Neyðarmóttaka fyrir geðsjúk börn

Miðvikudaginn 02. febrúar 2000, kl. 14:24:25 (3854)

2000-02-02 14:24:25# 125. lþ. 55.4 fundur 216. mál: #A neyðarmóttaka fyrir geðsjúk börn# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., heilbrrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 55. fundur, 125. lþ.

[14:24]

Heilbrigðisráðherra (Ingibjörg Pálmadóttir):

Virðulegi forseti. Þessar fyrirspurnir tengjast allar mjög náið og ég minni á að á unglingadeildinni er 24 tíma vistun alla daga vikunnar, líka um helgar. Hún er í sama húsi og barnadeildin, bara svo að menn viti hvernig þetta er skipulagt.

Varðandi spurningu hv. þm. um áform um að koma á fót neyðarmóttöku fyrir geðsjúk börn þá vil ég svara því til að á fundi ríkisstjórnarinnar þann 24. júní 1999 var ákveðið að veita 30 millj. kr. til að setja á fót bráðamóttöku fyrir 8--10 unglinga vegna hegðunar- og geðraskana. Í frv. til fjárlaga fyrir árið 2000 eru ætlaðar 70 millj. kr. til þessa verkefnis. Lögð er áhersla á samvinnu BUGL og Barnaverndarstofu í þessu sambandi en verkefni þessara stofnana skarast eins og svo oft hefur komið fram.

Á grundvelli ákvörðunar ríkisstjórnarinnar gerðu ráðherrar félagsmála og heilbrigðis- og tryggingarmála með sér samkomulag. Samkomulagið felur í sér m.a. að gerður verði þjónustusamningur á milli Barnaverndarstofu og barna- og unglingageðdeildar Landspítalans um að reka bráðamóttöku á vegum BUGL. Vísir að rekstri slíkrar deildar er þegar kominn á Landspítalanum þar sem tvö herbergi eru nú nýtt fyrir þessa þjónustu með sérstakri aukafjárveitingu frá sl. vori, en það er til bráðabirgða eins og hv. þm. benti á. Þá er gert ráð fyrir að BUGL veiti faglega þjónustu á Stuðlum á grundvelli þjónustusamnings sem mun efla bráðaþjónustu þar og auka afkastagetu. Bráðamóttakan verður því á tveimur stöðum eftir eðli málsins en samvinna milli stjórnenda þessara stofnana er aukin til muna.

Stofnað hefur verið samstarfsráð um meðferð barna og unglinga með vímuefnavanda, hegðunar- og geðraskanir. Ráðinu er m.a. ætlað að framfylgja þeim ákvörðunum um neyðarmóttöku er hér hafa verið kynntar. Í ráðinu sitja fulltrúar heilbr.- og trmrn., félmrn., Barnaverndarstofu, BUGL, Stuðla og SÁÁ. Jafnframt fékk barna- og unglingageðdeild 15 milljónir á sl. ári til að efla starfsemi og ráða fleira fagfólk. Í fjárlögum þessa árs er rekstrargrunnur barna- og unglingageðdeildar einnig hækkaður verulega.

Ég minni jafnframt á það sem ég sagði áðan. SÁÁ hefur nýlega opnað sérstaka deild fyrir börn og unglinga í vímuefnavanda og hefur verið veitt fé til þeirrar deildar á fjárlögum þessa árs. Reksturinn á ársgrundvelli er um 60 millj. kr. og ríkið hefur þegar lagt 45 millj. kr. í stofnkostnað. Með þessu aukna fjármagni og meiri og betri samvinnu hjá þeim sem veita þessa þjónustu mun móttaka og meðferð barna og unglinga með geðræna sjúkdóma batna til muna.