sjós og það er vel. Ég reiknaði reyndar ekki með því að svo væri. En samkvæmt könnun sem Verslunarmannafélag Reykjavíkur gerði --- nú veit ég ekki hversu vísindalega sú könnun var gerð en könnun var það --- hjá ýmsum félögum í Verslunarmannafélagi Reykjavíkur hvaða kaupkröfur viðkomandi gerði og virtist niðurstaðan vera sú að konur sættu sig við lægri laun. Karlarnir verðlögðu vinnu sína hærra. Þetta kann að vera einn þátturinn. Það er líka sennilega staðreynd að konur eru bundnari heimili og heimilisstörfum og vinna meira að heimilisstörfum, því miður, en karlar. Það er ekki nokkur vafi á því að þetta hefur færst til betri vegar nú á síðustu árum og yngra fólk er miklu jafnvígara í heimilishaldi og barnauppeldi en við þessir eldri vorum á sínum tíma þegar við vorum með litla krakka.

Ég vil auka rétt feðra til fæðingarorlofs og ég tel að það sé mjög mikilvægt jafnréttis- og fjölskyldumál og ég er að vinna að því. Ég er líka með á prjónunum lagasetningu um foreldraorlof sem kemur ekki bara sjómönnum til góða heldur foreldrum öllum, þ.e. foreldrar geti átölulaust verið heima 13 vikur samtals á fyrstu átta árum barns.

Fyrir þinginu liggur frv. frá mér fyrir starfsfólk með fjölskylduábyrgð. Það er lagasetning sem er nauðsynleg í framhaldi af fullgildingu ILO-samþykktar 156 um starfsfólk með fjölskylduábyrgð, þ.e. ekki er hægt að reka starfsmann fyrir það eitt að þurfa að vera heima yfir öðrum fjölskyldumeðlimum, barni, foreldri eða öðrum nákomnum vegna veikinda eða tímabundins lasleika. Fólki sé því gert kleift að rækja fjölskylduábyrgð sína. Þetta kemur vonandi sjómönnum líka til góða eins og foreldraorlofið. Ég hef lagt mikla áherslu á að fá aðila vinnumarkaðarins til að semja um hlutina. Ég held að það sé langfarsælast að fara þá leiðina en ef það tekst ekki þá getur í sumum tilfellum orðið að höggva á hnútinn. M.a. hjó ég á hnútinn í lokaafgreiðslunni á ILO-samþykktinni sem ekki var samkomulag um upphaflega og reyndar langt í milli manna en ég skýrði frá því að ég mundi beita mér fyrir fullgildingu og óskaði eftir að aðilar vinnumarkaðarins kæmu sér saman um orðalag. Það gerðu þeir og fyrir það er ég mjög þakklátur. Samkomulag varð um orðalagið.

Menn velta því fyrir sér að það sé afturför að taka út ákvæðin um jafnréttisþing sem voru í frv. í fyrra. Þessi hugmynd þótti mjög í lausu lofti og hlaut verulega gagnrýni í umræðunni og meðferð málsins á þinginu í fyrra. Hún er því ekki með. Hins vegar tel ég að með merkum nýmælum, sem ég er nokkuð stoltur af, í þessu frv. sé greinin um kynferðislega áreitni sem mér skilst að ekki hafi verið reynt að forma í lög neins staðar annars staðar fyrr en þarna. En í stuttu máli, svo að ég fari yfir það, herra forseti, þá er gripið á því máli í 17. gr. og þeirri skilgreiningu sem er svo, með leyfi forseta:

,,Kynferðisleg áreitni er kynferðisleg hegðun sem er ósanngjörn og/eða móðgandi og í óþökk þess sem fyrir henni verður,`` --- ég undirstrika í óþökk þess sem fyrir henni verður --- ,,hefur áhrif á sjálfsvirðingu þess eða þeirra sem fyrir henni verða og er haldið áfram þrátt fyrir að gefið sé skýrt í skyn að hegðunin sé óvelkomin.``

Fólk má sem sagt reyna hvert við annað en ef gefið er skýrt í skyn að hegðunin sé óvelkomin, þá er það harðbannað. (Gripið fram í: En ef báðir vilja?) Ef báðir vilja, hv. þm., þá getur þetta gengið alveg átölulaust af minni hendi og fremur að ég fagni því en hitt, en ég vil þó bæta því við að í greininni stendur: ,,Eitt tilvik getur talist kynferðisleg áreitni ef það er alvarlegt.`` Jafnvel þó að ekki sé um endurtekningu að ræða en er alvarlegt. Menn verða því að passa sig á að vera ekki allt of grófir í þessu.

Þetta er um kynferðislega áreitni. (Forseti hringir.) Herra forseti. Ég er alveg að ljúka máli mínu. Ég tel að félmrn. hafi staðið sig ágætlega í jafnréttismálum og ég vænti þess að þessi lagasetning verði enn eitt gott spor í þá átt.