Starfsemi Ratsjárstofnunar

Miðvikudaginn 02. febrúar 2000, kl. 13:44:30 (3836)

2000-02-02 13:44:30# 125. lþ. 55.1 fundur 211. mál: #A starfsemi Ratsjárstofnunar# fsp. (til munnl.) frá utanrrh., Fyrirspyrjandi EKG
[prenta uppsett í dálka] 55. fundur, 125. lþ.

[13:44]

Fyrirspyrjandi (Einar K. Guðfinnsson):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. utanrrh. fyrir greinargóð svör þó ekki geti ég sagt að ég sé með nein sérstök húrrahróp yfir efnisinnihaldi svarsins eða niðurstöðunum sem hæstv. utanrrh. komst að varðandi þá möguleika sem kynnu að vera til staðar að flytja þessi verkefni út á land. Út af fyrir sig get ég ekki heldur sagt að ég hafi orðið ýkja undrandi. Það er því miður oftast nær þannig að þegar við erum að reyna að velta þessum málum fyrir okkur rekum við okkur alltaf á þennan vegg. Greinilega er mikil andstaða almennt innan stjórnkerfisins af hálfu embættismanna við að færa verkefni sem unnin eru á höfuðborgarsvæðinu út á land og það er bara þannig. Ég geri mér grein fyrir því að hæstv. utanrrh. fær þær upplýsingar sem er verið er að byggja á. Ég vil í þessu sambandi vekja sérstaklega athygli á því að í svari hæstv. ráðherra kom fram að auk annarra starfa sem unnin eru hjá Ratsjárstofnun eru m.a. almenn skrifstofustörf. Við vitum það einfaldlega að nútímafjarskiptatækni leyfir að slík störf séu unnin með öðrum hætti núna en var fyrir nokkrum árum. Fjarskiptatæknin sem við erum svo mikið að tala um á hátíðarstundum gefur möguleika og tilefni til að vinna dreifðar en gert hefur verið.

Það er alveg rétt sem hæstv. utanrrh. vakti athygli á að þessar stöðvar byggja auðvitað á því að vera í fararbroddi hvað varðar nútímafjarskipti og því hefði maður talið að einmitt þessi stofnun af öllum væri líklegust til að skilja þá möguleika sem felast í nútímafjarskiptum og fyrirtæki í einkaeign sem þurfa að hugsa um að græða peninga eru t.d. meira og meira að tileinka sér en því miður ganga málin af hálfu hins opinbera óskaplega hægt fyrir sig.

Því vil ég að lokum, vegna þess að ég veit að það er líka vilji hæstv. utanrrh. að dreifa störfunum sem mest um landið og efla þessa atvinnustarfsemi á landsbyggðinni, hvetja hæstv. utanrrh. til að gera enn eina atrennu að þessari stofnun og kanna hvort ekki sé hægt að flytja t.d. einhvern hluta þeirra almennu skrifstofustarfa sem nú eru unnin á höfuðborgarsvæðinu út á land til svo ágætra byggðarlaga sem Þórshafnar eða Bakkafjarðar, Hornafjarðar og Bolungarvíkur.