Jöfn staða og jafn réttur kvenna og karla

Þriðjudaginn 01. febrúar 2000, kl. 18:07:17 (3805)

2000-02-01 18:07:17# 125. lþ. 53.1 fundur 272. mál: #A jöfn staða og jafn réttur kvenna og karla# (heildarlög) frv. 96/2000, GÁS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 53. fundur, 125. lþ.

[18:07]

Guðmundur Árni Stefánsson (andsvar):

Herra forseti. Ég var ekki að gagnrýna í einu eða neinu frammistöðu félmrn. í þessum efnum og var kunnugt um þetta hlutfall ráðuneytisins þegar á heildina er litið. Ég var að vekja athygli á því, og þótti við hæfi að tína til dæmi úr jafnréttisráðuneytinu sjálfu, að það verða til karlanefndir og kvennanefndir og það finnst mér kannski áhyggjuefni. Eins og ég gat um í andsvari mínu er það kannski erfitt við að eiga þegar tilnefningar koma frá fjölmörgum aðilum og áminningarbréf vigtar ákaflega létt þegar tilnefningaraðilinn á að tilnefna einn aðila og veit ekki hvort hinir tilnefna karl eða konu þannig að kannski er ekkert við þetta ráðið. En það er ekki nógu góð mynd af þessu --- og menn hafa með réttu verið að ræða skipan Jafnréttisráðs --- þegar yfirskrift þessa frv. er jöfn staða kvenna og karla að það sé einlitt hvað varðar kynjaskiptingu. Tilnefningaraðilar eru fjölmargir og þess vegna árétta ég spurningu mína. Ég hef ekki svar við henni og kannski er það svar ekki til. Mér dettur í hug í fljótu bragði hvort það er gerlegt ef tilnefningar verða með þeim hætti eins og gerst hefur í núverandi Jafnréttisráði að þetta verði allt konur, að ráðherrann geti sent út bréf til allra tilnefningaraðila á nýjan leik og beðið þá um að gaumgæfa þá stöðu sem ráðherra stendur frammi fyrir. Í öðrum tilvikum þar sem um svokallaðar karlanefndir er að ræða geti hann gripið til einhvers konar slíks áfrýjunarréttar. Þetta er vandamál og ég held að það sé kannski sýnu minnst í félmrn., enn þá meira í öðrum ráðuneytum, og ég held að ekki sé hægt að horfa fram hjá því þegar við erum að endurskoða lögin með annars jafnágætum hætti og raun ber vitni.