Ábúðarlög

Þriðjudaginn 01. febrúar 2000, kl. 19:58:50 (3825)

2000-02-01 19:58:50# 125. lþ. 53.6 fundur 239. mál: #A ábúðarlög# frv. 21/2000, EMS
[prenta uppsett í dálka] 53. fundur, 125. lþ.

[19:58]

Einar Már Sigurðarson:

Herra forseti. Ég vil í upphafi taka undir með hæstv. ráðherra að hér er vissulega með því frv. sem hæstv. ráðherra leggur nú fram, þ.e. frv. til laga um breytingu á ábúðarlögum, nr. 64/1976, með síðari breytingum, tekið á ýmsum annmörkum í gildandi lögum. Hins vegar er spurning hvort hér er gengið nægjanlega langt og hvort það hefði þurft að líta til fleiri greina í núverandi lögum.

Áður en ég vík að því vil ég nefna aðeins eitt af þeim atriðum sem kemur fram í frv. en það varðar 2. gr. frv., eða 39. gr. núgildandi laga, en í athugasemdum segir einmitt, með leyfi forseta:

,,Ekki eru í frumvarpinu gerðar kröfur um sérstaka menntun úttektarmanna en ljóst er að mjög mikilvægt er að til starfa fáist menn með góða þekkingu og færni þessu sviði.``

Ég geri ráð fyrir því, herra forseti, að hv. landbn. muni grandskoða þetta og velta því fyrir hvort þurfi að setja inn í textann skýrari fyrirmæli um það hvernig við getum nálgast það sem best að fá úttektarmenn sem fylla þau skilyrði sem hér eru nefnd. En eins og ég sagði áðan þarf kannski helst að velta vöngum yfir því hvort nægjanlega víða sé tekið á í gildandi lögum.

[20:00]

Í þessu sambandi er rétt að vekja athygli á stjórnsýsluendurskoðun sem Ríkisendurskoðun vann og skilaði af sér í sérstakri skýrslu í október 1998. Þar kemur einmitt fram að Ríkisendurskoðun telur að gera þurfi ýmsar lagfæringar á núgildandi lögum. Ég vil vitna í skýrsluna þar sem fjallað er um þessi mál. Hér segir, með leyfi forseta:

,,Ríkisendurskoðun kannaði þá fjárhæð sem ábúendur umræddra ríkisjarða greiða á ári í leigu eða svonefnt afgjald fyrir jarðirnar. Lagaákvæðum um leigufjárhæðir ríkisjarða er ekki til að dreifa utan 33. gr. ábúðarlaganna, nr. 64/1976, sem fjallar um jarðir sem eru í erfðaábúð en þær jarðir eru eins og áður hefur komið fram ekki sérstaklega til skoðunar hér.``

Hér vekur Ríkisendurskoðun sérstaka athygli á því að lögin taka ekki nægjanlega skýrt á afgjaldi fyrir jarðirnar og í þessari skýrslu er ekki verið að fjalla um þær jarðir, þ.e. sem eru í erfðaábúð sem fjallað er um í 33. gr. laganna, en þar eru ákvæði um leigufjárhæðir. Áfram segir, með leyfi forseta, í skýrslu Ríkisendurskoðunar:

,,Engin skylduákvæði eða settar reglur er að finna um afgjald eða leigu annarra ríkisjarða sem eru í ábúð. Í 7. gr. ábúðarlaga er að finna ákvæði sem heimilar samningsfrelsi á þessu sviði en þar er einnig heimildarákvæði um viðmið leigufjárhæðar.``

Herra forseti. Það er eimitt hér sem ég tel ástæðu til að velta vöngum yfir hvort ástæða hefði verið til þess að endurskoða 7. gr. og hafa ákvæði þar skýrari en er í núgildandi lögum. En með leyfi forseta vil ég halda áfram með skýrslu Ríkisendurskoðunar, því hér segir:

,,Ríkisendurskoðun beindi fyrirspurn til jarðadeildar landbúnaðarráðuneytisins um leigufjárhæðir, sérstaklega með tilliti til ofangreinds. Í svari ráðuneytisins segir orðrétt:

,,Á árinu 1979 eða 1980 ákvað ráðuneytið að leiga eftir ríkisjarðir skyldi vera 3% af fasteignamati á landi jarðar og þeirra mannvirkja sem ríkið ætti á viðkomandi jörð. Jafnframt 3% af mismun á fasteignamati og úttektarmati (kaupverði) mannvirkja.``

Herra forseti. Ég vil vekja sérstaka athygli á þeirri setningu sem hér kemur síðan áfram í svari ráðuneytisins:

,,Ekki hefur tekist að fá upplýsingar um þessa ákvörðun til þess að varpa ljósi á það hvers vegna 3% eru valin en ekki t.d. 5%, eða þá önnur viðmiðun.````

Herra forseti. Ýmislegt virðist benda til þess í tilvitnuðum orðum að ástæða sé til að skoða sérstaklega þessi ákvæði í núgildandi lögum. Enn vil ég halda áfram, því í skýrslu Ríkisendurskoðunar segir hér örlítið aftar:

,,Það er mat Ríkisendurskoðunar að leiga sem nemur 3% af fasteignamati jarðar og mannvirkja sé of lág með tilliti til þeirra fjármuna sem liggja í þeim eignum sem hér um ræðir og má sjá nánari rökstuðning fyrir þessu áliti Ríkisendurskoðunar í öðrum köflum í skýrslunni.``

Áfram er haldið í skýrslu Ríkisendurskoðunar og það er kannski meginniðurstaðan varðandi það sem ég hef verið að segja því hér segir þegar enn er búið að taka saman hluta af því sem ég hef áður sagt, með leyfi forseta:

,,Að mati Ríkisendurskoðunar er tímabært að taka löggjöf um ríkisjarðir að þessu leyti til endurskoðunar.``

Herra forseti. Full ástæða er til þess að hvetja hv. landbn. til þess að skoða þetta frv. vel í ljósi og í samhengi við stjórnsýsluendurskoðun Ríkisendurskoðunar og gildandi lög. Þess vegna tel ég brýnt að nefndin fari yfir málið og kalli til sín, ekki aðeins fulltrúa ráðuneytisins, heldur einnig fulltrúa Ríkisendurskoðunar, þannig að fara megi gaumgæfilega yfir málið og það náist eins og hæstv. landbrh. tilgreindi í ræðu sinni að væri megintilgangur frv., að fella burt helstu annmarka í gildandi lögum.

Að lokum, herra forseti, vil ég taka undir orð hæstv. forseta að það er nægur tími til að ná þessu máli fram fyrir upphaf næstu aldar, nýrrar aldar. Ég vil því að lokum koma þeirri ósk á framfæri að okkur í landbn. takist að afgreiða málið frá okkur töluvert fyrr þannig að það megi ná breytingum fram á þessum lögum á þessu ári.