Ábúðarlög

Þriðjudaginn 01. febrúar 2000, kl. 19:47:26 (3824)

2000-02-01 19:47:26# 125. lþ. 53.6 fundur 239. mál: #A ábúðarlög# frv. 21/2000, landbrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 53. fundur, 125. lþ.

[19:47]

Landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga sem flutt er á þskj. 291 og er 239. mál þingsins. Verði frv. þetta að lögum mun það hafa í för með sér breytingar á ábúðarlögum, nr. 64/1976, með síðari breytingum.

Frumvarp til laga um breytingu á ábúðarlögum, nr. 64/1976, er lagt fram í þeim tilgangi að koma á samræmdu verðmati mannvirkja og endurbóta í eigu fráfarandi ábúenda á jörðum yfir landið allt.

Í frv. er gert ráð fyrir verulegum breytingum á VI. kafla laganna sem ber nafnið ,,Um úttektir á leigujörðum.`` Samkvæmt 16. gr. ábúðarlaga, nr. 64/1976, er landeiganda skylt að kaupa af fráfarandi ábúanda mannvirki og umbætur sem er til frambúðar komið haganlega fyrir og sem nauðsynlegar eru til búrekstrar á jörðinni, á því verði sem úttektarmenn meta eða eftir atvikum yfirmatsnefnd ef úttektarmati er skotið til yfirmats skv. 64. gr. laganna.

Samkvæmt gildandi lögum skulu sérstakir úttektarmenn, tveir í hverju sveitarfélagi, framkvæma úttektir og mat á eignum og endurbótum fráfarandi ábúenda við ábúðarlok. Mati þessara úttektarmanna verður síðan skotið til yfirmatsnefnda en í hverri sýslu starfar ein sérstök yfirmatsnefnd.

Ljóst er að mikil hætta er á að við þessar aðstæður sé lítið samræmi í mati á mannvirkjum og endurbótum fráfarandi ábúenda víðs vegar um landið eða þar sem svo margir matsmenn eru við störf. Þessu fyrirkomulagi er því nauðsynlegt að breyta eða a.m.k. mjög æskilegt. Í gildandi lögum eru jafnframt engin ákvæði um hvaða sjónarmið úttektarmönnum eða yfirmatsnefndum beri að leggja til grundvallar við mat á eignum og endurbótum fráfarandi ábúanda. Það hefur leitt til þess að þegar úttektarmat liggur fyrir ríkir oft mikil óvissa hjá báðum aðilum um hvort mat úttektarmanna sé rétt eða hvort rétt sé að skjóta því til yfirmats. Yfirmat tekur oft langan tíma og kostar oft talsvert fé. Með því að setja skýrar reglur um matsaðferðir er líklegt að þeim úttektum sem skotið er til yfirmats verði fækkað verulega en með frv. þessu er stefnt að því að settar verði skýrar og gagnsæjar reglur sem leiða eiga til þess að aðilar úttektarmats eigi að geta séð greinilega hvort ástæða sé til að skjóta mati úttektarmanna til yfirmats eða ekki.

Með frv. þessu er leitast við að ráða bót á þeim annmörkum sem eru á gildandi löggjöf og gerð hefur verið grein fyrir. Helstu nýmæli frv. eru þau að gert er ráð fyrir að gagngerðar breytingar verði á núverandi fyrirkomulagi um skipan úttektarmanna og yfirmatsnefndar. Við samningu frv. var talið nauðsynlegt að úttektarmenn og yfirmatsmenn starfi á landsvísu og var ákvæði þess efnis tekið inn í frv. til að tryggja að fullt samræmi náist við mat á eignum og endurbótum fráfarandi ábúanda alls staðar á landinu. Við samningu frv. þessa voru einnig ýmsar leiðir skoðaðar varðandi það hvaða tilhögun ætti að hafa á skipan úttektarmanna og yfirmatsnefnda. Auk þeirrar leiðar sem lögð er til í frv. þessu var m.a. skoðað hvort rétt væri að haga skipan úttektarmanna og yfirmatsnefndar þannig að tilnefningar úttektarmanna og aðila í yfirmatsnefnd væru eingöngu á hendi aðila utan Bændasamtaka Íslands og landbrn., t.d. þannig að allar tilnefningar úttektarmanna og yfirmatsmanna væru á hendi dómstóla eða annarra aðila. Í frv. er hins vegar farin sú leið að gert er ráð fyrir að landbrh. skipi tvo úttektarmenn, annan án tilnefningar en hinn samkvæmt tilnefningu Bændasamtaka Íslands. Jafnframt er gert ráð fyrir að landbrh. skipi þrjá menn í yfirmatsnefnd, einn án tilnefningar, einn samkvæmt tilnefningu Bændasamtaka Íslands og einn samkvæmt tilnefningu Hæstaréttar Íslands. Gert er ráð fyrir að sá síðastnefndi verði formaður yfirmatsnefndarinnar. Að mati þeirra sem stóðu að samningu frv. var þessi leið ekki síður talin til þess fallin að tryggja jafnræði aðila við úttektir og yfirmat þar sem gert er ráð fyrir að bæði Bændasamtök Íslands og landbrh. eigi einn fulltrúa hvor í undirmati og yfirmatsnefnd. Með því er tryggt að sjónarmið hlutaðeigandi aðila fái ávallt komist að við meðferð sérhvers máls. Við yfirmat er auk þess gert ráð fyrir að Hæstiréttur Íslands tilnefni oddamann í yfirmatsnefnd. Varamenn skulu skipaðir bæði fyrir úttektarmenn og yfirmatsmenn. Ekki eru í frv. gerðar kröfur um sérstaka menntun úttektarmanna eða yfirmatsmanna en mikil áhersla verður lögð á að í þessi störf veljist menn með góða þekkingu og færni til að sinna þeim verkefnum sem þeim er ætlað að sinna ef frv. þetta verður að lögum.

Í frv. er enn fremur það nýmæli að gert er ráð fyrir að lögfest verði að ákveðnu marki hvaða sjónarmið úttektarmönnum og yfirmatsnefndarmönnum beri að leggja til grundvallar við mat á mannvirkjum og endurbótum fráfarandi ábúanda. Gert er ráð fyrir að miðað verði við raunvirði eigna og endurbóta fráfarandi ábúanda en einnig er gert ráð fyrir að úttektarmenn hafi ákveðið svigrúm til að hækka og lækka mat á einstökum eignum og endurbótum fráfarandi ábúanda eftir ástandi þeirra, viðhaldi o.fl. Gert er ráð fyrir að landbrh. setji reglugerð um framkvæmd mats að öðru leyti.

Meginefni frv. er samkvæmt framansögðu að skv. 1. gr. frv., 38. gr. laganna, verður enn skylt að framkvæma úttektir við ábúðarlok við mat á eignum og endurbótum fráfarandi ábúanda sem lagt skal til grundvallar við ákvörðun á kaupverði þeirra mannvirkja og endurbóta sem jarðeiganda er skylt að kaupa af fráfarandi ábúanda.

Samkvæmt 2. gr. frv., 39. gr. laganna, skulu úttektir framkvæmdar af lögskipuðum úttektarmönnum og er gert ráð fyrir að úttektarmenn starfi á landsvísu.

Í 3. gr. frv., 40. gr. laganna, er ákvæði um starfshætti úttektarmanna, um frest til að byrja úttekt, skyldu til að framkvæma vettvangsskoðun, að þeir skuli gefa fráfarandi jarðeiganda og viðtakandi ábúanda kost á að vera viðstaddir og gæta réttar síns og um atriði sem úttektarmenn skulu skoða við úttekt.

Í 4. gr. frv. eða 41. gr. laganna, er ákvæði um sjónarmið sem úttektarmönnum ber að leggja til grundvallar við mat á eignum og endurbótum fráfarandi ábúanda, þá að miða skuli við raunvirði eigna, en reglur þessar hafa þó að geyma ákveðið svigrúm til að taka tillit til ástands og viðhalds eigna og feira.

Í 5. gr. frv., 42. gr. laganna, er ákvæði um að úttektarmenn skuli skila skriflegum, rökstuddum niðurstöðum, undirrita úttektir og skila úttektum eigi síðar en fjórum vikum eftir að vettvangsskoðun lauk.

Í 6. gr. frv., 43. gr. laganna, eru ákvæði um greiðslu kostnaðar af úttektum, en hann skiptist að jöfnu milli jarðeiganda og fráfarandi ábúanda.

Í 7. gr. frv., 44. gr. laganna, eru ákvæði um að jarðeigandi og ábúandi geti krafist yfirmats á eignum fráfarandi ábúanda innan tveggja vikna frá dagsetningu úttektar. Einnig eru þar ákvæði um skipan yfirmatsnefndar sem er eins og áður hefur verið gerð grein fyrir framkvæmd af landbrh. samkvæmt tilnefningu Bændasamtaka Íslands og Hæstaréttar Íslands auk þess sem einn aðili er skipaður án tilnefningar. Enn fremur eru þar ákvæði um að reglur 3.--5. gr. frv., eða 40.--43. gr. laganna, skuli gilda um störf yfirmatsnefndar eða sambærileg ákvæði og um úttektarmenn. Svo og ákvæði um að yfirmatsnefnd skuli ráða niðurstöðum sínum á fundum að lokinni vettvangsskoðun, að afl atkvæða ráði úrslitum ef ágreiningur verður, að nefndin skuli skila skriflegum rökstuddum niðurstöðum, að nefndarmenn skuli staðfesta yfirmatsgerðir með undirritun sinni og skila niðurstöðum sínum eigi síðar en fjórum vikum eftir að vettvangsskoðun lauk. Þá er þar ákvæði um að yfirmatsnefnd úrskurði um hver skuli greiða kostnað af störfum hennar. Að öðru leyti er fram kemur í frv. gilda um störf úttektarmanna og yfirmatsnefndar almennar reglur og gildandi löggjöf á hverjum tíma. Felld eru úr eldri lögum ákvæði um að úttektir skuli fara fram fyrir 20. júní ár hvert svo og ákvæði um þóknun úttektarmanna og yfirmatsmanna. Fyrir úttektir og matsstörf skuli miðað við dagkaup eins og það er reiknað í verðlagsgrundvelli landbúnaðarafurða hverju sinni, en hvorugt ákvæðið þykir raunhæft í framkvæmd. Eins og áður segir er með frv. þessu stefnt að því að færa mat á eignum og endurbótum fráfarandi ábúanda við ábúðarlok til eðlilegra horfs og nútímalegri stjórnsýslu og mun því leitast við að stuðla að samræmdu og óháðu mati yfir allt landið. Er það ætlun mín að sú tilhögun sem þetta frv. hefur að geyma muni leiða til réttlátari niðurstöðu við úttektir og eftir atvikum yfirmat fyrir bæði seljendur þá eða fráfarandi ábúendur og kaupendur þá eða jarðeigendur.

Hæstv. forseti. Ég vil að öðru leyti vísa til greinargerðar þeirrar er fylgir frv. og athugasemda með frv.

Sá sem hér stendur átti sér auðvitað þann draum að tala fyrir þessu máli á haustþinginu og að það tæki gildi helst um síðustu áramót, við upphaf nýrrar aldar. Sá draumur er farinn þannig að þarna mun auðvitað landbn. gera einhverja breytingu á.

Hæstv. forseti. Að lokum legg ég til að frv. verði að lokinni umræðunni vísað til 2. umr. og hv. landbn.

(Forseti (ÁSJ): Forseti vill segja til huggunar fyrir hæstv. landbrh. að það er tæpt ár þangað til ný öld hefst.)