Tannréttingar barna og unglinga

Miðvikudaginn 02. febrúar 2000, kl. 13:57:49 (3840)

2000-02-02 13:57:49# 125. lþ. 55.2 fundur 179. mál: #A tannréttingar barna og unglinga# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., ÁMöl
[prenta uppsett í dálka] 55. fundur, 125. lþ.

[13:57]

Ásta Möller:

Virðulegi forseti. Á síðasta kjörtímabili átti ég sæti sem varamaður í tryggingaráði og þar tók ég þátt í endurskoðun á reglum um hlut sjúkratrygginga í kostnaði við tannréttingar. Það var í nóvember 1997. Þegar þessar reglur voru teknar til endurskoðunar ríkti ákveðið frumskógarlögmál í þessum málum og kostnaður kominn úr böndum. Gjaldskráin var frjáls og þar sem þátttaka Tryggingastofnunar ríkisins í kostnaði einstaklinga var hlutfallsleg greiddi stofnunin mismunandi verð fyrir sömu meðferð allt eftir gjaldskrá tannlæknanna.

Þetta ástand var ótækt, það var ekki til hagsbóta fyrir einstaklingana en gagnaðist helst tannlæknunum sjálfum sem ákváðu verðið einhliða. Kærumál til tryggingaráðs vegna tannréttinga voru afar fyrirferðarmikil, um 500 umsóknum til tannréttinga var synjað á árinu 1996 til samanburðar við 46 synjanir á árinu 1999.

Sú niðurstaða um þátttöku í kostnaði við tannréttingar sem núgildandi reglur byggja á var að mínu mati afar skynsamleg og friður ríkir um þær. Allir sem byrja tannréttingameðferð undir 21 árs aldri fá sama styrk og það tryggir jafnræði, eykur kostnaðarvitund og styrkir samningsstöðu þeirra sem þurfa að fara í tannréttingar gagnvart tannlæknum eða að leita bestu verða.