Lífskjarakönnun eftir landshlutum

Þriðjudaginn 01. febrúar 2000, kl. 19:33:48 (3822)

2000-02-01 19:33:48# 125. lþ. 53.4 fundur 264. mál: #A lífskjarakönnun eftir landshlutum# þál., GAK
[prenta uppsett í dálka] 53. fundur, 125. lþ.

[19:33]

Guðjón A. Kristjánsson:

Hæstv. forseti. Hér erum við að ræða hið þarfasta mál. Það er vissulega mikill fengur í því ef þessi tillaga verður samþykkt sem vonandi verður þó að áhugi a.m.k. stjórnarþingmanna sé ekki mikill á þessu máli að því er virðist, ekki miðað við fjölda þeirra í þingsalnum. Ég held að vinna eins og sú sem lögð er til í þessari þáltill. geti skýrt margt fyrir okkur og kortlagt mun betur hvernig vandamálin liggja í hinum dreifðu byggðum landsins.

Á suðvesturhorni landsins hefur verið þensla, hér hefur allt verið á fullri ferð. Það hefur ekki verið þannig á landsbyggðinni. Í Vestfjarðakjördæmi, þaðan sem ég kem, þá held ég að málin hafi þróast í alveg öfuga átt við það sem hér hefur verið. Þar hefur ekki verið nein þensla, þar hefur störfum fækkað. Þaðan hefur kvótinn farið, kvótinn sem í rauninni er atvinnuréttur fólksins. Hann er seldur eins og lögin um stjórn fiskveiða heimila nú og um það hefur fólk ekkert að segja, það er algerlega réttlaust varðandi það hvort atvinnurétturinn er seldur burt með kvótanum. Það er spurning hvort verið sé í rauninni að selja burt mannréttindi fólks. Var einhvern tíma tekin ákvörðun um það á hinu háa Alþingi að framkvæmd laganna um stjórn fiskveiða gæti þýtt að mannréttindi fólks á Íslandi væru til sölu? Ég dreg mjög í efa að menn hafi nokkurn tíma rætt það hver staða fólks yrði úti um hinar dreifðu byggðir þegar atvinnurétturinn, sem hefur verið undirstaða allra þessara byggðarlaga vítt og breitt um landið, er farinn og seldur burt með þeim hætti sem nú er heimilt í lögum um stjórn fiskveiða.

Þenslan á höfuðborgarsvæðinu hefur orðið til þess að fasteignaskattar úti á landi hafa hækkað. Ekki hefur það orðið til þess að hjálpa fólkinu í byggðarlögunum á neinn hátt heldur hefur það hreinlega orðið íþyngjandi og þannig verkar uppsveifla eða þensla á suðvesturhorninu sem kostnaðarauki úti um landsbyggðina.

Komið var inn á það áðan og vikið að því í máli flm. og reyndar einnig í máli hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar að t.d. á Vestfjörðum væri það sýnt með meðaltölum að tekjur fólks væru yfir landsmeðaltali. Það hefur sennilega verið svo um nokkurra ára skeið en ansi er ég hræddur um að nú hafi tekið í bakseglin á Vestfjörðum. Þannig er að allar horfur eru á því að í Ísafjarðarbæ, sem núna nær frá Þingeyri yfir Dýrafjörð allan og hluta af sveitarfélaginu í Arnarfirði, Önundarfjörð, Flateyri, Suðureyri, Ísafjarðarkaupstað og Hnífsdal, hafi orðið verulegt tekjufall. Það er einfaldlega þannig að samkvæmt nýjustu skýrslu sem unnin var fyrir Byggðastofnun rétt fyrir áramótin um atvinnuástand í Ísafjarðarbæ og Hrísey, þá voru leiddar líkur að því að ef fiskikvóti fyrirtækis sem heitir Básafell á Ísafirði færi allur úr Ísafjarðarbæ, þá mundi þorskígildi Ísafjarðarbæjar, þessa sameinaða sveitarfélags, minnka úr tæpum 30 þúsund þorskígildum niður í um 10 þúsund þorskígildi eða um 2/3. Þetta hefur auðvitað gerst með því að skip hafa verið seld af svæðinu og enn þá stendur til að selja þau skip sem voru í rekstri Básafells og selja kvóta og líkur eru til að rekstur Básafells verði ekki í framtíðinni á Vestfjörðum í neinum mæli miðað við það sem áður var.

Ég hygg að þetta þýði að meðaltekjur á Vestfjörðum hafi snarlækkað því það er alveg rétt að sjómannsstörfin á Vestfjörðum hafa haldið uppi tekjumeðaltalinu þar að langmestu leyti. Þetta er m.a. eitt af því sem vonandi mundi koma í ljós með því að vinna málin upp á þann hátt sem hér er lagt til. Þó að ég hafi tekið þetta dæmi af Vestfjörðum, og ég held að með því að vinna þetta upp eftir landshlutum, þá sjái menn ýmsar upplýsingar sem ella sjást ekki nægilega vel og vissulega eru margar fleiri ástæður fyrir því að byggðin á undir högg að sækja. En ég hygg þó að á engu hafi menn eins illan grun um stöðu byggðanna í landinu og því að það skuli vera hægt að selja þennan atvinnurétt sem er grunnatvinnuréttur fólks í öllum sjávarbyggðum.

Ég spyr því enn á ný: Hafa menn einhvern tíma hugleitt rétt fólks að búa þar sem það hefur valið sér búsetu og að í rauninni sé hægt að selja þann grunnrétt fólks að fá að búa að því sem það hefur búið að alla sína ævi? Og hvar eru þá lögin um hefð? Hvar er hefðarréttur fólks fyrir að fá að lifa af því sem það hefur lifað við? Ef ég man rétt úr lögunum um hefð, sem eru nú orðin ansi gömul, þá vinnur fólk sér hefðarrétt með ýmsum hætti eftir 10--20 ára athafnir við eitthvað tiltekið. Og á ýmsum nytjum sem taldar eru almenningsnytjar með 40 ára samfelldri hefð eða samfelldri notkun vinnur fólk sér ákveðinn hefðarrétt. Ég er ansi hræddur um að með lögunum um stjórn fiskveiða sé núna á síðustu missirum búið að brjóta ýmsan rétt á fólki sem það á, og það er ekki víst að það verði bara þeir dómar sem þegar hafa gengið í Hæstarétti, í Valdimarsmálinu svokallaða um veiðileyfin, og hins vegar á Vestfjörðum um dóminn í Vatneyrarmálinu, sem muni ganga til dómstóla. Það kunna að verða miklu fleiri mál í framtíðinni og þau kunna að verða byggð á fleiri rökum heldur en hingað til hafa verið tínd til.

Hver skyldi vera réttur fólks með tilliti til mannréttinda þegar löggjöfin er þannig úr garði gerð að hægt er að selja þann grunnrétt fólks að fá að búa að því sem það hefur búið við alla sína tíð?