Tannréttingar barna og unglinga

Miðvikudaginn 02. febrúar 2000, kl. 13:59:14 (3841)

2000-02-02 13:59:14# 125. lþ. 55.2 fundur 179. mál: #A tannréttingar barna og unglinga# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., SJS
[prenta uppsett í dálka] 55. fundur, 125. lþ.

[13:59]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Enginn vafi er á því að skerðingarnar á endurgreiðslu tannlæknakostnaðar, sérstaklega í tíð ríkisstjórnar Alþfl. og Sjálfstfl. á árunum 1992 og 1993, voru veruleg atlaga að velferð þeirra sem fyrir urðu, þ.e. barnafjölskyldur og elli- og örorkulífeyrisþegar. Á síðasta ári var að vísu tekið nokkuð skref til baka í rétta átt en betur má ef duga skal. Ég minni í því sambandi á frv. sem liggur fyrir þinginu, flutt af hv. þm. Ögmundi Jónassyni og Þuríði Backman, um að endurgreiðsluhlutföll verði hækkuð og aldursmörkum breytt eins og þar gefur að lesa.

Ég vil svo að lokum, herra forseti, minna á einn hóp alveg sérstaklega sem ég hygg að hafi farið mjög illa út úr þessum breytingum og þeim reglum sem gilt hafa og það eru börn með ýmsa meðfædda galla, t.d. að taka börn sem fæðast með þann sjúkdóm að fá ekki fullorðinstennur nema að litlu og jafnvel engu leyti síðar á ævinni. Ég þekki mörg dæmi um foreldra sem hafa orðið fyrir ómældum kostnaði vegna slíkra tilvika.