Starfsemi Ratsjárstofnunar

Miðvikudaginn 02. febrúar 2000, kl. 13:40:17 (3834)

2000-02-02 13:40:17# 125. lþ. 55.1 fundur 211. mál: #A starfsemi Ratsjárstofnunar# fsp. (til munnl.) frá utanrrh., utanrrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 55. fundur, 125. lþ.

[13:40]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Sem svar við fyrstu spurningu hv. þm. vil ég taka fram að þau störf sem unnin eru á ratsjárstöðvunum þremur sem hv. þm. tilgreinir miðast alfarið við rekstrarþörf hverrar stöðvar. Það er því ekki tilefni til fjölgunar starfa hvað rekstur stöðvanna snertir.

Á höfuðborgarsvæðinu eru tíu starfsmenn við störf á skrifstofu Ratsjárstofnunar í Reykjavík sem eru um 15% allra starfsmanna stofnunarinnar. Þeir annast stjórnar- og rekstrarþætti er varða allar rekstrareiningar hennar svo sem fjármál, gæðastjórnun, þjálfun, samningagerð auk almennrar skrifstofuþjónustu.

Starfsfólk skrifstofunnar í Reykjavík ferðast mikið til ratsjárstöðvanna svo og til hugbúnaðarstöðvar, birgðastöðvar og stjórnstöðvar á varnarsvæðinu á Keflavíkurflugvelli. Þrátt fyrir mikla notkun nútímafjarskiptatækni eru umræddar ferðir óumflýjanlegar. Rétt er að geta þess að dreifð staðsetning rekstrareininga stofnunarinnar er hluti af rekstrarsamningi íslenskra og bandarískra stjórnvalda en bandarísk stjórnvöld greiða rekstrarkostnað Ratsjárstofnunar. Sú ákvörðun að staðsetja skrifstofu Ratsjárstofnunar í Reykjavík var tekin að lokinni ítarlegri umfjöllun íslenskra og bandarískra samningsaðila.

Að því er varðar aðra spurninguna er rétt að taka það fram að eðli starfsemi sinnar vegna er Ratsjárstofnun í fararbroddi hvað nútímafjarskiptatækni varðar. Hins vegar eru verkefni skrifstofunnar í Reykjavík þess eðlis að þau verða ekki leyst með fjarskiptatækni einvörðungu. Skrifstofan hefur ekki aðeins samskipti við fyrrgreindar ratsjárstöðvar, hún á einnig mikil og tíð samskipti við ráðuneytisstofnanir og fagaðila á höfuðborgarsvæðinu og síðast en ekki síst þær deildir varnarliðsins á Keflavíkurflugvelli sem nýta og greiða þjónustu Ratsjárstofnunar.

Til frekari útlistunar vil ég endurtaka að Ratsjárstofnun rekur einnig hugbúnaðar- og birgðastöð á varnarsvæðinu á Keflavíkurflugvelli sem er hluti af ratsjárstöðinni á Miðnesheiði. Því vil ég að lokum taka fram að við núverandi aðstæður og þær samningsskuldbindingar sem liggja fyrir eru ekki taldir möguleikar til breytinga hvað svo sem síðar kann að verða.