Tannréttingar barna og unglinga

Miðvikudaginn 02. febrúar 2000, kl. 14:01:44 (3843)

2000-02-02 14:01:44# 125. lþ. 55.2 fundur 179. mál: #A tannréttingar barna og unglinga# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 55. fundur, 125. lþ.

[14:01]

Ögmundur Jónasson:

Herra forseti. Ég þakka fyrir þessar fyrirspurnir frá hv. þm. Guðmundi Árna Stefánssyni og tek undir málflutning hans. Staðreyndin er sú að tannlæknakostnaður er þungur baggi hjá mörgum fjölskyldum í landinu. Sá baggi var þyngdur í byrjun tíunda áratugarins og kom fram í könnun sem landlæknisembættið gerði á sínum tíma þar sem spurt var hvort sjúkrakostnaður væri farinn að mismuna fólki. Í ljós kom að það voru einkum tannlækningarnar sem efnalítið fólk veigraði sér við. Í Vinstri hreyfingunni -- grænu framboði höfum við reynt að snúa þessari öfugþróun við og orðið nokkuð ágengt.

Staðreyndin er sú að það er rétt sem fram kom í máli hv. þm. Ástu Ragnheiðar Jóhannesdóttur að meðaltalskostnaður sumra tannréttingasérfræðinga mun vera um 200 þús. kr. á sama tíma og hann er 400 þús. hjá öðrum. Þetta kom reyndar fram í svari hæstv. ráðherra við fyrirspurn frá mér fyrir nokkrum mánuðum. Ég sagði þá að mér fyndist vel koma til álita að beita verðlagsákvæðum á þessa stétt. Ef það verður hins vegar ekki gert þarf að upplýsa almenning um verðlagninguna þannig að hún verði gagnsæ. Það er mjög mikilvægt að svo verði gert.