Þjónusta við geðsjúk börn

Miðvikudaginn 02. febrúar 2000, kl. 14:10:06 (3847)

2000-02-02 14:10:06# 125. lþ. 55.3 fundur 215. mál: #A þjónusta við geðsjúk börn# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., heilbrrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 55. fundur, 125. lþ.

[14:10]

Heilbrigðisráðherra (Ingibjörg Pálmadóttir):

Virðulegi forseti. Hv. þm. spyr hvort það sé áform heilbrrh. að BUGL verði lokuð um helgar til frambúðar. Í upphafi er nauðsynlegt að upplýsa hv. þm. að það er fagfólk og stjórnendur stofnunar sem meta og taka ákvarðanir um atriði eins og helgarlokanir. Þær eru teknar á grundvelli faglegra og rekstrarlegra sjónarmiða. BUGL var breytt í fimm daga deild fyrir nokkuð mörgum árum. Um leið var göngudeild styrkt. Á unglingadeild er 24 tíma vakt alla daga vikunnar og þar eru allt að 8 sólarhringspláss og þegar sérstök þörf er fyrir hendi er unnt að halda barnadeildinni opinni yfir helgar. Börn af barnadeild geta auk þess legið á unglingadeild um helgar. Þess dagana er einnig verið að bæta móttöku fyrir unglinga með tveimur viðbótarrýmum til þessara nota.

Á BUGL er rekin fjölbreytt þjónusta fyrir börn og ungmenni og foreldra og með aukinni dagdeildarþjónustu og göngudeildarþjónustu hefur tekist að þjóna mun fleirum. Á tímabilinu frá janúar til september 1999 fjölgaði legudögum um 37,5% miðað við sama tíma árið áður en minnkað á móti á dagdeildum þannig að á síðasta ári hefur verið brugðist við aukinni þörf fyrir sólarhringsþjónustu. Á síðustu árum hefur fjármagn til BUGL ítrekað verið aukið, sérstaklega til að fjölga starfsfólki og bæta þannig þjónustuna. Síðasta ár, 1999, voru teknar ákvarðanir um að auka fjármagn til þessara mála um yfir 120 millj. kr. sem skiptist á BUGL og Barnaverndarstofu. Frá því í nóvember 1997 hefur setnum stöðum verið fjölgað um 21 eða rúmlega 30% en nú eru setnar 79 stöður á barna- og unglingageðdeild.

Bent skal á að hluti fjölgunarinnar er vegna flutnings Kleifarvegsheimilisins til BUGL en með þessari fjölgun á að vera unnt að sinna mun fleiri einstaklingum. Fjölgun starfsfólks á þessu sviði hefur verið erfið m.a. þar sem skortur hefur verið á sérmenntuðum barnageðlæknum en það mun horfa til bóta. Þá eru þessi störf mjög krefjandi og erfið og því miður endast margir stutt í þeim.

Virðulegi forseti. Hv. þm. spyr einnig um hvenær vænta megi að hvíldarinnlagnir standi til boða fyrir geðsjúk börn. Stuðningsúrræði fyrir aðstandendur barna eru fyrst og fremst innan félagsþjónustunnar og fyrir fatlaða á vegum svæðisskrifstofa. Þá eru að sjálfsögðu önnur úrræði eins og liðveisla og stuðningsfjölskyldur á vegum félagsmálayfirvalda sem koma til hjálpar við þessar erfiðu aðstæður. Hugmyndir um hvíldarinnlangir sem stuðning við aðstandendur hafa komið fram en ekki eru uppi áætlanir um að þær verði á barnageðdeildinni. Hins vegar kæmi til greina að þær væru skipulagðar utan BUGL og þá jafnvel á vegum félagsmálayfirvalda með svipuðum hætti og aðstandendum fatlaðra barna stendur nú til boða.

Í þessu efni verðum við stöðugt að vera vakandi og þróa þjónustu og úrræði eftir því sem faginu fleygir fram og þeirri þörf sem fyrir hendi er. Samkvæmt upplýsingum BUGL hefur náðst að stytta biðlista verulega eða um 40%, ég endurtek að biðlistar hafa styst um 40%. Þetta gerist á sama tíma og nýjum málum fjölgar um allt að þriðjung frá fyrra ári. Þessar staðreyndir vekja vonir um að aukið fjármagn og fjölgun starfsfólks sé að skila sér áþreifanlega til þeirra sem þurfa að nýta sér þessa þjónustu.